Greinasafni: Sveitarfélög einnig undir: Orka
,,Orka frá gjöfulum jarðhitasvæðum á Suðurnesjum verði nýtt í þágu fjölbreyttrar atvinnuuppbyggingar”

Ásmundur Friðriksson, bæjarstjóri í sveitarfélaginu Garði á Suðurnesjum segir að ekki sé mikill áhugi á sameiningu sveitarfélaga á Suðurnesjum, hvorki meðal íbúa né sveitarstjórnarmanna, enda hafi sameiningu verið hafnað í tengslum við sveitarstjórnarkosningarnar 2006. Ásmundur  telur ástæðuna fyrst og fremst vera þá að fólk vill halda í sitt gamla sveitarfélag, og telur sig jafnframt ekki hafa neinn hag af því að sameinast nágrannasveitarfélaginu og ekki fá aukna þjónustu við það. Ásmundur segir að hæfilegur rígur milli sveitarfélaga sé af hinu góða en svar sveitarstjórnarmanna á Suðurnesjum  sé aukin samvinna sveitarfélagannaá ýmsum sviðum.


,,Það hefur ekki verið skoðað sérstaklega hvort þjónusta við íbúa í Garði mundi aukast t.d. við sameiningu við  Reykjanesbæ  en því mundu örugglega fylgja ýmis  jákvæð samlegðaráhrif. Sameiningarmál hafa alls ekki verið á stefnu bæjarstjórnarinnar hér. Nú er á dagskrá svæðaskipulag fyrir svæðið norðan flugvallar til ársins 2028 og þar eru ýmsir sameiginlegir hagsmunir sveitarfélaganna á svæðinu, s.s. línulagnir, vegalagnir og iðnaðarsvæði en svæðaskipulag tekur raunar tillit til alls mannlegs lífs á þessu svæði og umhverfisins. Reykjanesbær, Sandgerði og Garður hafa tekið þá sameiginlegu ákvörðun í samstarfi við Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar að fara í sameiginlegt svæðaskipulag á svæði sem kallast Ásbrú – norður sem er raunar að mestu leiti það svæði sem herinn lagði undir sig á sínum tíma. Með því er verið að laða fyrirtæki til að staðsetja sig á Suðurnesjum en um leið skiptir það ekki máli í hvaða sveitarfélagi þau staðsetja sig, heldur farið eftir þörfum neytendanna, en sveitarfélögin munu síðan skipta á milli sín gjöldum og tekjum í samræmi við íbúafjölda þeirra. Sameiginlegir hagsmunir munu því ráða staðsetningu fyrirtækja  ef þetta svæðaskipulag verður samþykkt og sveitarfélögin munu því ekki þurfa að bítast um það hvar fyrirtæki verður staðsett, heldur munu hagsmunir svæðisins ráða mestu um hvar slík þjónusta verður í boði. Helstu markmiðin með svæðaskipulagi er m.a. efling þeirrar sameiginlegu þjónustu sem er fyrir hendi; öflug nærþjónusta; búa í haginn fyrir félagslegan fjölbreytileika og tækifæri fyrir alla aldurshópa; efla skólastarfsemina á efri stigum; stuðla að ábyrgri nýtingu  og góðu aðgengi að útivistarsvæðum til afþreyingar, fræðslu og ferðamennsku og mörkuð verði sameiginleg stefna um skógrækt; auk nýtingu minja um búsetu og atvinnulíf ásamt byggingu nýrra safna og heilsulinda til eflingar ferðaþjónustu. Ég vil einnig nefna að orka frá gjöfulum  jarðhitasvæðum á Suðurnesjum verði nýtt í þágu fjölbreyttrar atvinnuuppbyggingar og jafnframt að tryggt sé að nægt og öruggt aðgengi sé að neysluvatni á Suðurnesjum,” segir bæjarstjórinn í Garði.  

Í haust fóru bæjarstjórarnir í Garði og Reykjanesbæ til Þýskalands til að kynna sér sambærileg mál þar þar sem fjöldi sveitarfélaga kemur að sameiginlegum verkefnum. Ásmundur Friðriksson nefnir sem dæmi Rotterdamhöfn í Hollandi og iðnaðarsvæði sem er að stærð eins og frá Helguvíkurhöfn til Hafnarfjarðarhafnar og fjöldi sveitarfélaga á aðild að en er   rekið sem ríkisfyrirtæki. Verkefnið fær því að þróast og dafna án þess að þar ráði togsteita milli sveitarfélaga, enda rekstur hafnarinnar sameiginlegt hagsmunamál. Besta svarið við uppbyggingu og þróun byggðar og atvinnutækifæra sé því aukið samstarf sveitarfélaganna á svæðinu.


Tekjum iðnaðarsvæðis skipt milli sveitarfélaganna í hlutfalli við íbúafjölda

,,Við höfum verið að taka upp  samstarf um málefni fatlaðra og skólanna og viljum vinna það í sátt og samlyndi og þannig ættum við að taka á móti fleiri verkefnum. Hér er nýr barnaskóli og það er ekki biðlisti á leikskóla. Það vilja stór og smá fyrirtæki koma hingað og við eigum í sameiningu að skapa þeim viðunandi umhverfi þar sem fyrst og fremst hefur forgang arðsemi þeirra. Í kjölfarið koma síðan hagsmunir sveitarfélaganna hér, og njóta allir þar með afrakstursins. Ef fyrirtæki vill koma hingað sem beint tengist orkunni sem er í nágrenni Grindavíkur er eðlilegast að það sé staðsett á Reykjanesi nær orkunni en hér t.d. í Garði, en í góðu samstarfi allra sveitarfélaganna á svæðinu. Orkan spyr ekki um bæjarmörk!”

Ásmundur segir að nú sé lag að gera þetta og efla traust milli sveitarfélaganna enda fjarlægðir milli staða á Suðurnesjum  ekki miklar. Hann bendir á sem fordæmi Groniken í Hollandi þar sem þrjú sveitarfélög sameinuðust um að byggja upp verksmiðjugarð og orkugarð þar sem orkuverin eru að mestu keyrð á kolum og gasi en munu framleiða um 6500 MW. Huga þarf að sameiginlegu iðnaðarsvæði sveitarfélaganna á Suðurnesjum þar sem hagsmunir þess eru hagsmunir allra íbúa svæðisins og tekjum svæðisins skipt milli sveitarfélaganna í samræmi við íbúafjölda. ,,Heilsugæslunni hefur verið lokað hér í Garðinum og við verðurm nú að sækja þá þjónustu í Reykjanesbæ. Það er ekki langt þangað en fólk hefur almennt áhyggjur af heilbrigðisþjónustu á Suðurnesjum, t.d. rekstur sjúkrahúss. Við höfum skilning á þeim hagkvæmnissjónarmiðum sem valda sameiningu á heilsugæslunni með staðsetningu í Reykjanesbæ en eigum erfitt með að skilja að dregið sé úr þjónustu sjúkrahússins.

Atvinnumálin
  Fjölmennur atvinnumálafundurvar haldinn í Garðinum 4. mars sl. enda brenna atvinnumálin mjög á Suðurnesjamönnum. Markmið fundarins var að leitast við að skýra stöðuna á vinnumarkaði og sjá hvert stefndi. Mikil þörf er talin á að allir taki höndum saman og myndi breiða samstöðu stjórnvalda, atvinnulífs og sveitarfélaga í landinu til að koma hjólum atvinnulífsins af stað. Frummælendur komu frá Alþingi, atvinnulífinu, ASÍ og Samtökum atvinnulífsins. Umræður voru einarðar og góðar og voru menn nokkuð bjartsýnni eftir fundinn, ekki síst eftir ummæli Ágústs Hafberg frá Norðuráli en hann sagði að þeir væru tilbúnir að byrja, jafnvel eftir mánuð. Sá bjartsýnistónn vakti vonir í brjóstum margra viðstaddra. ,,Ef stór fyrirtæki fást hingað inn á svæðið bindum við ekki síður vonir við alla þá sprota sem tengjast þeim og þjónustufyriræki af ýmum toga sem getur að vissu marki komið í stað allra þeirrar útgerðar og fiskvinnslu sem hefur horfið héðan af Suðurnesjum á síðustu árum. Það er um 70 manns á atvinnuleysisskrá hér, eða um 7% vinnufærra manna, en við bíðum eftir atvinnutækifærum eins og uppbyggingu álvers í Helguvík og tengd störf, allt að 10.000 störf. Margt ungt fólk hér  á Suðurnesjum bíður þess að þær framkvæmdir fara í gang og á Suðurnesjum skapist því hundruð starfa.”

- Það hefur oft verið tekist á um tekjur af alþjóðaflugvellinum, leysist sá ágreiningur kannski með nýju svæðisskipulagi?

,,Nýtt svæðisskipulag, þegar og ef það verður samþykkt, hefur ekki áhrif á það. Sveitarfélögin Sandgerðisbær, Reykjanesbær og Garðurinn eiga öll nú þegar hlut þar að en flugstöðin er í Sandgerðisbæ sem fær fasteignagjöldin af henni. Menning og atvinna skiptir hér meira máli. Svæðisskipulag mundi bæta atvinnuástandið á svæðinu,” segir Ásmundur Friðriksson, bæjarstjóri í Garðinum.


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga