Greinasafni: Sveitarfélög einnig undir: Skipulag
Tillit sé tekið til þess að áhugi fyrirtækja og ferðamanna sé vakinn á svæðinu

Sigurður Valur Ásbjarnarson bæjarstjóri segir að vinna við aðalskipulag og svæðisskipulag Suðurnesja hafi staðið í u.þ.b. ár og taki til allra þeirra sveitarfélaga sem eru á svæðinu auk Keflavíkurflugvallar og Varnarmálastofnunar sem einnig koma að endanlegu svæðisskipulagi. Sveitarfélögin eru Sandgerðisbær, Sveitarfélagið Garður, Reykjanesbær, Grindavíkurbær og Sveitarfélagið Vogar en þessa vinnu hafa Kanon arkitektar ehf. og VSÓ-Ráðgjöf verið að vinna fyrir þessi sveitarfélög. Opinn kynningarfundur um skipulagstillöguna var haldinn 4. mars sl.

Þessar sjö nefndir hittast reglulega og fara yfir þær hugmyndir og atriði sem þarf að taka til umfjöllunnar. Sigurður Valur segir að vinnan hafi gengið afskaplega vel allt til þessa dags, gott samkomulag sé ríkandi á þessum fundum. Sigurður Valur var spurður hvort svæðisskipulagið muni breyta miklu fyrir Sandgerðisbæ þegar þegar hefur tekið gildi. ,,Þegar bandaríski herinn fór þá endurheimti sveitarfélagið mikið af landi sem herinn hafði haft til afnota sem varnarsvæði, þ.e. skipulagslega séð. Það var ekki til neitt skipulag fyrir þetta svæði og aðalskipulagstillagan  tekur mjög til þess að verið er að tengja bæjarfélagið meira og betur því svæði sem áður var inni á varnarsvæðinu.  Þetta svæði var áður kallað borgaralega svæðið á Keflavíkurflugvelli þar sem Flugstöð Leifs Eiríkssonar er m.a. en  skipulagið tekur fyrst og fremst til þess svæðis sem er þar norðan við, og kallast flugtengd starfsemi og er gert í góðri samvinnu við skipulagsyfirvöld á Keflavíkurflugvelli.” – 

Mun þetta skipulag hafa áhrif til breytinga á því svæði þar sem nú þegar er íbúabyggð í Sandgerði?
,,Þar er verið að skilgreina ný byggingasvæði og þétta byggðina, einnig að afmarka þjónustureiti og ákveða frekar hvað er iðnaðarsvæði, þjónustusvæði og hvað hafnarsvæði. Þarna er líka verið að skipuleggja nýtt grunnskóla og leikskólahverfi þannig að það er tekið á ansi mörgum þáttum, nánast öllum þáttum. Skipulag þessara svæða tekur mikið tillit til tíðarandans í dag, því umhverfismál skipta þarna gríðarlegu máli og miklu meira máli í öllu þessu skipulagsferli en var hér áður fyrr þegar aðalskipulagið var síðast endurskoðað.  Þetta er grundvallaratiði. Nú eru nýir tímar, sem betur fer.” 

Sigurður Valur Ásbjarnarson segir að um leið og sveitarfélögin fari að hreyfa sig í umhverfisátt fylgi ýmislegt í kjölfarið, s.s. betri gangstéttar og lagning göngustíga, meira hugsað um umhverfisvæn opin svæði. Fólk hafi í vaxandi mæli áhuga fyrir umhverfismálum, vilji búa í umhverfisvænni byggð. Skipulagsmálin muni í framtíðinni tengjast þeim þætti órjúfanlegum böndum.

Tillit tekið til umhverfissjónarmiða í Aðalskipulagi Sandgerðisbæjar


Nýtt aðalskipulag Sandgerðisbæjar 2008 – 2024, unnið af Kanon arkitektum og VSÓ-Ráðgjöf, markar stefnu um aukna þróun  byggðarinnar og bætt samgönguog þjónustukerfi. Áætluð þróun kallar á aðgerðir sem tryggja efnisleg og samfélagsleg gæði bæjarfélagsins. Helst má nefna bætt samgöngukerfi,fjölbreytt atvinnulíf og aukna samfélagsþjónustu. Tilgangur með með gerð umhverfismats er að greina þau áhrif sem uppbygging í Sandgerðisbæ hefur á umhverfið svo hægt sé að bregðast við þeim við gerð aðalskipulagsins eða síðar í skipulagsferlinu. Mikil áhersla er lögð á að matsvinnan nýtist sem innlegg og hafi áhrif á gerð aðalskipulags. Í matsvinnunni er litið á möguleg áhrif  stefnu í mismunandi málaflokkum aðalskipulagsins á umhverfið, t.d. breytingar á landnotkun og nýtingu landrýmis, breytingar í  umferð og ekki síst  samfélagslegar breytingar. Tilgangur umhverfismats Aðalskipulags Sandgerðisbæjar er m.a. að tryggja að tekið sé tillit til umhverfissjónarmiða við endurskoðun aðalskipulagsins, í því skyni að stuðla að umhverfisvernd og draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum byggðaþróunar. Líkleg áhrif Aðalskipulags Sandgerðisbæjar eru talin er á heildina er litið vera jákvæð á samfélag bæjarins en gert er ráð fyrir fjölbreyttu framboði íbúðarhúsnæðis og atvinnutækifæra. Áform um að staðsetja þjónustusvæði í nálægð við notendur eru líkleg til að auka styrk bæjarins sem búsetukosts.

Atvinnusvæðin taka breytingum

Bæjarstjóri segir að atvinnusvæðin muni taka breytingum frá fyrra skipulagi og atvinnulóðum muni fjölga, til viðbótar þeim svæðum sem áður var búið að skipuleggja sem atvinnusvæði. Þessi atvinnusvæði eru aðallega í tengslum við höfnina og hafnarsvæðið og meðfram henni er gert ráð fyrir atvinnulóðum fyrir sjávartengda starfsemi, eða hafnsækinna atvinnustarfsemi. Ekki er hins vegar gert ráð fyrir neinni  breytingu á Sandgerðishöfn eða stækkun hennar. ,,Það er grundvallaratriði í allri skipulagsvinnu að sveitarfélögin séu að skipuleggja sambærilega starfsemi beggja vegna markanna milli þeirra, þannig að sé ekki verið að setja upp hesthúsahverfi annars vegar þar sem rís svo íbúðarhverfi hins vegar, eins og stundum hefur gerst á höfuðborgarsvæðinu. Það er litið á þetta norðursvæði sem svæði fyrir fyrirtæki sem eru að sækjast t.d. eftir þjónustu sem heimtar umtalsverðan starfsmannafjölda en að þau geti staðsett sig þar sem hentar, burtséð frá sveitarfélagamörkum. Í tengslum við það hefur verið rætt um hvort skoði eigi gjaldstofna með þeim hætti að það sé ekki spurning um í hvaða sveitarfélagi viðkomandi fyrirtæki er heldur sé litið á að  starfi á sameiginlegum svæðum fleiri sveitarfélaga. Þannig væri t.d. eðlilegt að orkufrekt fyrirtæki væri staðsett næst þeirri orku sem það þarf á að halda, t.d. við Svartsengi í Grindavík. Nærtækt dæmi um svona samvinnu er væntanleg álverksmiðja Norðuráls í Helguvík, en að hluta til mun það vera staðsett á svæði sveitarfélagsins Garðs en höfnin er í Reykjanesbæ og þannig skipta þessi tvö sveitarfélög  tekjunum af álverinu á millisín.” 

Vantar lóðir fyrir fyrirtæki í flugtengdri starfsemi

- Þessi vinna við svæðisskipulagið snýst væntanlega einnig um það að gera svæðið að ákjósanlegum kosti fyrir fyrirtæki, smá og stór, að staðsetja sína starfsemi þar. Einnig að gera það að segli fyrir það fólk sem vill sækja atvinnu á Suðurnesin og setjast þar að. Hversu þungt vega slíkar hugmyndir þegar verið er að vinna svæðisskiplag eins og þetta sem Kanon arkitektar og VSÓ-Ráðgjöf eru nú að vinna fyrir sveitarfélögin á Suðurnesjum?

,,Auðvitað skipta þær umtalsverðu máli. Við skulum átta okkur á því að í rúm 50 ár hefur varnarsvæðið verið nánast algjörlega lokað. Þetta hefur valdið því að fyrirtæki sem hafa verið í flugtengdri starfsemi hafa verið að byggja upp fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu, s.s. geymslur, lagera og fleira. Lóðir þar eru mun dýrari en á Reykjanesinu þannig að það vantar meira af slíkum svæðum hér, og þau munu opnast nú með nýju svæðisskipulagi,  á Ásbrú, norðursvæðinu og raunar í öllum sjö sveitarfélögum sem að svæðisskipulaginu standa. Við vonumst til að þetta svæði verði í heild aðlaðandi fyrir þessa aðila, bæði vegna nálægðar við alþjóðaflugvöllinn og einnig gegnum Helguvíkurhöfn.” Sigurður Valur Ásbjarnarson bæjarstjóri segir að einnig verði svæðisskipulag að taka tillit til þess að vakin sé áhugi ferðamanna á svæðinu, þeir stígi ekki bara upp í rútur á Keflavíkurflugvelli og séu horfnir til höfuðborgarsvæðisins, enda hafi Suðurnesin upp á mýmargt að bjóða fyrir ferðamenn, erlenda sem innlenda. En til þess þurfi að koma vegakerfinu og umferðarmenningunni á svæðinuí betra horf, m.a. að koma Ósabotnaveginum í gagnið en þá skapast möguleikar a hringakstri um svæðið. Það sama megi segja um veginn frá Reykjanestánni til Grindavíkur og Bláa Lónsins. 

,,Nýr Suðurstrandarvegur  er einnig hluti af þessari uppbyggingu,við Suðurnesjamenn bíðum spenntir eftir að þeirri vegalagninu ljúki, þá skapast þar annar möguleiki a hringakstri hér um Reykjanesið. Ferðamálayfirvöld á Suðurlandi eru einnig að velta fyrir sér með hvaða hætti  Suðurstrandarvegur getur aukið ferðamannastrauminn inn á þeirra svæði, fram hjá höfuðborgarsvæðinu, þessum ,,tappa” sem höfuðborgarsvæðið er oft gagnvart straumi ferðamanna út á landsbyggðina,” segir Sigurður Valur Ásbjarnarson, bæjarstjóri í Sandgerði.


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga