Greinasafni: Menntun
Fræðslusjóðir atvinnulífsins á landsbyggðinni
Styrkja stöðugt fleiri einstaklinga til náms
Landsmennt , Sveitamennt og Ríkismennt eru fræðslusjóðir verkafólks á landsbyggðinni. Aðildarfélögin eru 17 og er þar um að ræða stéttarfélög innan Starfsgreinasambands Íslands (SGS) utan þriggja aðildarfélaga þess á höfuðborgarsvæðinu sem standa að Flóabandalaginu. Helstu verkefni sjóðanna eru að sinna stuðningsverkefnum og þróunar-og hvatningaraðgerðum í starfsmenntun. Sjóðunum er ætlað að styrkja rekstur námskeiða og stuðla að nýjungum í námsefnisgerð ásamt því að veita einstaklingum, verkalýðsfélögum og vinnuveitendum beina styrki vegna símenntunar og endurmenntunar.

 

Símenntunarmiðstöðvarnar hafa í raun skipt mestu máli við að koma á menntun fyrir fólk á landsbyggðinni. Ljósm. Ingó.
   
Landsmennt er stærstur þessara þriggja sjóða og tengist kjarasamningi Samtaka atvinnulífsins 
og verkalýðsfélaga SGS á landsbyggðinni (ca. 22.000 manns), Ríkismennt er þróunar og símenntunarsjóður um 2.500 starfsmanna ríkisins á landsbyggðinni innan sömu félaga og Sveitamennt er starfsmenntunarsjóður um 3.500 starfsmanna sveitarfélaga á landsbyggðinni innan aðildarfélaga SGS. Allir þrír sjóðirnir starfa eftir svipuðum markmiðum og eiga fyrst og fremst að auka möguleika fyrirtækja, sveitarfélaga og stofnana þeirra og ríkisstofnana á að þróa starfssvið sitt þannig að það samræmist kröfum sem gerðar eru á hverjum tíma og efla starfsmenntun starfsmanna svo þeir verði færari til að takast á við stöðugt fjölbreyttari verkefni.

  Kristín Njálsdóttir, forstöðumaður sjóðanna, segir að árlega sæki rúmlega 3.000 manns í sjóðina um einstaklingsstyrki vegna námskeiða eða formlegs náms. Hæsta nýtingarhlutfallið sé hjá félagsmönnum innan Sveitamenntar, eða um 20% árlega, en hjá Landsmennt og Ríkismennt sækja milli 12 og 14% félaga árlega um styrki vegna náms/námskeiða. Hámarksstyrkveiting á ári er 75% af heildarkostnaði en getur þó aldrei orðið hærri en 60.000 krónur. Þá eiga félagsmenn rétt á styrk vegna meiraprófs að upphæð 100.000 krónur hjá öllum sjóðunum en hver einstaklingur getur aðeins fengið slíkan styrk einu sinni. Einnig eru styrkt kaup á hjálpartækjum fyrir lestrar- og ritstuðning og veittir styrkir vegna tómstundanámskeiða.

  Einstaklingar sækja um styrki til viðkomandi stéttarfélags á þar til gerðum eyðublöðum sem úthlutar þeim í umboði Landsmenntar, Sveitamenntar og Ríkismenntar. Fyrirtæki innan SA, sveitarfélög landsbyggðarinnar, ríkisstofnanir, stéttarfélög og/eða fræðsluaðilar sækja um styrki til stjórna sjóðanna með því að senda umsókn þess efnis þar sem fram koma helstu upplýsingar vegna viðkomandi fræðsluverkefnis. Til þess að auðvelda vinnuveitendum aðgengi að sjóðunum er hægt að sækja um með rafrænum hætti beint frá heimasíðum sjóðanna. Umsóknir þeirra eru síðan eins og áður sagði afgreiddir af stjórnum sjóðanna sem hittast reglubundið einu sinni í mánuði.

Sjóðirnir tvískiptir
Sjóðirnir eru tvískiptir eins og komið hefur fram, annars vegar styrkir til fyrirtækja, stofnana, stéttarfélaga og fræðsluaðila og hins vegar styrkir til einstaklinga. Vinnuveitendur hafa margir hverjir um land allt orðið meðvitaðir um kosti þess að mennta sitt starfsfólk, ekki síður en stéttarfélögin, en símenntun starfsmanna er oftar en ekki lykill að betra starfsumhverfi og aukinni framleiðni.

  Þá hafa einstaklingarnir sjálfir verið meðvitaðir um mikilvægi þess að mennta sig, en flestir þeirra sem sótt hafa um styrk hafa sótt námskeið utan síns vinnutíma og eru t.d. að sækja nám í framhaldsskólum, iðnskólum eða jafnvel háskólum. Framboð á námi hefur aukist verulega og stöðugt fleiri námskeið gefa einingar til frekara náms og það eru félagsmenn að nýta sér. Einstaklingarnir sem eiga aðild að sjóðunum er það fólk sem vinnur hvað lengstan starfsdaginn á landsbyggðinni enda nýtir margt þeirra sér kosti fjarnámsins og margir sækja sér menntun sem tengist þeirra vinnu.

  Ekki má gleyma að nefna símenntunarmiðstöðvarnar sem hafa verið mjög mikilvægar í sambandi við fullorðinsfræðslu almennt og hafa í raun skipt mestu máli við að koma á menntun fyrir fólk á landsbyggðinni.

  Að sögn Kristínar Njálsdóttur, forstöðumanns, hefur tilkoma fræðslusjóðanna reynst fólki raunveruleg hvatning til að mennta sig og hefur verið ánægjulegt að upplifa aukningu á notkun sjóðanna nánast á hverju ári frá því þeir tóku til starfa.


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga