Greinasafni: Sveitarfélög
Árni Sigfússon: Sterkar skoðanir til að byggja á

Framtíð Ásbrúar og Reykjanesbæjar er mjög svo samofin, svo ekki sé minna sagt, enda er Ásbrú hluti af Reykjanesbæ. Árni Sigfússon, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, hefur því verið í forystu um að framtíðarsýn Ásbrúar nái fram að ganga.


Árni segir að um nokkurn tíma fyrir áður en ákvörðun var tekin um brotthvarf Varnarliðsins hafi Reykjanesbær kynnt sér aðstæður og leiðir sem menn hafi farið, kynni herinn að yfirgefa svæðið. Um leið og tilkynning um brotthvarf varnarliðsins barst hafi því bæjaryfirvöld Reykjanesbæjar komið fram með tillögur um not um leið og leitað var hugmynda landsmanna. „Þremur dögum eftir tilkynningu Bandaríkjamanna  um brotthvarf leggjum við svofram hugmyndir um hvernig skuli vinna að þessu verkefni – hvernig bæri að nýta eignirnar og byggja upp frá þeim grunni sem þar var til staðar. Fljótlega síðar var þróunarfélagið stofnað af ríkinu og hefur það í meginatriðum unnið út frá þeirri hugmyndafræði sem við lögðum fram.

Við vildum sjá þetta svæði sem miðstöð vísinda, fræða og atvinnulífs, þar sem fyrirtæki, rannsóknir og menntun kæmu saman, þar sem ákveðnir klasar fyrirtækja og verkefna gætu unnið saman. Fræðslu- og menntaþátturinn er einmitt það sem Keilir stendur fyrir. Það teljum við gríðarlega mikilvægt fyrir þróun atvinnulífs á svæðinu. Í samstarfi Kadeco, Keilis, Háskóla Íslands og fyrirtækja er nú að Ásbrú eitt stærsta frumkvöðlasetur landsins og hefur þegar sprottið þar upp fjöldi spennandi fyrirtækja. Keilir gegnir einnig því mikilvæga hlutverki að færa ungu fólki brú yfir í háskólanám. Það hefur verið mikið brottfall úr námi eftir grunnám hér á svæðinu og því mikil þörf á því að skapa þessum hópi tækifæri til að  sækja sér frekari menntun. Þanniger verið að mennta samfélagið og skapa aukin tækifæri til framhaldsnáms samhliða því að stórar sem smáar rekstrareiningar eru  að færa starfsemi sína á svæðið,“segir Árni.

Þiggjum ekki brauðmola

Ekki er þó sama hvaða störf myndast á svæðinu og segir Árni að mikilvægt sé að íbúar svæðisins hafi val um góða, fjölbreytta og vel launaða atvinnu. „Ég legg áherslu á að við viljum ekki þiggja harða brauðmola í atvinnu. Við verðum að vera reiðubúin að hafna störfum sem halda fólki í fátæktargildrum. Störfin sem við vinnum að eru fjöldbreytt störf fyrir bæði kynin sem gefa af sér góð laun.Í því samhengi nægir að nefna fyrirhugað gagnaver sem kemur til með að skapa fjöldan allan af upplýsingatæknistörfum, Gagnavörsluna og heilsusjúkrahúsið sem er einnig grunnur að öflugri heilsuferðaþjónustu, “ segir Árni.

Mörg þau verkefna sem sett hafa verið af stað á Ásbrú hafa verið talsvert í þjóðfélagsumræðunni og sýnist sitt hverjum um  ágæti þeirra. „Uppbyggingin á Ásbrú mætti miklum skilningi í upphafi en það hefur borið á því að misskilningur ríki um ákveðin verkefni á Ásbrú. Ég tel að það byggist að miklu leyti á skorti á þekkingu um verkefnið og fyrir hvað það stendur. Það er í sjálfu sér mjög leitt að umræðan vilji snúast á þennan veg, en það er ekkert nýtt á þessu svæði. Margir voru mjög svo á móti hernum á sínum tíma og hefði einhver geta haldið að meiri sátt myndi ríkja um umhverfisvænan iðnað, en það virðast alltaf stinga upp kollinum einstaklingar sem hafa horn í síðu þessa svæðis. Það heyrðust að sama skapi  svartsýnisraddir þegar varnarliðið fór um að allt myndi fara hér á versta veg. En ég tel að flestir Íslendingar sjái að þessir aðilar reyndust ekki sannspáir. Raunar þykir þetta eitt best heppnaða uppbyggingarverkefnið í kjölfar brotthvarfs varnarliðs nokkurs staðar í heiminum. En við erum auðvitað stödd í kreppu sem gerir það að verkum að ef til vill verður til þess að fólk á erfiðara með að sjá stærra samhengi hlutanna. En ef horft er yfir hvað hefur tekist að gera hér á aðeins þremur árum og leggja grunn að mörgum góðum verkefnum er ekki hægt að annað en að vera ánægður fyrir hönd þessa svæðis og þjóðarinnar. Það er mín trú að þegar við komumst út úr þessum efnahagsþrengingum að hér höfum við gríðarlega sterkar stoðir til að byggja á,“ segir Árni.

Stór verkefni í skoðun á Ásbrú norður

Eins og áður hefur fram komið hafa Reykjanesbær, Garður og Sandgerði bundist saman um uppbyggingu á atvinnusvæði á svæði norðan Leifsstöðvar sem kallast Ásbrú Norður. Svæðið nær frá gömlu Rockville ratsjárstöðinni niður að stórskipahöfninni í Helguvík og er með Leifsstöð sunnan við sig. Árni segir að með þessu samstarfi sé hægt að leggja grunninn að mun stærri tækifærum en ella. „Við sáum þarna tækifæri á að hámarka nýtingu svæðisins með því að horfa framhjá landamerkjum sveitafélagana. Það hefur tíðkast að sveitarfélög skipuleggi atvinnusvæði hvert í sínu lagi, jafnvel þó þau liggi saman hlið við hlið. En með því að skipuleggja svæðið í sameiningu getum við skoðað hvað sé æskilegt að þar rísi – hvaða tækifæru séu sterkust sem tengja alþjóðaflugvöll við höfn. Við erum nú að skoða nokkur tækifæri því tengd, en það er þó ótímabært að greina nánar frá þeim,“ segir Árni.

Það sem helst hefur staðið í vegi fyrir slíku samstarfi annars staðar segir Árni vera ágreining  um fasteignagjöld. „Deilur sveitafélaga um fasteignagjöld hefur víða reynst ásteytingarsteinn í þróun samfélaga og  skipulags. Niðurstaðan hér er að menn hætti að deila um keisarans skegg og deili með sér fasteigngjöldum og skipuleggja af skynsemi,“ segir Árni.


Myndbönd

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga