Greinasafni: Sveitarfélög
Reykhólahreppur - Ævintýraheimurinn Flatey á Breiðafirði


Flatey á Breiðafirði er sérstakur ævintýraheimur. Hvergi annars staðar hérlendis er hægt að ganga um heilt þorp þar sem svipmót gamla tímans hefur haldist eins vel. Gömlu íbúðarhúsin, verslunarhúsin og pakkhúsin í Flatey bera vitni um bjartsýnina og kraftinn sem þar ríktu kringum aldamótin 1900, en á sínum tíma var eyjan miðstöð verslunar við Breiðafjörð og mikil verstöð.
 

Á sumrin slær hjarta Breiðafjarðar ennþá í plássinu í Flatey, á gamla kauptorginu í þorpinu miðju. Húsin sem umkringja gamla verslunarstaðinn í Flatey eru timburhús frá gullöld eyjarinnar. Þau hafa nær öll verið færð til upprunalegs útlits. Hótel Flatey er með gistingu, veitingarekstur og bar í nýuppgerðum húsum og líka er heimagisting í boði í Flatey eins og verið hefur lengi. 

Á tólftu öld var um skeið munkaklaustur í Flatey. Til minningar um það er svonefndur Klaustursteinn í túninu við Klausturhóla. Flateyjarbók, eitt merkasta handrit Íslendinga, var á miðöldum varðveitt í Flatey. Ljósprent af Flateyjarbók er til sýnis í elstu bókhlöðu landsins, en hún var reist í Flatey árið 1864 á mesta blómaskeiði menningarlífs þar. 

Kirkjan sem nú stendur í Flatey var byggð 1926. Myndir í hvelfingu hennar gerðu Kristjana og Baltasar Samper og sóttu myndefnið í mannlíf og atvinnuhætti eyjanna. Seinna kom sonurinn Baltasar Kormákur og nýtti sér Flatey sem sviðsmynd í eina af kvikmyndum sínum. 

Þetta kemur kannski ekkert á óvart, enda hefur Flatey löngum verið bæði listamönnum og fræðimönnum upplifun og fjölbreytt yrkisefni. Enn í dag njótum við verka Matthíasar Jochumssonar, Sigurðar Breiðfjörð, Herdísar og Ólínu Andrésdætra, Þorvaldar Thoroddsen, Halldórs Laxness, Þórbergs Þórðarsonar, Sigvalda Kaldalóns, Jökuls Jakobssonar, Nínu Bjarkar Árnadóttur og Jóns Gunnars Árnasonar, svo nefnd séu nokkur vel þekkt nöfn. 

Hótel Flatey er í þremur nýlega uppgerðum pakkhúsum við Grýluvog. Gistiaðstaðan er í Eyjólfspakkhúsi og Stóra-Pakkhúsi. Veitingastofan er í húsi sem er betur þekkt sem Samkomuhús Flateyjar. Þar eru bornar fram kræsingar og lostæti undir stjórn Ingibjargar Pétursdóttur sem rekur veisluþjónustuna Mensu. Innblástur í matseðilinn er undantekningarlaust sóttur í matarkistu Breiðafjarðar. 

Ferjan Baldur ( www.saeferdir.is ) siglir milli Stykkishólms og Brjánslækjar með viðkomu í Flatey. Á leið yfir Breiðafjörð er tilvalið að staldra við í Flatey. Starfsfólk Baldurs sér um að koma bílum í land fyrir þá sem kjósa að gera sér glaðan dag í eynni. Yfir sumartímann er Eyjasigling á Reykhólum (eyjasigling.is) einnig með farþegasiglingar út í Flatey frá Stað á Reykjanesi, skammt frá Reykhólum, og raunar út um allar Breiðafjarðareyjar.

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga