Greinasafni: Sveitarfélög
Kaldrananeshreppur - Milli vestfirskra fjalla en steinsnar frá bænum
Eitt minnsta sveitafélag landsins, Kaldrananeshreppur, býr yfir ótrúlegum möguleikum fyrir ferðalanginn. Hvort sem maður kýs sögulegar minjar, slökun í heita pottinum eða að skoða náttúru og dýralíf.
Svæðið er kjörið fyrir þá sem vilja ró og næði við íslenskar strendur en um leið að kynnast skemmtilegu littlu sjávarplássi þar sem allir vinna saman að því að halda hina glæsilegu Bryggjuhátíð í júlí. Margir telja eflaust að til staðar á Vestfjörðum sé afar langur akstur frá höfuðborgarsvæðinu en raunin er sú að aðeins tekur þrjá klukkutíma að aka að þessum heillandi stað. 

Það má með sanni segja að svæðið hafi upp á margt að bjóða; á góðum degi getur maður séð hval beint af ströndinni, fornleifauppgröft frá því að Baskar ráku þar hvalastöð á 17. öldinni og heita potta við ströndina en mikinn hita er að finna í Kaldrananeshreppi. Svo ekki sé minnst á hið góða samfélag innan um vestfirska firði og fjöll. 

Kaldrananeshrepp er að finna á norðurhluta Vestfjarða, nálægt Hólmavík og hefur að geyma þorpið Drangsnes. Sjávarútvegur er mikilvægur staðnum og fólkinu sem þar býr og hefur grásleppan leikið lykilhlutverk í gegnum tíðina. 

„Ferðaþjónustan hefur verið að vaxa og dafna hér á Kaldrananesi þar sem svæðið býður upp á marga möguleika og er þess að auki ansi úrkomulítið og sumrin hér björt,“ segir Jenný Jensdóttir oddviti hreppsins. „Margir möguleikar eru í boði fyrir ferðamenn varðandi hafið, hér er hægt að fara í siglingar, hvalaskoðun, sjóstöng sem og ferðir til Grímseyjar í Steingrímsfirði þar sem miklar lundabyggðir eru staðsettar.“ 

„Auk þess er hér að finna góða gistimöguleika bæði í Drangsnesi og lengra inn í Bjarnafirði. Svo má þess geta að við erum með tvær sundlaugar í hreppum, á þessum tveimur stöðum og er sú í Bjarnafirði byggð 1947 og nálægt því að vera náttúrulaug þar sem hiti er í Bjarnafirði. Sú í Drangsnesi er nýleg og minni og er verulega notaleg,“ segir Jenný. 

Hitinn á svæðinu er notaður á skemmtilegan hátt í því að tveimur heita pottum hefur verið komið fyrir á strandlínunni, opnir öllum sem eiga leið hjá. „Heitt vatn fannst í Drangsnesi árið 1996 og var þá maður á svæðinu sem gaf krökkunum fiskkör til að busla í við ströndina. Brimið, sem er kröftugt hér við strendur tók körin einn veturinn út á haf með sér en þá ákáðum við að koma fyrir almennilegum pottum fyrir á ströndinni,“ segir Jenný.
Jenný segir heitu pottana vera mikið notaða af íbúum Drangsness. „Allir í þorpinu eiga sinn baðslopp og skó fyrir heitu pottana og þú munt áreiðanlega sjá einhvern íbúanna í sloppnum góða á leiðinni til eða frá pottunum. Þú gætir jafnvel séð einhvern í búðinni á sloppinm, enda ekki óalgengt að fólk kaupi í matinn á leiðinni heim frá pottunum,“ segir Jenný. 

Kaldrananes heldur hátíð árlega að nafni Bryggjuhátíðin og varir hún ávallt einn laugardag, sem er 17. júlí þetta árið. Allir íbúar svæðisins vinna í sjálfboðavinnu til þess að gera hátíðina eins skemmtilega og fjörlega eins og hugsast getur. „Þetta er fjölskylduhátíð þar sem foreldrar og börn skemmta sér saman,“ segir Jenný og bætir við að í ár sé Bryggjuhátíðin haldin í 15 sinn. „Dagurinn byrjar á dorgveiði á bryggjunni fyrir krakkana en við höfum einnig söngvarakeppni og fullt af öðru skemmtilegu handa krökkunum. 

„Aðalsmerki hátíðarinnar er án efa sjávarréttasmökkunin á planinu fyrir framan frystihúsið en kvenfélagið á staðnum stendur fyrir henni. Við bjóðum upp á alls konar sjávarétti til að mynda, hrefnukjöt, selkjöt, grásleppu og lunda af grillinu.Við reynum bæði að bjóða fólki upp á þessi hráefni elduð á hefðbundin hátt auk þess að prófa okkur áfram með nýjar leiðir til þess að bera fram þetta dýrindis sjávarfang,“ segir Jenný. 

Menning og listir eru í hávegum höfð á bryggjuhátíðinni með lista- og ljósmyndasýningum. „Við sýnum iðulega eldri myndir frá svæðinu og er þemað í ár „Snjóaveturinn mikli árið 1995“ en þá var snjóþungi á svæðinu gríðarlegur eins og fólk man kannski eftir. Síðan þá hefur varla snjóað!“ segir Jenný. 

Hátíðarhöldin halda svo áfram fram á kvöld og enda á góðu íslensku sveitaballi. „Ég vil einnig nefna fuglahræðukeppnina sem setur lit sinn á bæinn sem og nýju nöfnin á göturnar og húsin sem nefnd eru eftir hinum ólíku fiskimiðum sem farið var á til veiða í gamla daga og elstu menn muna enn eftir. Þessir þættir lífga vissulega upp á þorpið.“ 

Grímsey er ekki langt frá landi og á Bryggjuhátíðinni þreyta hraustir menn og konur Grímseyjarsund en synt verður úr Grímsey í land. Ekki svo löng leið en krefjandi. 

Í Hveravík má finna fornleifauppgröft þar sem grafin er upp hvalastöð frá 17. öld Talið er að Baskar hafi rekið útgerðina og að hún hafi verið hálfgerð stóriðja þess tíma. „Fundist hafa minjar brennsluofns og múrsteinagólfs sem eru taldar elstu minjar múrsteins á Íslandi. Einnig er talið að Íslendingar hafi fyrst kynnst tóbaki af Böskunum þannig að þeir hafa virðst hafa mikil áhrif,“ segir Jenný 

Ef leitast er eftir frið og ró en einnig mörgum áhugaverðum stöðum að skoða og hlutum að gera, er góð hugmynd að heimsækja þennan einn minnsta hrepp landsins og það skemmtilega samfélag sem hann hefur að geyma.

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga