Greinasafni: Menntun
Tónskóli Hörpunnar fagnaði nýverið tíu ára starfsafmæli
  Tónskóli Hörpunnar fagnaði nýverið tíu ára starfsafmæli sínu með nemendatónleikum í vor, í haust verða svo sérstakir kennaratónleikar af sama tilefni.

Tónskóli Hörpunnar er almennur tónlistarskóli og sinnir fólki á öllum aldri, kennir á flest algengustu hljóðfæri og er einnig með forskólakennslu á blokkflautu. Kjartan Eggertsson, skólastjóri Tónskóla Hörpunnar, segir að áhersla sé lögð á hefðbundið tónlistarnám þar sem hin svokölluðu þrjú T séu leiðarvísir í starfi skólans, en téin þrjú eru tungumál, tækni og tónlist. „Með T3 vill skólinn leggja áherslu á að nemendur átti sig á því í hverju hljóðfæranám sé fólgið. Nótnalestur er eins og tungumál, sem hægt er að lesa, skrifa og tala, tæknin er aðferðin sem notuð er við að spila á hvert og eitt hljóðfæri og tónlistin er sú, sem nemandinn hefur áhuga á að glíma við, sú sem kennarinn villa að hann kynnist og sú sem er viðfangsefni í kennslubókunum,“ segir Kjartan.


Kjartan Eggertsson


Hann segir markmið skólans vera að nemendur öðlist þá reynslu að þeir líti á hljóðfæraleik sem sjálfsagðan hlut, í einrúmi, með öðrum og í áheyrn annarra, til ánægju og yndisauka. „Mestu verðmæti tónlistarnáms felast í þeirri reynslu að spila á hljóðfæri, til dæmis undir því áreiti að foreldrar og aðrir nemendur eru áheyrendur, en þá eru flest skynfæri virk; sjón, heyrn, jafnvægisskyn, grófhreyfingar, fínhreyfingar, snertiskyn og svo framvegis og einbeitingin mikil og hvert sekúndubrot skiptir máli. Sköpunarþörfin fær góða útrás í hljóðfæraleik,“ segir Kjartan.

Draumar um partýspil
Hann segir að auk hefðbundinnar klassískar tónlistarkennslu læri nemendur að leika án nótna og semja sína eigin tónlist. „Til dæmis þurfa gítarnemendur að læra klassískan nótnalestur, en einnig gítargrip og hljóma og blús og rokk tónstiga svo þeir verði hæfari að leika af fingrum fram og spinna,“ segir Kjartan

Tónskóli Hörpunnar býður einnig upp á kvöldnámskeið fyrir fullorðna í gítarleik í hóptímum sem Kjartan segir að hafi verið vel sóttir og hafi í sumum tilfellum leitt til frekara náms. „Hversu marga dreymir ekki um að kunna gítargrip til að geta spilað í partýum eða með skólasöngvum barnanna sinna,“ segir Kjartan.

Sálrænt og félagslegt gildi
Kjartan segir tónlistariðkun vera þroskavænlega athöfn, auk þess að hafa mikið sálrænt og félagslegt gildi og einmitt þess vegna hafi tónlistarnám átt stóran sess í samfélaginu. „Sá sem hefur á einhverju árabili á grunnskólaaldri stundað tónlistarnám nýtur þess um alla framtíð, því hann á þá auðveldara með að vera virkur þátttakandi í hljóðfæraleik og söng og er hæfari til að njóta hvers konar tónlistar,“ segir Kjartan.

Kjartan segir tónlistariðkun vera þroskavænlega athöfn, auk þess að hafa mikið sálrænt og félagslegt gildi

Í skólanum eru 250 nemendur, en Reykjavíkurborg greiðir með 68 nemendum. „Skólinn hefur í mörg ár vænst þess að allir nemendur í sambærilegu tónlistarnámi fengju sömu niðurgreiðslu á námskostnaði frá borginni, en borgarfulltrúar hafa ekki lagt fram tillögur um breytingar á úthlutun til tónlistarnema og tónlistarskólanna til að jafna aðstöðumun, þrátt fyrir yfirlýsingar um jafnrétti til náms handa öllum börnum og heiðarlega samkeppni í skólarekstri. Á tímum sem þessum ætti að auka fjármagn til tónlistarkennslu og hvers konar þroskandi náms handa börnum til að reyna að mæta þeim afleiðingum sem efnahagsleg kreppa hefur á samfélagið,“ segir Kjartan.

Kjartan segir að framundan hjá Hörpunni sé að takast á við 21% niðurskurð fjárframlaga frá borginni. „Skólinn stefnir að því að sinna öllum sínum nemendum þrátt fyrir niðurskurðinn og vonar að hann sé bara tímabundinn.

Í vetur stefnir skólinn að því að halda námskeið fyrir tónlistarnema og tónlistarkennara undir nafninu „Líkamsvitund tónlistarfólks“. Kennari verður Heiðbjört Tíbrá Kjartansdóttir, sjúkraþjálfari og tónlistarkennari. Viðfangsefni námskeiðsins er álagsmeiðsli tónlistarfólks, líffærafræði, líkamsbeiting og áhrif líkamsþjálfunar,“ segir Kjartan.


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga