Greinasafni: Sveitarfélög
Bolungarvík - Allt fyrir ferðamenn í Bolungarvík

Bjartsýni ríkir í Bolungarvík enda finna bæjarbúar að ferðamannastraumurinn fer vaxandi auk þess sem umferð um höfnina hefur aukist og meiri afla landað á staðnum.
 

„Hér er mikið að skoða, ekki bara hefðbundna ferðamannastaði heldur líka mannlífið. Bolungarvík nýtur sívaxandi vinsælda hjá bæði innlendum og erlendum ferðamönnum,“ segir Elías Jónatansson, bæjarstjóri í Bolungarvík. 

Tvö sjóstangveiðifyrirtæki hafa haslað sér völl í Bolungarvík. Þessi fyrirtæki bjóða upp á sjóstangveiðiferðir bæði með og án leiðsagnar. Þá er fyrirtæki með fastar ferðir í Jökulfirði og á Hornstrandir en einnig er hægt að leigja bát í sérstakar ferðir utan áætlunar. 

„Í nágrenninu eru fjölmargir staðir sem hægt er að kynna sér. Þar ber hæst sjómannasafnið Ósvör en þangað koma nærri 10 þúsund gestir á ári. Ósvör er lifandi safn. Þar er vermaður sem segir sögur af sjósókn þegar ýtt var úr vör á árabátum. Hann útskýrir líka hvernig lífið í verbúðunum var og segir gjarnan ýmsar sögur,“ segir Elías. 

Uppstoppaður ísbjörn 
Í Bolungarvík er glæsilegt náttúrugripasafn, stórt og mikið fuglasafn og svo er þar steinasafn. Steinasafnið er gjöf frá Steini Emilssyni jarðfræðingi. Þá má sjá uppstoppaðan ísbjörn á safninu. 

„Segja má að heimsókn niður á höfn sé tilheyrandi enda er Bolungarvík elsta verstöð landsins, en eins og segir í Landnámabók þá nam Þuríður sundafyllir hér land og bjó að Vatnsnesi í Syðridal um 940. Það er skemmtilegt að skoða mannlífið þar þegar bátarnir eru að landa,“ segir hann. Fjöldi gönguleiða er í Bolungarvík og nágrenni. Margir ganga gamlar leiðir sem notaðar voru til að fara milli fjarða, til dæmis yfir í Súgandafjörð, Skutulsfjörð, Hnífsdal eða á Galtarvita. Þá er hægt að ganga á fjöllin í kring. 

Fjöllin eru flestöll um 600 metra há og henta því vel fyrir styttri göngur. Gönguferðir á firðina og í Galtarvita henta hinsvegar vel sem dagsferðir. 

Þeir sem ekki hafa þrek í göngur geta ekið upp á Bolafjall af Skálavíkurheiði. Á Bolafjalli er radarstöð og þaðan er frábært útsýni inn Ísafjarðardjúp, á Jökulfirðina, Grænuhlíð og Snæfjallaströnd. 

Skálavík ómissandi 
„Grænahlíð er oft kölluð Hótel Grænahlíð því undir henni leituðu gjarnan innlendir og erlendir togarar vars hér áður fyrr. Ég man eftir því að sjá ljós frá tugum skipa þegar veður var slæmt til dæmis á Halamiðum út af Vestfjörðum,“ segir bæjarstjórinn. 

Hann telur líka ómissandi að aka yfir í Skálavík og bendir á að þangað sé ekki langur akstur, kannski rúmlega 20 mínútur. Þar segir hann að sé einstaklega gaman að fara í fjöruna eða bregða sér í berjamó. 

Upplagt er að enda daginn á því að fara í sundlaugina í Bolungarvík. Sundlaugin er innilaug með góðum útigarði með heitum pottum og vatnsrennibraut. Garðurinn er skjólgóður og snýr í suður og því dásamlegur í góðu veðri. „Í sundlaugargarðinum eða pottunum er frábært að sitja og njóta útsýnis til fjallanna í kring,“ segir Elías. 

Nóg er af gistimöguleikum 
Hægt er að leigja íbúðir eða herbergi. Tjaldsvæðið er við sundlaugina og er verið að stækka það verulega og margfalda rafmagnstengingar. Þá eru hér bæði matsölustaðir og aðrir sem selja eingöngu skyndibita. „Hér er allt fyrir ferðamanninn,“ segir Elías. 

Elías Jónatansson (kletturinn „Þuríður“ („Þuríður sundafyllir“) í fjallinu Óshyrnu í baksýn).

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga