Greinasafni: Sveitarfélög
Reykjanes - Allt frá ólgandi brimi til stórbrotinna jarðfræðiundra


Langar þig í góða en kannski öðruvísi útivistarparadís þar sem stutt er í heitar laugar og alla þá þjónustu sem þú þarfnast? Þá er Reykjanesið án efa staður fyrir þig. Á Reykjanesskaga má finna fjöldan allan af gönguleiðum, sem sumar hverjar eru þjóðleiðir frá fornum tímum, þar má finna mikil jarðfræðiundur sem vert er að skoða sem og samfélög og staði sem hýsa bæði sögu og menningu mikilvæga íslenskri þjóð. 

Með sanni má segja að Reykjanesskagi búi yfir kyngimögnuðum náttúruperlum sem eflaust margir landsmenn eiga enn eftir að upplifa, allt frá Krýsuvík í suðaustri til Garðsskaga í norðvestri skagans. Svæðið hefur í gegnum aldirnar verið mikilvægt til fiskveiða og viðskipta en kannski ekki notið þeirra virðingar sem skyldi sem náttúruparadís þar sem mörgum virðist Reykjanesið hrjóstugt við fyrstu sýn sem er gjarnan úr flugvél.

Reykjanesið fær þó sannarlega uppreisn æru á þessu sviði þegar nánar að er gáð, grasið er grænt, hlíðin fögur og birkilundurinn sællegur„. Gróðurfar er fjölbreytilegt innan um svarta sanda og úfin hraun sem standa þverhnípt í sjó fram og skarta stórum fuglabjörgum. Ekki aðeins kemur sjórinn manni í beint samband við náttúruöflin þegar maður verður vitni að hinu sterka brimi, heldur minna staðir á borð við brúna á milli heimsálfanna á þá ótrúlegu legu Íslands þar sem Evrasíu og Ameríku jarðskorpurnar mætast. 

Suðurnesin skarta nefnilega ekki aðeins Bláa Lóninu sem sínu jarðfræði- og fagurfræðilega undri; þar sem blámi vatnsins mætir mosabreiðunum; heldur heilu svæði sem gengur undir nafninu Reykjanesgarður á suðvesturhorni skagans og er mjög virkt háhitasvæði. 

Þar að auki er ríkt fuglalíf á Reykjanesskaga á þverhníptum fuglabjörgum og víður sjóndeildahringur með tignarlegum fjöllum. Þar má finna fornar minjar um búsetu frá upphafi norræns landnáms, þjóðsagnakennda staði, fjölbreytta flóru og fánu og fornar þjóðleiðir. Fimm tignarlegir vitar ramma svo inn þennan áhugaverða skaga og gefa ágæta mynd af þeim stöðum sem um ræðir.

Tíguleg leiðarljós sjómanna
Hafið skipar höfuðsess í lífi fólks á Suðurnesjum og því eflaust við hæfi að byrja umfjöllun um svæðið á því ljósi sem stýrði mönnum heim eftir veru úti á hafi. 

Fyrsti vitinn á Íslandi var raunar byggður á Reykjanesi, á Valahnjúki suðvesturodda nessins, norðan við Reykjanestá. Var það árið 1878, en sá viti skemmdist þó í jarðskjálftanum 1887. Sá er stendur nú var byggður 1907 efst í Bæjarfelli þar sem fyrri staðsetning þótti ekki örugg vegna jarðhræringa. 

Saga þessa fyrsta vita er í Allt frá ólgandi brimi til stórbrotinna jarðfræðiundra mörgu merkileg en umræða um hann hófst á Alþingi 1875 en ekkert fé var til í landsjóði til byggingar vitans. Var það þó fyrir samstillt átak Íslands og Danmerkur að vitinn var byggður þremur árum síðar. Fljótlega kom þó í ljós að jarðskjálftar skóku Valahnjúkinn og sprungur byrjuða að myndast í vitanum sem leiddi til þess að öruggari staðsetning var valin nýja vitanum. 

Hægt er að segja að Reykjanesviti sé einkennandi fyrir þá ímynd sem kemur flestum fyrir hugarsjónir þegar þeir heyra orðið viti. Hann er meðal hæstu vita á Íslandi, 31 metri á hæð, hvítur á lit og sívalur. Reykjanesviti stendur í Reykjanesgarði, á meðal mikilla jarðfræðiundra sem, ásamt vitanum, er skemmtilegt að skoða. 

Fimm aðir vitar eru á Reykjanesinu, tveir af þeim í Garði. 1897 var byggður viti á Garðsskagatá, ferstrend bygging sem var 12,5 metrar á hæð. Nýr viti var hins vegar byggður á Garðsskaga árið 1944 þar sem sjór hafði gengið mikið á land frá því að gamli vitinn var byggður. Hinn nýi er sívalur, 28 metrar, sígildur að gerð eins og sá á suðvesturoddanum. Eru þessir vitar fallegir á að líta og einkennandi fyrir bæjarmyndina á Garði. 

Í Stafnesi við Sandgerði var byggður árið 1925 átta metra viti sem er ferstrendur og stendur á efnismiklum sökkli og ber gulan lit. Þess má geta að Stafnes er forn höfuðból þar sem áður fyrr var mikið útræði og fjölbýli manna. Raunar var Stafnes fjölmennasta verstöð á Suðurnesjum á 17. og 18. öld. Þessi staður var áður fyrr mjög varasamur og hafa mörg skip farist á Stafnesskerjum, til að mynda togarinn Jón forseti árið 1928 þegar 15 manns drukknuðu en 10 var bjargað. 

Rétt norðan við Keflavík í Reykjanesbæ stendur Hólmbergsviti sem reistur var árið 1956. Hann er lítill, kónískur gulur viti 9,3 metrar á hæð. Að lokum má nefnda vitann að Hópsnesi, sem stendur á nesinu sem er suður að Grindavík. Sá er 8,7 metrar á hæð. 

Þetta landsvæði sem vitarnir minna sjómennina á að þeir nálgist er ekki aðeins merkilegt fyrir sakir hins mikla og á stundum hættulega brims eða þeirra fiskafurða sem færa fólkinu björg í bú; heldur einnig þar sem landið sjálft er jarðfræðilegt undur þar sem Norður-Atlantshafshryggurinn gengur á land í orðsins fyllstu merkingu.

Ævintýralegt og áhugavert jarðfræðisvæði
Á Reykjanesinu má segja að náttúran mæti orkunni úr iðrum jarðar þar sem hinir tveir flekar Evrasíu og Ameríku mætast. Svæðið er án efa paradís fyrir alla þá sem hafa minnsta snefil af jarðfræðiáhuga. Hér má finna jarðmyndanir með stórbrotnum og víðfeðmum hraunum, fjölbreytilega hella, eldstöðvar og hveri af ýmsum gerðum. Ekki aðeins er svæðið paradís jarðfræðiunnandans heldur líka þeirra sem njóta vel sjónarspils hinna ótrúlegu lita sem fylgja virkum háhitasvæðum. 

Reykjanesið er einn yngsti hluti landsins þar sem svo fjölmenn byggð er í jarðfræðilegu tilliti. Yfir 100 eldgígar með fjölbreyttum eldstöðvum og dyngjum með tilheyrandi hraunum eru á Reykjanesi. Talið er að elsta hraunið sé frá ísöld en það kemur úr Háleyjabungu og er bergtegund sem kallast pigrít og kemur beint frá möttli jarðar. Yngstu hraunin runnu um 1226 í Reykjaneseldum þegar Reykjanesið logaði í orðsins fyllstu merkingu. Nokkru áður, nánar tiltekið árið 1151, logaði Reykjanesið frá Hafnarfirði í austur að Undirhlíðum og þaðan niður í sjó vestan við Krýsuvík þar sem Ögmundarhraun rann í sjó fram. Reykjanesið er því mikil hraunhella misjafnlega gróin þar sem sjá má allar gerðir af hraunum. Í þessum hraunum hafa svo fundist yfir 200 hellar. 

Frá Reykjanestá að Krýsuvík, suðaustanlega á Reykjanesi, eru þrjú háhitasvæði þar sem er mikill yfirborðshiti með tilheyrandi hverum, litadýrð og síbreytilegri náttúru. Á einu slíku svæði er Bláa Lónið en vatnið og leirinn frá jarðvarmavirkjuninni í Svartsengi kemur þaðan. Önnur háhitasvæði eru við Seltún við Krýsuvík og svo Gunnuhver yst á Reykjanesinu. 

Gunnuhver er hjartað í svæði sem gengur undir nafninu Reykjanesgarður en í bígerð er að þetta svæði verði viðurkennt sem jarðminja- orku- og náttúrugarður. Aðal aðdráttarafl Reykjanesgarðs er án efa háhitasvæðið við Gunnuhver en einnig eru þar áhugaverðir staðir eins og fuglabjörgin við Hafnaberg og Valahnjúk, Reykjanesvirkjun með sýningunni Orkuverið jörð, ströndin við Sandvík, Reykjanesviti, Skálafell, Háleyjabunga, hraunmyndanir, náttúrulaugar og hellar. 

Rúsínan í pylsuendanum er svo Brúin milli heimsálfanna sem liggur á milli Evró-Asíuflekans og Ameríkuflekans en jörðin gliðnar um 2 sentímetra á ári á þessum merkilega táknræna stað. Reykjanesgarður nær yfir það svæði sem liggur frá Háleyjabungu austan við Reykjanestá að brúnni milli heimsálfa og þaðan norður fyrir Hafnaberg. 

Raunar eru möguleikarnir óteljandi við náttúruskoðun, fuglaskoðun, jarðfræðirannsóknir og gönguferðir á svæði þar sem Reykjaneshryggurinn gengur á land og úthafsaldan rís hæst við Íslandsstrendur. 

Gunnuhver sýnir á kraftmikinn hátt hvernig orkan úr iðrum jarðar brýst upp úr jarðskorpunni sem bullandi leir, sjóðandi vatn eða gufa. Í þessum umbrotum verður oft til mikið litaspil sem blæs mörgum í brjóst þörf til þess að ná þessu undri á „filmu“ eða miðla þessum formum og litum á einhvern annan hátt. Gunnuhver dregur nafn sitt af Guðrúnu nokkurri sem gekk aftur og olli miklum usla á svæðinu þar til hún var send í hverinn. 

Skilin milli Ameríku- og Evrasíu flekanna birtast okkur ýmist sem opnar sprungur og gjár eða sem sem gígaraðir. Á einum stað hefur verið byggð brú yfir gjá, á milli hinna tveggja fleka sem mynda Ísland. Brúin á milli heimsálfanna er staðsett upp af Sandvík og er við þjóðveg 425. Þarna gefst fólki kostur á að hreinlega ganga á milli heimsálfa í jarðfræðilegu tilliti. 

Á svæðinu er einnig að finna Reykjanesvirkjun en þar á bæ er merkileg sýning að nafni „Orkuverið jörð“ sem lýsir í máli og myndum hvernig orka jarðar hefur orðið til, hvernig hún brýst fram og er svo nýtt af manninum. Frá Reykjanesvirkjun rennur einnig mikið af heitum sjó, álíka mikið og meðalrennsli Elliðaánna. Það stendur mögulega til að nýta þetta heita vatn til að mynda ylströnd á svæðinu. Á svæðinu er einnig hið svokallaða Gráa Lón sem er svipað Bláa Lóninu nema grátt að lit. Það lón býr einnig yfir miklum möguleikum til nýtingar sem heit náttúrulaug fyrir ferðamenn. 

Margt er að sjá í Reykjanesgarði, svo margt að ekki er mögulegt að gera því tæmandi skil hér. Því gildir hið forkveðna að sjón er sögu ríkari.Göngu- og ökuferðir um Reykjanesið
Reykjanesið er afar hentugt bæði þeim sem vilja sjá sem flest í góðum bíltúr sem og þeim sem langar að kynnast landinu á göngu. Kjörið er að aka Reykjaneshringinn frá Reykjanesbæ í gegnum Garð, Sandgerði, niður að Reykjanestánni, til Grindavíkur og svo aftur til baka að Reykjanesbæ. 

Þessi hringur er bæði tilvalinn sem hin besta dagsskemmtun þar sem kíkt er á einhver af söfnum svæðisins auk þess sem stórbrotnar strendur og sögufrægir staðir eru skoðaðir. En einnig er kjörið að gefa sér fleiri daga á þessum hring ef vilji er fyrir henda að skoða hina ótalmögu staði sem fyrir eru. 

Sé stiklað á stóru um áhugaverða staði til þess að skoða í góðum bíltúr, mætti fyrst nefna smábátahöfnina í Gróf í Keflavík þaðan sem haldið væri áfram í átt að Garði og jafnvel fjörurnar á leiðinni skoðaðar. Í Garði er kjörið að heimsækja byggðasafnið og Garðskagavita svo dæmi séu nefnd. Síðan er ferðinni haldið áfram að Sandgerði þar sem er til dæmis kjörið að gista á góðu tjaldsvæði bæjarins. Þar er tilvalið að heimsækja Fræðasetrið og fræðast um flóru og fánu Reykjanesskaga eða heimsækja Hvalneskirkju þar sem Hallgrímur Pétursson bjó. 

Sé haldið áfram er komið að Höfnum sem var á öldum áður mikill útgerðastaður eins og svo margir aðrir staðir við vesturströndina á Reykjanesi. Rétt sunnan við Hafnir geta göngufólk svo hafið fjögurra tíma þægilega göngu á hinum forna Prestastíg, yfir hraunbreiðurnar og endað rétt vestan við Grindavík. 

Næst er komið að Hafnabergi, þar sem sjá má mikið af sjófugli í varpi. Hægt er að ganga þar niðureftir og tekur það um 40 mínútur. Síðan er hægt að fara að Sandvík sem er falleg sandfjara þar sem ræktað hefur verið melgresi til að hefta sandfok. Svo tekur Reykjanesgarðurinn við, þar sem hægt er að eyða miklum tíma að skoða öll jarðfræðiundrin. 

Þegar ekið er með suðurströndinni í átt til Grindavíkur er farið yfir hraun frá Eldvarpagígaröðinni sem gaus á 13.öld og er 10 km löng. Einnig er hægt er að ganga niður að Háleyjabungu sem er mjög formfagur gígur á sjávarkambinum. 

Í Grindavík er mikla þjónustu að finna, bæði í formi gistingar og veitinga en þar er einnig Saltfisksetrið sem hefur í hávegum sjávarútveginn sem spilar svo stóran þátt á svæðinu. Frá Grindavík er svo bæði hægt að aka í átt að Krýsuvík og Kleifarvatni eða aftur í átt að Reykjanesbæ og skella sér í Bláa Lónið í leiðinni. Þá er hægt að heimsækja Víkingaheima í Innri Njarðvík eða nálgast ýmsa þjónustu, svo sem gistingu og upplýsingamiðstöð í Ytri Njarðvík. 

Vilji maður ná beinni tengslum við náttúruna er hægt að ganga ótal leiðir bæði fornar og nýjar á Suðurnesjum. Fyrrnefndur Prestastígur er vinsæl og skemmtileg ganga í gegnum áhugavert svæði en af fornum slóðum mætti einnig nefna Árnastíg og Skipstíg. 

Þetta eru fornar þjóðleiðir á milli Njarðvíkur og Grindavíkur og eru stígarnir víða markaðir í harða hraunhelluna. Skipstígur byrjar á svipuðum stað og Preststígur endar, vestan við Grindavík en Skipstígur aðeins norðan við Grindavík. Þeir sameinast svo á miðju nesinu og liggja yfir Njarðvíkurheiði og enda við Fitjar í Njarðvík. Þetta eru tiltölulega greiðfærar gönguleiðir sem eru mest á sléttu hrauni. Árnastígur er um 4 tíma ganga en Skipastígur 6 tímar. 

Frá Grófinni í Keflavík má einnig ganga tvær gamlar leiðir, Garðastíg í átt að Garði og Sandgerðisveg í átt að samnefdnum kaupstað. Báðar þessar leiðir hafa upp á margt að bjóða varðandi sögu, náttúru og umhverfi. Hægt er að kaupa gönguleiðabæklinga fyrir allar þessar leiðir hjá Ferðaþjónustu Suðurnesja. 

Frá fuglalífi til fjallgangna
Reykjanesið skartar miklu og áhugaverðu fuglalífi en þúsundir sjófugla hreiðra um sig á hverju sumri í björgum svæðisins. Í Hafnarbergi og Krýsuvíkurbergi eru algengustu tegundirnar langvía, álka, stuttnefja, rita, lundi, teista, fýll og skarfur. 

Algengasti fuglinn á Reykjanesinu er þó án efa krían og er hana að mestu að finna í Kríuvörpum á Reykjanesoddanum, austur af Grindavík og milli Garðs og Sandgerðis. Á meðal spörfugla má nefnda skógarþröst og snjótittling en einnig er starri á landinu allt árið um kring. Æðafuglinn finnst víða á Suðurnesjum og er fjárhagslega mikilvægur bændum á svæðinu sem týna verðmætan dúninn úr hreiðrum þeirra. 

Ein stærsta súlubyggð í heimi er í hinnni stórbrotnu móbergseyju Eldey sem rís þverhnípt úr hafi fjórtán kílómetra suðvestur af nesinu. Súlan er stærsti sjófugl í Norður Atlantshafinu og um 16 þúsund pör gera sig heimakomin á eynni sem er mjög smá, aðeins 0,03km² og 77 metra há. Þar af leiðandi er eyjan nánast þakin súlum sem virðast úr fjarlægð vera smáar hvítar doppur á svörtum grunni eyjunnar. 

Hafnaberg er eins og áður segir vinsæll íverustaður fugla en bergið er 43 metra hátt og áætlað er að þar dvelji um 6.000 pör. Oft má einnig sjá seli og hvali fyrir landi hjá Hafnabergi. 

Krýsuvíkurbjarg er 50 metra hátt berg með um 57.000 pör og langstærsta fuglabjarg skagans. Skammt frá þessu mikla fuglabjargi er gamla Krýsuvík en sá bær tók af þegar Ögmunarhraun rann yfir mikið af gróðurlendi jarðarinnar. Nú stendur Krýsuvík innar í landinu, þrjá kílómetra í suð-vestur af Kleifarvatni. Þar stendur falleg kirkja sem vert er að skoða. Sem fyrr segir er mikið jarðhitasvæði í Krýsuvíkurlandi auk þess sem brennisteinsnáma var þar um skeið. 

Á milli Krýsuvíkur og Grindavíkur má svo finna friðlýst svæðisem heitir Selartangar. Þar var mikið útræði fyrr á öldum, meðal annars frá Skálholtsbiskupi. Miklar verðbúðarústir eru þar sem og hraunhella sem vermenn notuðu. 

Í nágrenni Krýsuvíkur má finna fyrrnefnt Kleifarvatn sem er um 10 km2 og eitt af dýpstu vötnum landsins. Munnmæli herma að skrímsli lifi í vatninu og sé svart ormskrímsli á stærð við stórhveli. Sveifluháls fellur með bröttum hömrum niður að Kleifarvatni en þar er stikuð gönguleið og er útsýni mikið og sérstætt á leiðinni. Sunnan til í hálsinum að austanverðu er svo mikill jarðhiti og það hverasvæði sem kennt er við Krýsuvík. 

Af fleiri fjöllum skagans má nefna Fagradalsfjall á miðjum Reykjanesskaga, og rís það hæst 385 metra. Raunar er um litla hásléttu að ræða með nokkrum hnjúkum. Einnig mætti nefnda Eldvörpin sem er 10 kílómetra löng gígaröð sem eru hluti af Reykjanesgarði. Gígarnir eru stórir og í einum þeirra er mikill jarðhiti og gufuuppstreymi. Fyrr á dögum bökuðu grindvískar konur brauð í gígnum og liggur því brauðstígur þangað frá Grindavík. 

Að lokum er vert að nefna Keili sem er án efa best þekkta fjallið á svæðinu en sérstök lögun fjallsins vekur eftirtekt víða frá. Keilir er 379 metra móbergsfjall og er strýtumyndunar lögun fjallsins komin til vegna gígtappa eða bergstands á fjallinu miðju sem ver það gegn veðrun. Af tindi fjallsins er útsýni afar gott yfir Reykjanesskagann. 

Hvort sem mann þyrstir í útiveru, göngur, fuglaskoðun, jarðfræðiundur, söfn, menningu eða hvaðeina þá má finna það á Suðurnesjum. Stórbrotið, sérstakt landslag tekur á móti þér með sínum hverum og gufustrókum og mosagrónu hraunbreiðum. Fuglarnir setja einnig sinn svip á landslagið sem og brimið ólgandi. 

Út um allt má finna gamlar minjar útgerðar sem og merkilegar kirkjur sem allar hafa sína sögu að segja. Söfnin í bæjunum eru einnig uppfull af sagnfræðilegu heimildum og sjónrænni framsetningu á öllu frá fiskilífinu til hinna smæstu sjávarlífvera. 

Nánari upplýsingar má finna á www.Reykjanes.is

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga