Greinasafni: Söfn
Saltfisksetrið Grindavík - Lifandi uppsetning á fiskilífi fyrri tíma


Í nýlegri byggingu með útsýni yfir Grindavíkurhöfn er staðsett sannkölluð menningarmiðstöð bæjarins sem hýsir meðal annars Saltfisksetur Íslands. Í gegnum sýninguna Saltfiskur í sögu þjóðar kynnist maður á lifandi hátt öllu í kringum saltfiskinn sem og lífi og aðstæðum fólks í tengslum við þennan fyrrum mikilvæga útflutning. Þar að auki má með sanni segja að Saltfisksetrið sé gáttin að upplifun fólks að fiskilífi dagsins í dag með tengslum sínum við eina af stærstu höfnum landsins.

Safna- og listsýningahús Grindavíkurbæjar var opnað 2003 í glæsilegri byggingu og hefur yfir að geyma rúmgóðan móttökusal, upplýsingamiðstöð Grindavíkurbæjar, veitingasölu, listsýningasal og Saltfisksetrið sjálft.

„Það er mikið líf í húsinu, í fyrra komu um 16 þúsund manns að heimsækja okkur, helmingurinn gagngert til þess að heimsækja Saltfisksetrið,“ segir Óskar Sævarsson forstöðumaður setursins. „Auk þess sjáum við um fjölbreytta viðburðadagskrá með Grindavíkurbæ, til að mynda er hátíðin Sjóarinn síkáti nýaflokin og talið er að rétt um 20 þúsund manns hafi komið.“Saltfisksetrið er byggt upp sem setur allra landsmanna um saltfisk og er mikið lagt upp úr lifandi og myndrænu sýningarrými en rýmið var hannað af fyrirtækinu SagaFilm. Sýningin fylgir sögu saltfisksútgerðar allt frá því að Englendingar komu hingað með salt í tunnum 1770 og kenndu Íslendingum að salta fisk, þangað til 1965 þegar fyrsti vélbúnaðurinn kom í fiskverkunina.

  • Saltfiskvinnsla í  Grindavik
„Hugmyndin er að láta gestina fá þá tilfinningu að það sé að labba inn í lítið sjávarþorp frá 1930. Á sýningunni sjá gestir aðbúnað fólks á þessum tímum, hvernig það lifði og bjó, hvernig hlutir voru búnir til í höndunum, fræðist um róður og sjómennsku sem og fiskvinnslustörf kvenna í landi. Auk þess er sýnd söguþróun saltfiskvinnsluaðferðinnar sjálfrar, svo sem hvernig fiskurinn var þurrkaður. Síðan er tíminn eftir 1965 náttúrulega helgaður fiskvinnslunni hérna í Grindavík, sem er stærsti saltfiskframleiðandi landsins,” segir Óskar.

„Fólkið sem man þessa tíma nefnir strax gúmmístígvélin þegar það er spurt hver hafi verið mesta byltingin í vinnuaðferðum. Maður getur rétt ímyndað sér, það er ekki fyrr en um 1950 sem gúmmíklæðnaður kemur. Fyrir þann tíma stendur fólk í hverri spjörinni á fætur annarri í bleytu. Þetta hefur verið alger vosbúð, en fólk gerði þetta samt sem áður,“ segir Óskar.

  • Úr sýningarsal safnsins
„Þar af leiðandi er þetta mun sterkari upplifun en nútímafiskvinnsla býður upp á í sínu tæknivædda umhverfi. Enda nefnir fólk gjarnan hve sterk upplifunin er og hve hugmyndin kemst vel til skila.“

„Auk þess erum við afar vel staðsett með geysifallegt útsýni yfir höfnina. Raunar getur maður bara setið með kaffibollann fyrir framan setrið og horft á strákana landa fiskinum,“ segir Óskar. Hann minnist á að Grindavíkurhöfn sé þriðja öflugasta útgerðarhöfn landsins, hefur 70 skipa flota og þar af leiðandi er mikið líf í kringum hana. Þessi tengsl við höfnina búa til sérstakt andrúmsloft í kringum húsið, efla upplifunina af Grindavík sem sjávarþorpi og opna gátt að þessum undirstöðuútflutningsvegi þjóðarinnar.

Nánari upplýsingar má finna á www.saltfisksetur.is

Myndbönd

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga