Greinasafni: Orka
HS Orka - orkuframleiðsla, þægindi, vísindi og fræðsla


Reykjanesskaginn er mikið háhitasvæði og hefur orkan sem kemur úr iðrum jarðar verið nýtt til orkuframleiðslu á ýmsa vegu af HS Orku hf, áður Hitaveitu Suðurnesja hf.
 

Fyrirtækið rekur meðal annars Reykjanesvirkjun og Svartsengisvirkjun en einnig leggur HS Orka hf margt til ferðaþjónustu og fræðslu á svæðinu eins og Orkuverið Jörð, vökvann notalega í Bláa Lónið og fjöldan allan af vegaslóðum um Reykjanesskaga. Þá er fyrirtækið í samstarfi við háskólann Keili um endurnýtanlega orkugjafa. Fyrirtækið tekur á móti fjölda gesta árlega, innlendra sem erlendra og fræðir þá um orkuvinnsluna. 

Orka er líf 
Á suðvesturodda Reykjanesskaga liggur mikið háhitasvæði sem Reykjanesvirkjun nýtir til þess að framleiða orku. En þar er líka að finna góðan upplýsingagjafa um orku, á sýningunni Orkuverið jörð. Þar má fræðast um orku og líf allt frá Miklahvell til dagsins í dag. 

Sýningin tekur á móti fólki með lifandi fræðslu um upphaf alheimsins, Miklahvell, og heldur áfram með upplýsingum um alls kyns fyrirbæri í heiminum svo sem útvíkkun alheimsins, svartholin, hvítholin og sýnir samhengi hlutanna og hvernig þeir hafa verið uppgötvaðir í gegnum aldirnar. 

Hægt er að fletta upp alls kyns upplýsingum á mörgum gagnvirkum skjám um alla sýninguna, til að mynda þeim fróðleikspunkti að í einni eldingu er næg orka til að rista 160.000 brauðsneiðar. 

Þegar gengið er inn á efri hæð orkuversins fræðist maður um sólkerfið og Vetrarbrautina. Þar kemst maður að því að ekki aðeins séum við mennirnir miklir maurar í samanburði við alheiminn heldur einnig sólin okkar sem er eins og eitt einasta sandkorn á strönd þar sem hin sandkornin eru aðrar sólir. 

Næst tekur við sýningarými um manninn og orkuna og hvernig manninum hefur tekist að virkja hana. Þar er sýnt á sjónrænan hátt hvernig orkan breytist úr einu formi í annað. Næst kynnist maður mismunandi orkugjöfum og hvernig þeir eru notaðir í daglegu lífi. Að lokum kynnist maður því hvernig HS Orka hf virkjar jarðvarma á Reykjanesi. Stærstu sýningargripir orkuversins eru tveir gufuhverflar sem hvor um sig framleiða 50 megavött af rafafli. Þá sér maður í gegnum stærðarinnar glervegg sem vísar að vélasal virkjunarinnar. 

Samfara því að leiða gestum fyrir sjónir mikilvægi þess að maðurinn nýti orkuforða jarðarinnar á skynsaman og sjálfbæran hátt, undirstrikar sýningin mikilfengleika og sérstöðu hinnar einstæðu náttúru Reykjanesskaga. 

Reikistjörnum sólkerfisins hefur síðan verið komið fyrir í réttum stærðar- og fjarlægðarhlutföllum víðsvegar um Reykjanesið en sólin sjálf situr í hrauninu fyrir utan aðalinngang sýningarinnar. 

Ýmislegt í ferðaþjónustumálum 
HS Orka hf kemur víða við bæði varðandi ferðaþjónustu og ferðastaði. Fyrst er að nefna Svartsengisvirkjun sem er undirstaðan að Bláa Lóninu, fjölsóttasta ferðamannastað landsins. Í Svartsengi er einnig ráðstefnu og kynningarhúsið Eldborg sem HS Orka á en Bláa Lónið rekur. Eldborg var opnuð 1997 og um ári síðar jarðfræðisýningin Gjáin í kjallara hússins. Sú sýning liggur niðri um þessar mundir vegna tæknivandamála en til stendur að uppfæra sýninguna og opna hana aftur almenningi. 

HS Orka hf. hefur einnig unnið náið með Ferðamálasamtökum Suðurnesja að því að bæta aðgengi ferðamanna að hinum ýmsu áhugaverðu stöðum. Um þessar mundir er verið að byggja bílastæði og útsýnispall við Gunnuhver svo hægt sé að njóta þess að horfa á bullandi leðjuna sem og gufumyndunina úr hvernum. Einnig hefur skiltum verið komið upp víðsvegar um Suðurnes til fræðslu og fróðleiks til handa þeim sem eiga leið hjá. 

Einnig stendur HS Orka hf., ásamt Geysi Green Energy og Norðuráli, fyrir göngum um Reykjanesskaga alla miðvikudaga í sumar. Þetta er þriðja árið sem fyrirtækin bjóða upp á slíkt. Göngurnar eru misjafnar að gerð og lengd en oft er farið eftir þeim fjölmörgu fornu gönguleiðum sem finna má á svæðinu. Síðustu vikur hefur til að mynda Reykjanesvegur verið farinn í tveimur pörtum, frá Reykjanesi að Sandvík í fyrra skiptið og svo Sandvík yfir í Eldvörpin og hefur þátttaka verið góð í þessum gönguferðum. 

HS Orka hefur vegna framkvæmda sinna lagt fjölmarga vegi og vegslóða um allt Reykjanes sem gagnast ferðamönnum. Til að mynda hefur aðgengi að Eldvörpum sem og miðjum skaganum lagast til muna vegna þeirra slóða sem HS Orka hf hefur lagt. Fjöldinn allur af ferðaþjónustufyrirtækjum nýtir sér þessa slóða fyrir starfsemi sína, t.d. fjórhjólaferðir og hestaferðir. 

Fyrirtækið hefur alla tíð lagt áherslu á að vera aðgengilegt og fræðandi fyrirtæki, opið fyrir öllum sem því vilja kynnast. Fyrirtækið hefur lagt sitt af mörkum til að greiða fyrir vægi ferðaþjónustunnar á svæðinu og gera sem flestum kleift að kynnast mikilfengleika náttúrunnar á Reykjanesi.

Árni Sigfússon, bæjarstjóri, rekur sögu HS Orku og HS Veitna og hvernig Reykjanesbær stendur vörð um auðlindir þjóðarinnar og þjónustu við almenning.  Sjá myndband hér

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga