Greinasafni: Hótel og gisting einnig undir: Veitingar
Hótel Djúpavík á stórafmæli og stendur afmælisfagnaðurinn í allt sumar með listsýningum, tónleikum og fleiri skemmtilegheitum

Hótel Djúpavík 25 áraHótel Djúpavík á stórafmæli á þessu sumri og stendur afmælisfagnaðurinn í allt sumar með listsýningum, tónleikum og fleiri skemmtilegheitum. 

„Þetta er merkilegur áfangi, 25 ára afmælið,“ segir Eva Sigurbjörnsdóttir, hótelstýra á Hótel Djúpavík. „Við erum búin að vera með eina tónleika og höfum nú þegar sett upp fyrstu listsýninguna. Listsýning Smára og Nínu frá Ísafirði var sett upp í byrjun mánaðarins en þau eru mörgum kunn fyrir skemmtilegar myndir. Sýningin heitir 25 og er tileinkuð hótelinu. Þetta eru teikningar og blönduð tækni.“ 

Sýningar og tónlist 
Fjölbreytilegt dagskrá verður á vegum Hótels Djúpavíkur í sumar. Um miðjan júlí tekur Bogi Leiknisson við keflinu af Smára og Nínu og verður með ljósmyndasýningu í matsal hótelsins. Í Síldarverksmiðjunni verður sýningin Áfram með smjörlíkið eftir Hlyn Hallsson og Jónu Hlíf Halldórsdóttur en þau eru með gjörninga og innsetningar. Sú sýning er í framhaldi af sýningu sem nýverið var opnuð í Listasafni ASÍ. Sýningunni á Djúpavík verður hinsvegar fram haldið í Berlín í haust.Þá verður ljósmyndarinn Claus Sterneck með sýningu í Síldarverksmiðjunni.

Eva Sigurbjörnsdóttir, 
hótelstýra á Hótel Djúpavík.


Þá verður spennandi tónlistardagskrá í sumar. Svavar Knútur og Kristjana Stefánsdóttir hafa þegar verið með tónleika. Helgina 18.-20. júní er haldið skákmót í samvinnu við Hrókinn. Því lýkur með kaffihlaðborði. Hinn landsfrægi Tómas R. Einarsson og Ómar Guðjónsson munu halda tónleika 3. júlí á hótelinu. Hápunkturinn verður svo á Djúpavíkurdögum þriðju helgina í ágúst þar sem minnst tvær þekktar hljómsveitir koma fram, Hraun og Blood Group. 

Allskyns gisting 
Hótel Djúpavík byrjaði starfsemi sína með sextán rúmum og nú hefur það tvöfaldast, boðið er upp á gistingu í 32 rúmum í þremur húsum. Boðið er upp á allar tegundir af gistingu, bæði uppábúin rúm á hótelinu og uppábúið eða svefnpokagistingu í Lækjarkoti og Álfasteini. „Allir geta borðað hjá okkur á hótelinu eftir því sem þeir vilja, alveg sama hvar þeir gista,” segir Eva. 

Þegar stórir hópar koma þá er boðið upp á nágrannagistingu og þá er stundum gist í sex húsum í þorpinu eða jafnvel fleirum. „Gistigestum fjölgar stöðugt,“ segir hún. Hótel Djúpavík gerir út á menningartengda ferðaþjónustu og því er fléttað inn í starfsemina ýmsum atburðum. Möguleikarnir eru ótæmandi. Boðið er upp á gönguferðir með leiðsögn, leiki fyrir krakka, siglingar út á fjörðinn, sjóstangveiði auk þess sem boðið er upp á fastar ferðir með leiðsögn um Síldarverksmiðjuna tvisvar á dag, klukkan 10 og 2. Leiðsögnin er á þýsku, ensku og íslensku. 

„Við veitum líka ókeypis ráðgjöf. Við erum alltaf að hjálpa fólki að skipuleggja hvað það á að gera í sumarfríinu sínu og hvernig það getur skipulagt betur ferðalög sín um Ísland,“ segir hún. 

Á Hótel Djúpavík er boðið upp á fjölbreytilegt úrval af góðum mat. Kaffihlaðborð er á hótelinu aðra hvora helgi í allt sumar. Á Djúpavíkurdögum verður mismunandi hlaðborð bæði kvöldin.

Gert er út á menningartengda ferðaþjónustu á Hótel Djúpavík.


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga