Greinasafni: Söfn
Á Selaslóðum - Selasetur Íslands
Steinrunni tröllkarlinn Hvítserkur er eitt þekktasta kennimerki í Húnaþingi vestra (Mynd:Helgi Guðjónsson).

Margt er í boði á selaslóðum í Húnaþingi vestra; stórkostleg náttúra, fjölbreytt afþreying og þjónusta. Á selaslóðum er selurinn í fyrirrúmi enda auðvelt að sjá þar villta seli í sínu náttúrulega umhverfi. 

Húnaþing vestra er landfræðilega fjölbreytt svæði allt frá grösugum heiðum, um falleg fjöll og dali niður að vogskorinni strandlengjunni. Auðugt dýralíf svæðisins skapar kjöraðstæður til ýmis konar náttúruskoðunar auk þess sem fjölmargir veiðimöguleikar eru í ám og vötnum. Ýmsar náttúruperlur eru á selaslóðum, en þar er Hvítserkur einna þekktastur. Að auki má svo telja staði eins og Borgarvirki og Kolugljúfur. Gistimöguleikar eru fjölbreyttir á svæðinu, eða allt frá fjölmörgum tjaldstæðum til fyrsta flokks innigistingar. Kaffihús og veitingastaðir svæðisins sjá svo um að enginn fari svangur í bólið. Hrafnhildur Ýr Víglundsdóttir verkefnisstjóri kynningarátaksins Á selaslóðum segir að hægt sé að stunda selaskoðun bæði af landi og sjó, en auk sellátranna á Vatnsnesi er boðið upp á siglingar úr Hvammstangahöfn. 

„Við höfum reynt að einblína á sjálfbæra þróun í náttúrutengdri ferðaþjónustu. Samhliða því erum við að gera rannsóknir og skoða til dæmis hvaða áhrif ferðamennska hefur á villt dýr og náttúru. Við reynum að skipuleggja ferðaþjónustuna þannig að sem minnst röskun verði á dýraríkinu. Einnig hvetjum við ferðamenn til að sýna tillitssemi og aðgát í kringum villt dýr,” segir Hrafnhildur og bendir á að Selasetur Íslands á Hvammstanga sé góður upphafspunktur ferðar á selaslóðum, en þar er Upplýsingamiðstöðin á Hvammstanga til húsa. 

Óhefðbundinn matur 
Hvað aðra afþreyingu varðar er margt í boði. Hægt er að fara á hestbak, skella sér í fjallgöngu, sund eða fjöruferð, skoða fjölmörg söfn, sýningar og handverkshús, fara í siglingu, renna fyrir fisk eða heimsækja sveitamarkað. Á haustin eru göngur og réttir, en þeim ferðamönnum sem vilja taka þátt í réttarstarfi, svo sem stóðsmölun í Víðidalstungurétt eða Þverárrétt fjölgar ört. Að auki eru fjölmargar fjárréttir á svæðinu sem gaman er að heimsækja og víða er hægt að komast í skotveiði á haustin. 

Hrafnhildur bendir á að Húnaþing vestra sé fyrst og fremst landbúnaðarhérað með ríka matvælaframleiðsluhefð, en mikil vakning er í heimaframleiðslu sem m.a. er seld á sveitamarkaði í Grettisbóli á Laugabakka allar helgar í sumar. „Þarna kemur heimafólk með bæði handverk og mat,“ segir Hrafnhildur. 

Hvað héraðshátíðir varðar er nóg um að vera því þrjár árlegar hátíðir eru haldnar í Húnaþingi vestra yfir sumartímann. Fyrst ber að nefna hátíðina Bjartar nætur sem haldin er seinni hluta júní en þar er fjöruhlaðborð á Vatnsnesi aðalaðdráttaraflið, þar sem boðið er upp á óhefðbundinn mat, afurðir úr sel, hval og ýmiss konar fuglum. „Þetta er óhefðbundinn matur í dag þó að einhvern tímann hafi hann ekki verið talinn óhefðbundinn,“ segir hún. 


Selasetur Íslands Upplýsingamiðstöð  á Hvammstanga  er staðsett í sögufrægu verslunarhúsi Sigurðar Pálmasonar niður við Hvammstangahöfn (Mynd Pétur Jónsson).

Önnur í röðinni er Unglingahátíðin Eldur í Húnaþingi sem er skipulögð og framkvæmd af ungu fólki á svæðinu síðustu helgina í júlí ár hvert. Dagskráin, sem er mjög fjölbreytt, miðast við ungt fólk þar sem hápunkturinn eru flottir útitónleikar í Borgarvirki. 

Sjá nánar heimasíðuna www.eldur.hunathing.is.

Á sunnudeginum þessa sömu helgi fer svo fram Selatalningin mikla á Vatnsnesi þar sem sjálfboðaliðar ganga samtals yfir 100 kílómetra strandlengju og telja seli, en talið hefur verið árlega frá 2007.
Sú þriðja er Grettishátíð sem haldin er á Laugabakka í ágúst en sú hátíð er tengd Gretti sterka, en þar er meðal annars kraftakeppni þar sem keppt er um Grettisbikarinn. 
Sellátur á Vatnsnesi eru talin ein bestu selaskoðunar-
svæði í Norður Evrópu (Pétur Jónsson).

Allar nánari upplýsingar um gistingu og afþreyingu í Húnaþingi vestra má finna á síðunni www.visithunathing.is

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga