B. Sturluson: Gríðarlegir fjármunir liggja í ónýttum tækjakosti

Fyrirtækið B.Sturluson sérhæfir sig í sölu, innflutningi og útflutningi á vinnutækjum, en sökum verkefnaskorts fyrir jarðvegsverktaka stendur  mikill tækjakostur ónotaður víða um land og hefur því útflutningur fengið mest vægi í rekstri fyrirtækisins á síðustu misserum.

Að sögn Böðvars Sturlusonar, lögilts bílasala og eiganda B. Sturluson, liggja gríðarlegir fjármunir í ónýttum tækjakosti á Íslandi um þessar mundir, jafnvel þó umtalsvert magn hafi þegar verið selt úr landi. Hann segir jafnframt að verktökum sé afar þungbært að sitja á nýlegum og fullkomnum vinnuvélum sem engin verkefni séu fyrir. Því liggi það beint við að selja tækin úr landi þar sem eftirspurn er eftir þeim.

 Viðskiptavinir um allan heim
Böðvar segir að flestir viðskiptavina fyrirtækisins séu evrópskir, en hann hafi þó selt tæki út um allan heim, t.d. til Georgíu og Finnlands. Að sögn Böðvars hefur fyrirtækið mest selt af vörubílum og stórum vinnuvélum. Sjálfur er Böðvar ekki ókunnugur þessum bransa, en hann starfaði áður til margra ára sem flutningabílstjóri og vinnuvélastjóri. „Þessi reynsla hefur hjálpað mér mikið í starfi, en ég veit hvað viðskiptavinir mínir eru að tala um og get svarað spurningum þeirra hratt og örugglega“ segir Böðvar.

Mikil eftirspurn í kjölfar kreppunnar
Hann segir að strax í kjölfar kreppunnar hafi myndst gríðarleg eftirspurn eftir vinnuvélum utan úr heimi. .Veikt gengi krónunnar hefur vissulega veitt okkur  gott samkeppnisforskot og hafa fyrirtæki náð hagkvæmum samningum um sölu á tækjum sem hér heima fyrir þykja úr sér gengin og verðlítil. Þau tæki sem hafa farið út á mínum vegum eru á öllum aldri og í afar mismunandi ástandi. Ég hef verið að selja tæki sem myndu  líklegast teljast brotajárn hérlendis og svo tæki sem eru tiltölulega ný og lítið notuð,“ segir Böðvar.

Óalgengari tæki á Íslandi
Eftirspurn hefur þó farið minnkandi eftir því sem áhrif  alheimskreppunar hafa ágerstá meginlandi Evrópu, að sögn Böðvars. „Viðskiptavinahópurinn hefur verið að minnka og kaupendur taka sér nú lengri tíma til kaupanna. Austur-Evrópu markaðurinn hefur farið minnkandi og svo hefur verið mikið framboð á vélum til dæmis frá Spáni og Bretlandi undanfarið, sem hefur gert okkur erfitt hér heima fyrir. Þessi þróun hefur orðið til þess að verð á notuðum tækjum hefur farið hríðlækkandi. Á móti kemur að hér á landi eru tæki sem ekki eru algeng í öðrum löndum og hefur það gert okkur kleift að  selja á ásættanlegu verði, þrátt fyrir þetta ástand,“ segir Böðvar.

Heil starfsstétt þurrkuð út
Böðvar segir að sáralítið sé um innflutning á tækjum í dag, enda sé verðið margfalt hærra en það ætti að vera í eðlilegu árferði og jarðvegsverktakar séu utan þess nánast allir verkefnalausir. Einu tækin sem flutt eru til landsins í dag eru sérhæfð tæki sem óumflýjanlegt er að þurfi að nota, sama hvernig ári. “Það má í raun segja að starfsstétt jarðvegsverktaka hafi verið nánast þurrkuð út af hálfu stjórnvalda. Það er vitaskild þjóðhagslega óhagkvæmt að slá allar samgöngubætur og framkvæmdir af og má því ljóst vera að stjórnvöld verða að grípa til aðgerða sem hvetja til verklegra framkvæmda, svo sem vega- og virkjanagerðar,„ segir Böðvar.

Mikilvæg viðskiptasambönd
Böðvar hefur ekki áhyggjur af ástandinu þegar áhrif kreppunnar fara að þverra. „Það verður auðvitað skortur af ákveðnum tegundum af tækjum þegar þessi  iðnaður fer af stað aftur. Þá mun þurfa að flytja inn aftur mikið af þeim tækjum sem núna eru farin úr landi, sem mun aftur kosta talsvert meira fyrir kaupendur heldur en það þyrfti að gera. Þá mun koma sér vel að hafa þau tengsl sem fyrirtækið hefur myndað í útflutningnum og getum við þá keypt af samstarfsaðilum okkar bíla og tæki alls staðar að úr heiminum,“ segir Böðvar.


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga