Einar H. Kvaran 150 ár í Amtsbókasafnsinu á Akureyri
Sýning um Einar H. Kvaran hefur verið sett upp í anddyri Amtsbókasafnsins á Akureyri, í tilefni af því að 150 ár eru liðin frá fæðingu hans. Sýningin var fyrst sett upp í Þjóðarbókhlöðunni í desember 2009.

Einar H. Kvaran var einn afkastamesti rithöfundur á Íslandi í lok 19. aldar og í upphafi þeirrar tuttugustu. Hann er einn af brautryðjendum raunsæisstefnu í íslenskum bókmenntum og skáldsaga hans Ofurefli sem kom út árið 1908 er fyrsta skáldsagan sem hefur Reykjavík að sögusviði. Leikrit hans Syndir annarra frá árinu 1915 gerist einnig í Reykjavík en í því verki fjallar hann um átök tveggja æskuvina sem skapast af því að annar þeirra vill selja erlendum auðkýfingi Þingvelli, þjóðinni til hagsbóta, en hinn lítur slíka sölu öðrum augum og kemur í veg fyrir að hún nái fram að ganga.

Einar er einn af frumkvöðlum íslenskrar blaðamennsku og einn af sjö stofnfélögum Blaðamannafélags Íslands árið 1897. Hann var ritstjóri Lögbergs, Ísafoldar, Norðurlands og Fjallkonunnar. Hann var einnig leikhúsmaður og mjög virkur í starfi Leikfélags Reykjavíkur þar sem hann starfaði bæði sem leikstjóri félagsins og formaður.Einar var einnig formaður Sálarrannsóknarfélags Íslands og ritstjóri tímaritsins Morgunn sem Sálarrannsóknarfélagið gaf út.

Einar Hjörleifsson fæddist í Vallanesi í Fljótsdal 6. desember 1859. Hann lauk stúdentsprófi árið 1881 og fór síðan til Kaupmannahafnar til náms. Einar varð boðberi nýrra tíma í skáldskap líðandi stundar ásamt félögum sínum Gesti Pálssyni, Hannesi Hafstein og Bertel E. Ó. Þorleifssyni en tímaritið Verðandi, sem þeir gáfu út, varð farvegur raunsæisstefnunnar og hugmynda danska bókmenntafræðingsins Georgs Brandes til Íslands.

Einar flutti frá Kaupmannahöfn til Vesturheims árið 1885 ásamt danskri eiginkonu sinni. Hann missti konu sína og tvö börn á einu ári á meðan á Kanadadvölinni stóð en giftist aftur íslenskri stúlku, Gíslínu Gísladóttur. Þau eignuðust fimm börn en misstu eitt.

Einar sneri aftur heim til Íslands árið 1895. Hann lét til sín taka í stjórnmálum og var framlag hans til sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar umtalsvert, einkum á árunum frá 1907 og fram til þess að Ísland hlaut fullveldi 1918.

Einar Hjörleifsson tók upp ættarnafnið Kvaran árið 1916.

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga