Greinasafni: Menntun
Fyrstu frumkvöðlarnir útskrifast hjá Keili
Fólkið sem við þurfum fyrir hið nýja Ísland

Fyrstu nemendur í frumkvöðlafræðum í Skóla skapandi greina hjá Keili, 11 talsins útskrifuðust nú í sumar. Rúnar Unnþórsson, framkvæmdastjóri Orku- og tækniskóla Keilis, segir að margir útskriftarnemar séu þegar farnir af stað með fyrirtæki og nokkrir þeirra auk þess komnir með aðstöðu á Ásbrú, sem menn þekktu hér áður sem Varnarliðssvæðið á Keflavíkurflugvelli. Þar er aðstaða fyrir frumkvöðlana í frumkvöðlasetrinu Eldey og meðal nýjunga í vetur eru að í skólanum verður aðstaða til frumgerðasmíðar og verkstæðisaðstaða. Nýr hópur frumkvöðla er að hefja nám í skólanum nú í september.

„Frumkvöðlanámið var skipulagt af forvera mínum, Magnúsi Árna Magnússyni, sem nú gegnir stöðu forstöðumanns Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands, Jóhanni Malmquist, prófessor við Verkfræðideild HÍ, og Sigríði Ingvarsdóttur, framkvæmda- og rekstrarstjóra frumkvöðlaseturs Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands,“ segir Rúnar. Hann tók við starfi Magnúsar á vormánuðum og fylgdi því fyrsta frumkvöðlahópnum síðustu metrana.

Komu með eigin viðskiptahugmyndir
„Þessir fyrstu útskriftarnemendur í frumkvöðlafræðum hófu námið með sínar eigin viðskiptahugmyndir og þróuðu þær undir handleiðslu kennara skólans. Viðskiptahugmyndirnar voru afar fjölbreyttar og sem dæmi má nefna nýja græna og hagkvæma lausn á sorphirðu, græna orkuframleiðslu úr viðarkurli, fiskeldi, framleiðslu á próteini, sérstaklega ætlað fyrir konur, heilsukodda og íslenska teframleiðslu.

Markmiðið með náminu í frumkvöðlafræðum er að nemendur læri ákveðna aðferðafræði við að þróa viðskiptahugmyndir og í lok námsins hafi hver og einn fullþróað sína viðskiptahugmynd þannig að hún sé tilbúin til að leggja hana undir fjárfesta. Útskriftarnemendurnir skiluðu allir af sér vel ígrunduðum og vel útfærðum viðskiptaáætlunum.“

Rúnar segir ennfremur að framkvæmd nokkurra viðskiptaáætlana sé þegar komin af stað og bætir við að sannir frumkvöðlar, eins og þeir sem útskrifaðir hafi verið í sumar, séu stöðugt að fá nýjar viðskiptahugmyndir. „Sú aðferðafræði sem nemendur okkar hafa tileinkað sér í vetur gerir þeim mögulegt - með skilvirkum hætti - að meta og útfæra hugmyndir sínar og fylgja þeim vænlegustu til enda.“ Og við útskriftina kastaði Rúnar fram spurningunni: „Er það ekki einmitt fólkið sem við þurfum fyrir hið nýja Ísland?“

Gekk vel að afla styrkja
Þess má geta að nemendur voru látnir skrifa umsóknir um styrki vegna hugmynda sinna og tókst þeim að afla rúmlega ellefu milljóna króna með þeim hætti. Umsóknirnar skrifuðu nemendur sjálfir en með aðstoð kennara sinna. Rétt er að taka fram að ekki sendu allir inn umsóknir sem sýnir að afrakstur þeirra sem það gerðu var svo sannarlega með ágætum. Jafnvel hefur spurst að þeir sem ekki sendu inn styrkumsóknir nagi nú neglur sínar þegar þeir sjá hversu vel hinum gengur enda ástæða til að ætla að velgengnin hefði verið svipuð hjá öllum hópnum ef á það hefði reynt. „Árangur nemendanna bæði í náminu sjálfu og á þessu sviði má ekki síst þakka þeim góðu kennurum sem skólinn hefur á að skipa. Þeir hafa áratugareynslu í stofnun fyrirtækja, rekstri, gerð viðskiptaáætlana og öðru sem nýtist frumkvöðlum. Við þetta má bæta að ómetanlegt tengslanet myndast meðan á náminu stendur og afrakstur sést best á því að margir frumkvöðlanna eru þegar farnir að ræða mögulegt samstarf innbyrðis í nýjum verkefnum.“

Fleiri spennandi námsbrautir hjá orku- og tækniskólanum
Frumkvöðlanám er ekki eina námið til háskólagráðu sem í boði er hjá Keili. Í haust hófst nám í orkutæknifræði og mekatrónískri tæknifræði til BS gráðu við skólann. Námið er eins og frumkvöðlanámið skipulagt í samvinnu við Háskóla Íslands. Markmið Orku- og tækniskóla Keilis er að útskrifa nemendur með framúrskarandi þekkingu og færni á sínu kjörsviði ásamt því að hafa náð að virkja og efla sköpunargleðina. Aðstaða til kennslu er til fyrirmyndar. Verkleg kennsla mun fara fram í sérstöku rannsóknarsetri í orkufræðum sem staðsett er í húsnæði skólans.

Ásbrú orðin að frumkvöðlasamfélagi
Varnarliðssvæðið sem nú nefnist Ásbrú hefur á undra skömmum tíma breyst í samfélag frumkvöðla, fræða og atvinnulífs. Þar er m.a. stærsti háskólagarður Íslands og þarna fá nemendur húsnæði á afar góðum kjörum. Rúnar segir að í vetur hafi íbúar á svæðinu verið um 2000 en vel sé hægt að bæta þar mörgum við enn. Þeir sem stunda nám sem er metið lánshæft hjá Lín eiga rétt á íbúðum á þessu svæði á hagstæðum kjörum.

 
Á Ásbrú er mikil og góð þjónusta sem hefur vaxið hratt þetta fyrsta ár. Þar er grunnskóli, leikskóli, frístundaskóli, félagsmiðstöð unglinga og meira að segja glæsilegur fjölskylduvænn veitingastaður og kaffihús sem tekur um 100 manns í sæti. Íþróttahús og líkamsræktaraðstaða var opnuð í desember 2007 og geta íbúar á Ásbrú nýtt sér hana gegn vægu gjaldi. Samkaup reka matvöruverslun á svæðinu og í vetur var opnuð þarna hársnyrtistofa. Nánari upplýsingar um svæðið í heild má nálgast á heimasíðu Ásbrúar, www.asbru.is. www.keilir.net


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga