Matthías Jochumsson - 175 ára afmæli
Karlakór Akureyrar-Geysir tók þátt í að heiðra minningu Matthíasar Jochumssonar í Ketilhúsinu í kvöld. Þar var mikil afmælishátíð í gangi, en Matthías var einmitt fæddur þann 11. nóvember, að vísu fyrir 175 árum. Gísli Sigurgeirsson setti saman heilmikla dagskrá sem stóð í ríflega tvo tíma.

Fyrsta atriðið var að kórinn kom sér fyrir á pöllunum og Gísli bauð gesti velkomna. Eftir það sagði hann m. a. söguna af því þegar einhver skemmtun var í uppsiglingu; karlakór í startholunum með eitt af ljóðum Matthíasar og meistarinn ekki kominn (hann var ómissandi á öll mannamót í bænum). Auður stóll beið hans fyrir miðri fremstu röð. Að lokum kom karlinn og um leið og hann var sestur byrjaði kórinn og var það "Minni Ingólfs" sem var sungið. Fyrsta ljóðlínan er: Enn ertu kominn, landsins forni fjandi. Þótti ansi skondin uppákoma... Jæja, við sungum þessa einu línu við lagið "Eyjan hvíta", sem sumir kannast eflaust við og héldum síðan inn í dagskrána. Lögin, sem við sungum voru: Akureyri, Ísland og Lofsöngur.

Öll atriði á dagskránni voru tengd saman með litlum sögum frá Gísla. Ungur nemandi úr Hlíðaskóla las ljóð og afhjúpað var stórt trélistaverk eftir nemendur skólans. Mörg önnur verk eftir þá héngu á veggjum Ketilhússins. Næst var Kristján Árnason, bókmenntafræðingur og afkomandi Matthíasar með erindi. Var það mál manna að hann hefði tekið svona meðal háskólafyrirlestur þetta kvöld. Þá kom Karl Hallgrímsson og flutti eigið lag við ljóðið "Algyði" eftir afmælisbarnið og Orri Harðarson lék undir á gítar. Síðan rak hvert atriðið annað; Þráinn Karlsson las nokkur ljóð, strengjasveit frá tónlistarskólanum kom og lék undir hjá fjórum misungum söngvurum. Fyrstur var Guðbjörn Ólsen, ungur strákur sem söng með okkur í fyrra, Jónína Björt, ung og bráðefnileg og síðan reynsluboltarnir Helena Guðlaug og Michael Jón.

Að lokum leiddi Karlakórinn í þjóðsöngnum "Ó, Guð vors lands" og allir viðstaddir tóku undir. Frábær afmælisveisla að baki og allir héldu glaðir til síns heima....

11.nóvember 2010
Karlakór Akureyrar-Geysir, Hrísalundi 1a, 600 Akureyri

Matthías Jochumsson (11. nóvember 1835 - 18. nóvember 1920) var íslenskt skáld, hann fæddist á bænum Skógum sem stóð um 100 metra frá sjó í austurhlíðum Þorskafjarðar undir Vaðalfjöllum. Átti hann heima á Skógum til 11 ára aldurs hjá foreldrum sínum. Matthías stundaði síðan ýmis störf, aðallega sjómennsku og sveitavinnu, en einnig verslunarstörf í Flatey. Matthías aðhylltist únítarisma.

Í Latínuskólann fór hann 24 ára gamall. Eftir Matthías liggja mörg ritverk og kvæði, t.d. leikritið Skugga-Sveinn og hann samdi ljóðið Lofsöngur sem síðar var notað sem þjóðsöngur Íslands. Hann var ritstjóri Þjóðólfs um tíma og síðari hluta ævi sinnar bjó hann í Sigurhæðum á Akureyri, en húsið reisti hann sjálfur. Áður var hann prestur í Odda á Rangárvöllum og um tíma bjó hann í Móum á Kjalarnesi. Að Skógum er minnismerki um Matthías, lágmynd eftir Helga Gíslason og bautasteinn úr stuðlabergi úr Vaðalfjöllum. Að Sigurhæðum á Akureyri er safn helgað minningu hans.

Matthías þýddi Friðþjófssögu og Sögur herlæknisins á íslensku.

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga