Greinasafni: Menntun
Ferðamálaskóli Íslands - Eini viðurkenndi, alþjóðlegi ferðamálaskólinn á landinu
Ferðamálaskóli Íslands hefur margra ára reynslu í að kenna fólki hvernig taka ber á móti erlendum ferðamönnum sem koma til Íslands og ekki síður þeim sem leiðsegja Íslendingum erlendis. Nám í Ferðamálaskólanum er fjórskipt og skólastjóri er Friðjón Sæmundsson.

„Í fyrsta lagi er þetta alþjóðlegur skóli á vegum IATA, alþjóðasamtaka flugfélaga og ferðaskrifstofa. Kennd er ferðaráðgjöf sem er viðurkennd um allan heim enda krafa um að fólk sem sinnir þessum störfum státi af IATA-prófi. Við erum eini skólinn hér sem býður þetta nám og höfum gert í 20 ár,“ segir Friðjón.

Friðjón Sæmundsson skólastjóri. Ljósm. Ingó

Í Ferðamálskólanum er einnig kennd IATA UFFTA sölu- og markaðsfræði sem er fyrir alla sem eru í ferðaþjónustu, jafnt ferðaskrifstofur, flugfélög. bílaleigur og smærri fyrirtæki þar sem þekking í sölu- og markaðsfræði tengdri ferðmálum er bráðnauðsynleg. Námsefnið beggja þessara námsbrauta kemur frá IATA UFFTA og prófin sömuleiðis. Allt efni er á ensku en kennslan fer fram á íslensku. Friðjón segir að mikilvægt sé að hafa IATA UFFTA próf enda gildi það um allan heim og gefi fólki möguleika á að starfa á þessu sviði erlendis.

Í leiðsögunáminu, sem er þriðja brautin í skólanum, lærir fólk að taka á móti erlendum ferðamönnum. Námsefnið er fjölbreytt, allt frá sögu og bókmenntum að raddbeitingu, tjáningu og framkomu. Námið er tvær annir og hefst í október og lýkur í maí.

Þörfin fyrir leiðsögumenn er gífurleg, enda fjölgar erlendum ferðamönnum hér ár frá ári. Í lokin er tekið próf í þeim tungumálum sem menn velja að sérhæfa sig í. Flestir velja ensku en hins vegar vantar fólk með spænsku-, rússnesku- og jafnvel ítölskukunnáttu því að ferðamönnum frá þessum löndum hefur fjölgað mikið. Nokkuð er um að útlendingar búsettir hér stundi nám í Ferðamálaskólanum og mikill akkur er í að fá þá til að leiðsegja löndum sínum sem hingað koma.

Útskriftarhópur frá Ferðamálaskóla Íslands.

Fjórða námsleiðin í Ferðamálaskóla Íslands er fararstjórn erlendis. Á þessari braut lærir fólk um menningu, listir og sögu og heimsálfurnar eru teknar fyrir, hver fyrir sig, sem og valdir ferðamannastaðir. Jóhanna Kristjónsdóttir kennir fólki um Mið-Austurlönd, Sigurður A. Magnússon fjallar um Grikkland, Magnús Björnsson um Kína og Ómar Valdimarsson um Austurlönd fjær. Guðfræði- og trúarbragðafræðsla er í höndum Bjarna Randvers Sigurvinssonar og séra Bjarna Karlssonar. Pétur Óli Pétursson kennir mönnum allt um Rússland og Kjartan Trausti Sigurðsson, sem er með 30 ára starfsreynslu sem fararstjóri erlendis, tekur fyrir Tyrkland, Spán, Portúgal, Kúbu og Kanaríeyjar en á þessum stöðum er hann svo sannarlega á heimavelli. Pétur Björnsson, konsúll Ítala, fræðir um heimsálfurnar sem og Ítalíu.

„Þó að kreppi nú að hjá okkur Íslendingum ferðast fólk alltaf eitthvað og ferðalög munu alls ekki leggjast af. Erlendir ferðamenn halda líka áfram að streyma hingað eins og verið hefur. Því má segja að nám í Ferðamálaskólanum sé mjög gagnlegt og gefi mönnum margvísleg atvinnutækifæri,“ segir Friðjón Sæmundsson skólastjóriTölvuskóli Íslands - Ferðamálaskóli Íslands - Stjórntækniskóli Íslands
Bíldshöfði 18 - 110 Reykjavík - Sími 5671466
www.menntun.is


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga