Greinasafni: Menntun
Með heilsuna í fyrirrúmi í skólastarfi

Leikskólaárin sem og fyrstu ár grunnskólans eru mikilvæg hverju barni þar sem lengi býr að fyrstu gerð. Ráða þau ár oft miklu hvað varðar lífshætti fólks seinna meir. Skólar ehf. er vel meðvitað um mikilvægi fyrstu áranna. Fyrirtækið rekur fimm leikskóla undir nafni Heilsustefnunnar, þar sem hreyfing, holl næring og listsköpun eru í fyrirrúmi. Framtíðarstefna Skóla er að reka leik- og grunnskóla saman í einum skóla og gera skólastarf eins sjálfbært og hægt er, að sögn Péturs Guðmundssonar, framkvæmdastjóra fyrirtækisins.
„Fyrirtækið hóf starfsemi sína árið 2000 þegar ég kom með þá hugmynd til bæjarstjórnar Grindavíkur að byggja og reka  lítinn leikskóla. Var vel tekið í hugmyndina og úr varð að við hófum rekstur á leikskólanum Króki. Þessi háttur á að reka leikskóla hefur svo fest í sessi og er í dag góður valkostur fyrir sveitarfélög þegar kemur að rekstri leikskóla,“ segir Pétur.

Skólar reka um þessar mundir 5  leikskóla undir merkjum Heilsustefnunnar: Krók og heilsuleikskólann Háaleiti í Reykjanesbæ og þrjá á höfuðborgasvæðinu: Hamravelli í Hafnafirði, Kór í Kópavogi og Ársól í Reykjavík . Heilsustefnan, sem er 15 ára um þessar mundir, var sniðin af Unni Stefánsdóttur sem var þá leikskólastjóri á Urðarhóli í Kópavogi.  

Krókur var annar leikskólinn til þess að fylgja þessari stefnu. .Markmið stefnunnar er að auka gleði og vellíðan barnanna með áherslu á næringu, hreyfingu og listsköpun í leik,“ segir Pétur. Þess að auki gengur stefnan út á að reyna að venja börn við heilbrigða lífshætti strax í barnæsku þannig að þeir verði frekar hluti af lífstíl þeirra til framtíðar. „Til þess að fylgja þessum markmiðum eftir fær hvert barn hina svokölluðu heilsubók en þar er allt skráð sem viðkemur heilsu barnsins. Skráningin gerir okkur kleift að fylgjast betur með þroskaframvindu barnsins  en ella. Hún er einnig til þess gerð að upplýsa foreldrana um heilsu barnins, svo sem hreyfifærni, úthald, næringu og færni  í listsköpun. Svo fylgir þessi bók börnunum upp í grunnskólann,“ segir Pétur.

„Við stefnum á, ef við verðum heppin, að reka grunn- og leikskóla saman, þar sem nýju grunnskólalögin gera ráð fyrir þessum möguleika,“ segir Pétur. „Við höfum áhuga á að þróa Heilsustefnuna áfram í skólanámskrá grunnskólans í góðu samstarfi við okkar fagfólk.“ Hugmyndin er að sá skóli næði upp í fjórða bekk en það hefur sýnt sig að erfiðasta skref barnæskunnar er skrefið á milli leik- og grunnskóla að sögn Péturs. Að auki er á stefnuskrá fyrirtækisins að færa börnin nær náttúrunni og sjálfbærum starfsháttum með því að fara til að mynda í samstarf við bóndabýli. Þar væri áhersla lögð á að börnin myndu rækta sitt eigið grænmeti  og læra fleira tengt búskap. „Við sjáum fyrir okkur að þetta gæti skapað skemmtilega stemningu auk þess sem börnin gerðu sér betri grein fyrir því ferli sem felst í því að setja niður grænmeti til þess að hafa það á borðum hjá sér,“ segir Pétur.

 „Á endanum þá er það okkar meginmarkmið að krökkunum líði vel hjá okkur, þau hljóti kennslu í örvandi umhverfi bæði varðandi líkama og sál. Viðhorf til skólastarfs hafa verið að breytast, það er ekki aðalatriðið lengur að „fjárfesta í námi“ eða að græða, heldur að vinna eftir hugsjón og stefnu og þeim gildum sem eru  líklegri til þess að stuðla að góðum þroska barna,“ segir Pétur að lokum. Nánari upplýsingar má finna á Skólar.is


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga