Nýsköpun lykillinn að samkeppnishæfi fyrirtækja
 Enterprise Europe Network þjónustar nýsköpun í alþjóðaumhverfinu


Einn þáttur í stuðningsumhverfi nýsköpunar á Íslandi er samstarfsnetið Enterprise Europe Network, sem ætlað er að leiða saman og auka samstarf lítilla og meðalstórra fyrirtækja, rannsóknaraðila og háskóla. Enterprise Europe Network þjónustar fyrirtæki og rannsóknaraðila meðal annars með því að koma nýjungum á framfæri erlendis og nálgast nýja tækni eða þekkingu erlendis frá.

      
Kristín Halldórsdóttir, verkefnastjóri Enterprise, Europe Network á Íslandi

Þá sér Enterprise Europe Network um að leita að samstarfsaðilum í Evrópu, veita upplýsingar um útboð í Evrópu og leita eftir viðskiptasamböndum tengdum þeim og veita upplýsingar um styrkjamöguleika í Evrópu, bæði tengt 7. rammaáætluninni sem og öðrum áætlunum Evrópusambandsins.

Evrópumiðstöð Impru á Nýsköpunarmiðstöð Íslands leiðir Enterprise Europe Network á Íslandi í samstarfi við Útflutningsráð og Rannís. Kristín Halldórsdóttir, verkefnastjóri Enterprise Europe Network á Íslandi, segir að nú þegar öll lönd Evrópu séu nú í alls konar aðgerðum til að sporna við afleiðinum þeirrar hjöðnunar sem nú á sér stað séu viðskiptatækifærin ótalmörg, en sem fyrr þurfa áherslur að taka mið af breyttum væntingum og þörfum markaðarins.

Nýsköpun mikilvæg forsenda hagvaxtar

Kristín segir að nýsköpun og tækniyfirfærsla séu mikilvægar forsendur hagvaxtar og velferðar landa um ókomin ár. Auk þess gefi nýsköpun og tækniyfirfærsla hagkerfinu meiri vídd og sé til vitnis um virkni þess. „Alþjóðlegar rannsóknir sýna að nýsköpun er lykillinn að samkeppnishæfni fyrirtækja og þjóða og líta má svo á að velgengni þeirra stafi fyrst og fremst af getu og færni þeirra til nýsköpunar. Sterk og vel þróuð nýsköpunarumgjörð bæði hjá hinu opinbera og í almennu viðskiptaumhverfi skapar þá nýsköpunarmenningu sem stuðlar að og hvetur til nýsköpunar,“ segir Kristín.

Margir samtvinnaðir þættir hafa þar áhrif og má gróflega draga þá saman í þrjá flokka:

• Forsendur sem skapast af menntun, hæfu starfsfólki, hugmyndum, rannsóknum, einkaleyfum og grunngerð þjóðfélagsins.

• Viðskiptaumhverfi sem myndað er af frumkvöðlastarfsemi, fjármagni, ráðgjöf og hæfni stjórnenda.

• Nýsköpunarhvati sem samanstendur af skapandi hugsun, samskiptum og áhuga eða athygli.

„Nú sem aldrei fyrr, þarf að taka mið af þessum áhrifavöldum nýsköpunar, því hættan er sú, að þegar vægi einhvers þeirra minnkar, raskist þessi nýsköpunarumgjörð. Íslensk fyrirtæki standa frammi fyrir því að kaupmáttur manna fer minnkandi, aðföng fara hækkandi og fjármagn er af skornum skammti. Þetta getur leitt til minnkandi áhuga eða getu til nýsköpunar. Því er mikilvægt að hlúa að þessari nýsköpunarumgjörð, þ.a. við drögumst ekki aftur úr í nýsköpun og þróun. Með því dvínar samkeppnishæfni okkar og lífskjör fara versnandi. Þetta er í raun verkefnið sem við stöndum frammi fyrir í dag; Við þekkjum fortíðina, við erum að ná áttum í nútíðinni, og framtíðin sem við komum til með að skapa, er óskrifað blað – hún er í okkar höndum,“ segir Kristín.

Evrópumiðstöð Impru stuðlar að samstarfi í stofnfrumurannsóknum

Kristín segir að í gegn um Enterprise Europe Network hafi ýmis tengslamyndun orðið til á milli fyrirtækja á Íslandi og annarra landa Evrópu. „Meginmarkmiðið er þó alltaf að aðilar fari formlega að vinna saman. Má þar nefna samstarfsverkefni milli aðila innan fiskiðnaðarins, líftæknigeirans og upplýsingatæknigeirans. Ekki má gleyma að aðilar í Evrópu hafa sýnt orkumálum okkar mikinn áhuga. Vonast er eftir samstarfi tengdum þeim málum innan tíðar. Ekki alls fyrir löngu náðust mikilvægir samstarfssamningar í stofnfrumurannsóknum milli Blóðbankans á Íslandi og rannsóknaraðila í Skotlandi og Spáni fyrir tilstilli Evrópumiðstöðvar Impru á Nýsköpunarmiðstöð. Í þessu tilfelli kom svokallaður „prófíll“ eða beiðni frá Blóðbankanum þar sem þeir óskuðu eftir samstarfi við rannsóknarstofnanir eða fyrirtæki með ákveðna tækni sem þeir vildu tileinka sér í stofnfrumurannsóknum.

Þetta leiddi til samninga um tækni- og þekkingaryfirfærslu milli þriggja aðila, Blóðbankans, þekkts vísindamanns í Skotalandi og Stofnfrumubanka Spánar Í kjölfar samningsins mun Blóðbankinn fá aðgang að mikilvægri þekkingu samstarfsaðila á sviði stofnfrumurannsókna en samstarfaðilarnir græða ekki síður á samstarfinu því Blóðbankinn er virt stofnun erlendis. Þess má geta að í kjölfar vinnu Evrópumiðstöðvar og EEN sótti Blóðbankinn um styrk í 7. rammaáætlun ESB í samstarfi við fleiri aðila og var umsóknin samþykkt,“ segir Kristín

Ef þú ert að leita að samstarfsaðilum, styrkjum vegna samstarfsverkefna, þarft að koma þinni vöru eða þjónustu á framfæri og/eða þarft tækni eða þekkingu sem nýtist þínu fyrirtæki má finna nánari upplýsingar á  www.een.is


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga