Starfsfólkið mesta auðlind fyrirtækja
  
Þjónustufyrirtækið Vinnuvernd sinnir meðal annars fjölbreyttu fræðslustarfi

Vinnuvernd er þjónustufyrirtæki sem sérhæfir sig á sviði vinnuverndar, heilsuverndar og heilsueflingar. Þjónusta Vinnuverndar miðar að því að aðstoða fyrirtæki og starfsmenn þeirra við að bæta öryggi, líðan og heilsufar á vinnustað og á þann hátt að draga m.a. úr fjarvistum. Hjá Vinnuvernd starfa læknar, hjúkrunarfræðingar, sjúkraþjálfarar, lýðheilsufræðingur, vinnuvistfræðingur og sálfræðingar sem allir sinna fjölbreyttum verkefnum. Alls er þetta 12-14 manna teymi.

Valgeir segir það er líklegast aldrei hafa verið mikilvægara en nú að fyrirtæki sinni vinnu- og heilsuverndarstarfi. Ljósm. Ingó.

Sem dæmi um þjónustuþætti má nefna trúnaðarlæknisþjónustu, úttektir á vinnuaðstæðum, vinnuvistfræðilega ráðgjöf, heilsufarsmælingar, áhættumat, vinnu við eineltismál, áfallahjálp, ýmis konar fræðsla, námskeið og margt fleira. Einnig hafa sérfræðingar Vinnuverndar aðstoðað fjölmörg fyrirtæki við að skipuleggja heilsueflingu til lengri tíma.

Aldrei mikilvægara
V
algeir Sigurðsson hjá Vinnuvernd segir það er líklegast aldrei hafa verið mikilvægara en nú að fyrirtæki sinni vinnu- og heilsuverndarstarfi. „Starfsfólkið er mesta auðlind fyrirtækja og má segja að það sé lykilatriði að hlúa vel að því við uppbyggingarstarfið sem framundan er. Bæði starfsmenn og stjórnendur eru vængbrotnir eftir áföll síðastu 10-12 mánaða, víða hefur fólki verið fækkað, starfshlutfall fært niður eða laun og fríðindi skert. Engu að síður er launakostnaður stærsti einstaki kostnaðarliðurinn í öllum rekstri og það er mjög mikilvægt að leggja rækt við uppbygginguna á öllum vinnustöðum. Vinnuverndarstarfið er líklegast ódýrasta ráðgjafaþjónusta sem völ er á nú í dag og það er hægt að gera býsna margt fyrir lítið fjámagn. Verkefni sem ná beint til starfsmanna og eru sýnileg á vinnustaðnum eru mjög mikilvæg um þessar mundir, „segir Valgeir.

Fræðsla og námskeið
Allt frá upphafi hefur Vinnuvernd sinnt fjölbreyttu fræðslustarfi sem hefur farið fram í formi fræðslufunda og námskeiða, auk þess sem Vinnuvernd sendir mánaðarlega fræðslupistla til þeirra fyrirtækja sem hafa gert þjónustusamninga við fyrirtækið.

Valgeir segir að áhersla hafi verið lögð á að hafa fræðsluerindi og námskeið stutt og hnitmiðuð. „Tíminn er dýrmætur auk þess sem ýmsir starfshópar eru óvanir því að sitja lengi og hlusta. Snörp námskeið með virkri þátttöku eru því það sem við höfum boðið uppá.

Meðal fræðslufunda og námskeiða má nefna skyndihjálp, einelti, líkamsbeitingu, streitu og áföll og gerð áhættumats á vinnustað. Nú síðast höfum við boðið uppá fyrirlestur þar sem fjallað er um sóttvarnir á vinnustað í tengslum við heimsfaraldur inflúensu (H1N1). Flestir fræðslufundir og námskeið fara fram á vinnustöðum og reynum við að tengja efnistök og framsetningu hverju fyrirtæki og starfshóp fyrir sig,“ segir Valgeir.

Hann segir að síðastu mánuði hafi starfið hjá Vinnuvernd snúist talsvert um þau áföll sem orðið hafa í samfélaginu. Ýmsum áfallaverkefnum hafi verið sinnt og það hafi verið unnið með þau innan sem utan vinnustaðanna.

„Nú þegar ný inflúensa (H1N1) hefur skotið sér niður hafa hjúkrunarfræðingar okkar og læknar aðstoðað fyrirtæki við viðbraðgsáætlanir þar sem menn leggja það niður fyrir sér hvernig best sé fyrir vinnustaðinn að búa sig undir og bregðast við þessum vágesti. Þessi vinna hefur verið unnin samkvæmt þeim leiðbeiningum sem sóttvarnarlæknir hefur gefið út,“ segir Valgeir.

Stuðningur stéttarfélaga
Að sögn Valgeirs átta sig ekki allir á því að fjölmörg stéttarfélög styðja ríkulega við námskeiðahald á vinnustöðum. „Segja má að stéttarfélögin hafi þetta hvert með sínu lagi. Full ástæða er til þess að nefna framgöngu Eflingar – stéttarfélags sérstaklega en félagið hefur stutt dyggilega við fræðslustarf í fyrirtækjum og innan stofnana.

Annars er bjart framundan og þó ótrúlegt megi virðast er Vinnuvernd að stækka og eflast. Fjölmargir stjórnendur hér á landi eru fyrir nokkru búnir að átta sig á því að það er hagkvæmt að sinna vinnu-og heilsuverndarstarfi og heilsueflingu á vinnustað og ég á ekki von á öðru en þeim muni fjölga í framtíðinni,“ segir Valgeir.


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga