Rannsóknarþjónustan Sýni ehf.
  Nú er að taka til starfa nýr skóli á höfuðborgarsvæðinu. Ber hann nafnið Matvælaskólinn hjá Sýni. Hann er starfræktur af Rannsóknarþjónustunni Sýni ehf. sem var upphaflega stofnuð sem rannsóknarstofa fyrir matvæla- og fóðuriðnað. Snorri Þórisson, matvælafræðingur og framkvæmdastjóri Sýnis, segir að Matvælaskólinn hjá Sýni sé hugsaður sem umgjörð utan um fjölbreytt námsefni fyrirtækisins og samstarfsaðila þess og verða fjölmörg námskeið í boði hjá skólanum.

Rannsóknarþjónustan Sýni ehf. var stofnuð 1. apríl 1993. Þótti gárungunum dagsetningin benda til þess að um grín væri að ræða, þ.e. að einkarekin rannsóknarstofa ætti litla framtíð fyrir sér. Hjá Sýni starfa nú 14 manns, þar af níu háskólamenntaðir, sumir með áratuga reynslu í þjónustu við matvælaiðnaðinn. Dótturfyrirtæki Sýnis, Promat ehf. er rekið á Akureyri og þar eru þrír starfsmenn.

Snorri segir að öll verkefni sem Sýni tekst á við snúist um matvæli og gæði á einn eða annan hátt. „Til að byrja með voru helstu verkefnin örverumælingar og efnamælingar fyrir framleiðendur í matvæla- og fóðuriðnaði en smám saman jókst áhersla á ráðgjöf og fræðslu.“

Fjölbreytt námskeiðahald hefur verið sívaxandi þáttur í starfseminni hjá Sýni. Áhersla hefur verið lögð á að aðlaga námskeiðin að þörfum hvers fyrirtækis eða hóps. Til að mæta þörfum fyrirtækja úti á landsbyggðinni hafa starfsmenn RÞS haldið námskeið um allt land. Hafa þau auk þess verið haldin á nokkrum tungumálum með aðstoð túlka svo að efnið skili sér sem best til þeirra sem ekki hafa full tök á íslensku. Og loks hefur efni sem dreift er verið þýtt á nokkur tungumál.

„Í umræðu um heilsueflingu og vellíðan á vinnustað hefur umræða um mataræðið verið vanrækt,“ segir Snorri. „Við höfum því boðið fyrirtækjum og stofnum upp á námskeið sem við köllum Borðum betur. Í þessu samhengi höfum við aukið áherslu á mataræði og fjölbreytni í hráefnisvali og þróað ýmis námskeið á því sviði. Meðal annars má nefna matreiðslunámskeið þar sem hressir krakkar koma og matreiða og borða saman.”

Nýjasta verkefnið
Matvælaskólinn hjá Sýni, nýjasta verkefni Sýnis, er hugsaður sem umgjörð utan um fjölbreytt námsefni fyrirtækisins og samstarfaðilanna og er ætlað að svara mikilli þörf á fræðslu í matvælaiðnaði. Námskeiðum má skipta í grófum dráttum í þrjá flokka:

•Gæði og öryggi matvæla.
•Hollusta og matseld – t.d. krakkamatur og hópeflisnámskeið þar sem hópar elda og borða saman.

•Sérhæfð námskeið t.d. nám fyrir almenna starfsmenn í matvælaiðnaði sem metið er til fimm eininga á framhaldsskólastigi.

„Námsskráin er unnin í samstarfi við Fræðslumiðstöð atvinnulífsins, Starfsafl, Landsmennt, Eflingu og Matvælastofnun. Þar er ætlunin að bjóða upp á framhaldsnám sem miðar að því að viðkomandi geti starfað sem gæðastjóri í matvælafyrirtækjum. Einnig viljum við endilega nefna nýtt námskeið sem haldið verður í haust; Stofnun fyrirtækja í matvælaiðnaði, en það fékk styrk frá Starfsmenntaráði. Þá erum við í góðu samstarfi við Þekkingarmiðlun sem býður námskeið varðandi mannauðsmál og stjórnun og Verkís hf. með námskeið um vinnuvernd, öryggismál, neyðarstjórnun og hönnun húsnæðis og búnaðar. Sýni ehf. hefur gert samstarfssamninga við Landsmennt og Starfsafl sem styrkja mörg okkar námskeiða,“ segir Snorri en bendir á í lokin að frekari upplýsingar um starfsemi Matvælaskólans hjá Sýni megi fá á heimasíðunni www.syni.is eða í tölvupósti á netfangið matvaelaskolinn@syni.is


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga