Kraftmikið afþreyingarfyrirtæki
  Kraðak er kraftmikið afþreyingarfyrirtæki sem býður m.a. upp á áhugaverðar leiksýningar sem í senn eru fræðandi fyrir áhorfendur og hafa mikið skemmtanagildi. Kraðak reið á vaðið í nóvember á síðasta ári með sýningunni Let´s talk Christmas sem vakti mikla lukku. Í þeirri sýningu tók sjálf Grýla, móðir jólasveinanna á móti gestum og uppfræddi þá um íslensku jólin og hvernig jólahaldinu hér á Fróni er háttað.

Mynd:Jóel Sæmundsson leikari klár í
slaginn fyrir sýninguna Let´s talk local.


Anna Bergljót Thorarensen eigandi Kraðaks leikstýrir Let´s talk sýningunum, en höfundur verksins er Snæbjörn Ragnarsson. Þann 15.júlí síðastliðinn frumsýndi Kraðak leikritið Let´s talk local sem er af sama meiði og Let´s talk Christmas nema að viðfangsefnið þetta sinnið er saga Reykjavíkurborgar allt frá landnámi til dagsins í dag, með léttu ívafi og skemmtanagildið í fyrirrúmi. Verkið sem flutt er á ensku er sýnt á hverjum degi klukkan 18:00 í koníaksstofunni á Restaurant Reykjavík. 

Tveir leikarar sjá um flutning á verkinu, en vegna þess hve ört það er sýnt er tvöfalt gengi sem skiptir með sér sýningunum, en það eru leikararnir Anna Brynja Baldursdóttir, Jóel Sæmundsson, Jón Stefán Sigurðsson og Ólöf Hugrún Valdimarsdóttir, en þau námu öll leiklist í Bretlandi. Viðtökurnar á sýningunni hafa verið afbragðsgóðar og áhorfendur einatt gengið út með bros á vör, margsvísari um höfuðborgina. 

Verkið verður áfram sýnt í vetur og með haustinu fer Kraðak í samstarf við menntaskóla og elstu bekki grunnskóla. Þar sem sýningin Let´s talk local er öll á ensku verður fléttað saman tveimur námsgreinum sögu og ensku og sýningin verður kynnt námsmönnum sem viðbót við þeirra nám. En Kraðak lætur ekki þar við sitja, hugmyndirnar eru við hvert fótmál. Í bígerð eru fræðandi og skemmtilegar Let´s talk sýningar sem m.a. gera grein fyrir Húsavík, tónlist og Valhöll ásamt því að jólasýningin verður aftur tekin upp fyrir jólin. Það verður því spennandi að fylgjast með framhaldinu hjá Kraðak þar sem uppspretta hugmyndanna er óþrjótandi og úr nægu að moða.

 Viðtökurnar á sýningunni hafa verið afbragðsgóðar og áhorfendur einatt gengið út með bros á vör, margsvísari um höfuðborgina.

Nánari upplýsingar á  www.kradak.is


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga