Greinasafni: List
Kvikmyndagerð í Ásbrú

Í byrjun jánúar opnaði kvikmyndaverið Atlantic Studios á Ásbrú. Gamalt flugskýli Bandaríkjahers hýsir kvikmyndaverið og hefur því nú verið breytt til að standast kröfur alþjóðlegra kvikmyndaframleiðenda.
Breytingar hússins voru umtalsverðar, en meðal annars hefur það verið algerlega hljóðeinangrað og rafmagnskerfi hússins endurnýjað. Meðal annarra áhugaverðra umbreytinga er útsogskerfi hússins,  en með því er hægt að reykræsta húsið á þremur mínútum. Það kemur sér vafalaust vel þegar kvikmynda skal spennu- og hasarmyndir  sem alla jafna innihalda ótæpilegt magn sprenginga og eldsvoða sem því fylgja. Það var  Kadeco sem sá um allar framkvæmdir á húsinu og leigir félagið húsnæðið áfram til Atlantic Studios.

Sena mun sjá um rekstur þess kvikmyndaversins, en Sena er jafnframt einn eigenda þess. Stefnt er að því að bjóða öðrum íslenskum framleiðendum og þjónustuaðilum kvikmyndaiðnaðarins aðkomu að eignarhaldi og rekstri fyrirtækisins. Kvikmyndaverið er alls 5000  fermetrar að stærð og skiptist í annars vegar kvikmyndaver sem er 2200 fermetrar og hins vegar í skrifstofurými, geymslur, hreinlætisaðstöðu og veitingaaðstöðu  sem er 2800 fermetrar.

Þar fyrir utan er 7000 fermetra útisvæði innan lóðarinnar. Á næstu misserum mun svo hefjast ferli þar sem innlendum og erlendum aðilum úr kvikmynda og auglýsingabransanum verður boðið til að kynna sér Atlantic Studios betur. Þar sem   talsverðan tíma tekur að byggja upp alþjóðlega þekkingu og reynslu af rekstri kvikmyndahúss af þessum toga má reikna með því að um þrjú ár taki til að það komist í full not.

Það skemmir þó vafalaust ekki þegar kemur að því að laða að verkefni að í seilingarfjarlægð er sundlaug, líkamsræktarstöð og íþróttahús sem viðskiptavinum kvikmyndaversins standa til boða.  Þá mun nálægð við flugvöllinn líklega heilla uppteknar kvikmyndastjörnur sem ekkert mega vera að því að þvælast fjölda kílómetra til að komast á tökustað.


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga