Greinasafni: Sveitarfélög
Sandgerði - Saga og náttúrufegurð

 
Á norðvestur horni Reykjanesskaga er kaupstaðurinn Sandgerðisbær, sem er sjávarútvegsbær með meiru. Stærðarinnar höfn setur svip sinn á bæinn sem og hið fróðlega Fræðasetur þar sem gott er að fræðast um allt sem viðkemur flóru og fánu svæðisins og sjávarins. Auk þess eru margir sögulegir staðir sem tengjast útgerð og verslun í kringum Sandgerði sem og margslungin náttúra eins og hinar sendnu fjörur sem bærinn dregur nafn sitt af.

Sandgerði var á öldum áður mikil útvegsjörð þar sem fiskurinn var í fyrirrúmi. Nú á dögum er Sandgerðisbær hins vegar sveitarfélag sem nær yfir alla vesturströnd Miðness, alla leið að Garðskaga. Íbúar sveitarfélagsins eru um 1700 og eru aðalatvinnuvegirnir enn sjávarútvegur og fiskvinnsla. 

Mikil höfn er í Sandgerði og setur hún mikinn svip á bæinn. Gott skjól er í höfninni í öllum áttum auk þess sem hún er staðsett við hjarta bæjarins nálægt allri helstu þjónustu. Báðum megin við höfnina er svo sjávarströndin sem er lág, víða sendin og mjög skerjótt. Áður fyrr var mikið um sandfok á svæðinu en um miðja síðustu öld var gert átak og sandfokið heft með melgresi. Auk þess var hlaðinn harðgerður varnargarður út með sjónum. 

Sandgerði er snyrtilegur bær með góða þjónustu, til dæmis er þar að finna glænýtt tjaldsvæði, en auk þess er í bænum sundlaug, golfvöllur og ýmsir matsölustaðir. Þetta gerir bæinn bæði kjörinn áningarstað á leið manns um Reykjanesið og til að staldra þar lengur við og njóta verunnar í þessum mikla sjávarútvegsbæ. 

Þyrsti mann í fróðleik um náttúru Íslands er Fræðasetrið í Sandgerði rétti staðurinn til að heimsækja. Safnið er fyrst og fremst náttúrugripasafn sem gefur manni kost á að skoða ýmsa hluta náttúrunnar betur. Þar er að finna ýmsar lífverur og jurtir í ferskvatns- og sjóbúrum, safn íslenskra og erlendra steina og fræðsla um sögu Sandgerðis. Fræðasetrið er ásamt Háskólasetri Vestfjarða og Náttúrustofu Sandgerðis, staðsett í gömlu frystihúsi og hefur að geyma fimm sýningarsali.

Eina uppstoppaða rostunginn á landinu er að finna í Fræðasetinu en mikið var um rostunga á svæðinu á öldum áður. Rostung er þess vegna að finna í bæjarmerki Sandgerðis og hét allt svæðið áður fyrr Rosmhvalanes eftir þessum miklu dýrum. 

Einnig er í Fræðasetinu að finna sögusýninguna „Heimskautin heilla“ um franska vísindamanninn Jean-Baptiste Charcot og skipið Pourquoi Pas? sem fórst við Íslandsstrendur 1936. Er sýningin í tveimur sölum og kynnist maður lífi og störfum þessa mikla vísindamanns. 

Fuglalíf setur svip sinn á Sandgerði en þar verpa stórir hópar af kríum og æðarfugli svo fátt eitt sé nefnt. Í Fræðasetrinu má líta helstu fugla svæðisins uppstoppaða í sýningaskáp, en vilji maður líta þá í sínu náttúrulega umhverfi er hægt er að fá lánaða sjónauka í safninu til slíks brúks. 

Síðast en ekki síst verður að minnast á sjóbúr Fræðasetursins þar sem gestum gefst kostur á að fylgjast með atferli ýmissa sjávardýra. Margir hafa eflaust aldrei áður barið slík dýr augum og getur það verið afar lærdómsrík reynsla. Auk þess eru ýmsir hlutir í safninu sem tengjast náttúrulífinu sem velkomið er að snerta og prófa eins og mann lystir til þess að fá almennilega tilfinningu fyrir þeim. 

Í kringum Sandgerði er einnig að finna marga merkilega staði, sem flestir hafa vissulega sterka tengingu við hafið. Þegar bandaríski herinn var á svæðinu var raunar ekki hægt að skoða svæðið sunnan Sandgerðis en nú hafa margir merkilegir staðir opnast ferðamönnum. Einn af þeim stöðum eru Básendar sem var mikill verslunar- og útgerðarstaður frá 15. öld þangað til að verslun lagðist þar af í miklu sjávarflóði 1799. Þar var konungsútgerð sem þó var lögð niður 1769 en danskir einokunarkaupmenn voru á staðnum þar til Básendaflóðið gekk yfir og voru þeir margir hverjir illa liðnir. 

Annað fornt höfuðból er Stafnes sem var raunar fjölmennasta verstöð á Suðurnesjum á 17. og 18. öld. Skerin við Stafnes hafa verið hættuleg skipum og hafa þau mörg farist þar, þar á meðal togarinn Jón forseti, 1928. Þetta strand varð til stofnunar slysavarnafélagsins Sigurvonar í Sandgerði og vísir að stofnun slysavarnafélaga víðsvegar á landinu. 

Hvalnes er sunnan við Sandgerði og hefur frá fornu fari verið mikill kirkjustaður. Sú kirkja sem stendur nú í Hvalnesi var vígð árið 1887 og er vafalaust ein fegursta steinkirkja landsins, úr höggnu grágrýti úr Miðnesheiði. Hvalnes er þekkt fyrir þær sakir að eitt frægasta sálmaskáld Íslands, Hallgrímur Pétursson, bjó þar frá 1644 til 1651. Þó er talið að Hallgrími hafi líkað vistin í Hvalnesi fremur illa en þar fæddist þeim hjónum dóttir, Steinunn, sem dó ung að aldri og syrgði Hallgrímur hana mikið. Í kirkjunni er varðveittur legsteinn Steinunnar sem talið er að skáldið hafi sjálft höggvið. 

Nánari upplýsingar má finna á sandgerði.is og www.245.is

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga