Greinasafni: Menntun
Þekkingarnet Austurlands
Þekkingarsamfélagið styrkt

Þekkingarnet Austurlands hefur á tíu árum þróast frá því að vera eins manns stofnun yfir í tólf manna stofnun með fimm starfsstöðvar víða um Austurland, þar sem boðið er upp á náms- og starfsráðgjöf , aðstöðu til náms og stuðning bókasafnsfræðings og kennara  við nemendur.  Stefanía Kristinsdóttir, framkvæmdastjóri ÞNA, segir að með góðu samstarfi við sveitarfélög, fyrirtæki og stofnanir leitist ÞNA við að styrkja innviði og þróun þekkingarsamfélagsins í dreifðum byggðum landsins.

Stefanía segir að tilurð ÞNA á Austurlandi hafi orðið til þess að auka verulega framboð á símenntun og fullorðinsfræðslu á Austurlandi, þá hafi verið byggð upp aðstaða og þjónusta fyrir nemendur í dreifnámi á háskólastigi, enda hafi fjöldi þeirra tvöfaldast á síðustu fimm árum. „ÞNA býður fyrirtækjum og stofnunum á Austurlandi upp á margvíslega þjónustu, sérsniðin námskeið, námsráðgjöf og markvissa greiningu og ráðgjöf (stefnumótunarferli er varðar starfsþróun og símenntunarstefnu fyrirtækja). ÞNA hefur með ráðgjöf sinni og þjónustu orðið til þess að margir hafa farið aftur í nám á fullorðinsaldri,“ segir Stefanía.

Markmið ÞNA eru víðtæk og ná meðal annars yfir: að auka framboð á símenntun og fullorðinsfræðslu, veita einstaklingsmiðaða þjónustu til íbúa varðandi nám og starf, raunfærnimat í verkgreinum, Markviss ráðgjöf til fyrirtækja, fjölgun háskólanemua og auka framboð á háskólanámi í dreifnámi,

stuðla að þróun staðbundins háskólanáms í samstarfi við stofnanir og sérfræðinga á Austurlandi og stuðla að uppbyggingu og þróun rannsókna og rannsóknanáms á Austurlandi.

Hún segir að ástandið á atvinnumarkaði á Austurlandi sé nokkuð gott miðað við landið allt og stöðuna eins og hún var í vor. „Búist er við neikvæðri þróun með haustinu og auknu atvinnuleysi. ÞNA er í góðu samstarfi við Vinnumálastofnun og aðila vinnumarkaðarins um þróun úrræða fyrir atvinnuleitendur. Þar er horft til námskeiða, ráðgjafar, áhugasviðsgreininga og raunfærnimats sem mögulegra úrræða.  Þessi úrræði má tvinna við það námsframboð sem þegar er í boði hjá framhalds- og háskólum sem og úrræði tengd starfsþjálfun,“ segir Stefanía.

Framundan eru fjölbreytt námskeið, bæði tómstunda og starfstengd námskeið. „Síðari ár hefur verið lögð áhersla á að þróa lengri námskeið fyrir ákveðna hópa oft í samstarfi við sveitarfélög, stofnanir, fyrirtæki og hópa á svæðinu sem mótað hafa hugmyndir að námskeiðum í samráði við starfsmenn ÞNA,“ segir Stefanía 

Dæmi um námskeið á haustönn:

• Hönnunarnám í samstarfi við Menningaráð Austurlands með áherslu á þjálfun í hönnun og efnismeðferð. Markhópurinn er handverksfólk á Austurlandi.  

• Meistari Megas, námskeið um líf og starf, lög og ljóð Meistarans. Áhersla á náttúrusýn, slangur og hæðni í verkum Megasar.

• Menningartengd ferðaþjónusta á Vopnafirði, áhersla á sögu Vesturfara og heiðarbýla.

• Frumkvöðlanámskeið fyrir innflytjendur.

• Rússneska fyrir byrjendur í fjarnámi

• Nýjar leiðir - námskeið fyrir fiskvinnslufólk á Hornafirði • Evrópunámskeið, krass- kúrs fyrir þá sem vilja vita um hvað málið snýst


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga