Greinasafni: Hestar einnig undir: Hótel og gisting
Gauksmýri - Skemmtileg áning í heimilislegu umhverfi
Skemmtileg áning í heimilislegu umhverfi
 


Við þjóðveg 1, mitt á milli Reykjavíkur og Akureyrar má finna staðinn Gauksmýri í Línakradal, sem er í senn heimilislegt gistihús, veitingastaður með girnilegu grillhlaðborði á kvöldin og hestamiðstöð. Þar að auki er stutt í áhugavert fugla- og selalíf. 

Gauksmýri reka þau hjónin Jóhann Albertsson og Sigríður Lárusdóttir ásamt fjölskyldu og hafa þau einlægan áhuga á að reka umhverfisvæna ferðaþjónustu en þau hafa til að mynda fengið hina svokölluðu Green Globe vottun fyrir starfsemi sína. „Það mætti segja að gistihúsið sé svolítið sérstakt að því leyti að stemningin hér er ákaflega heimilisleg auk þess sem hér er margir listmunir upp á veggjum, flestir eftir Sigríði konu mína,“ segir Jóhann. „Þetta er kannski staður með stíl, ef svo mætti að orði komast.“ 

Á gistiheimilinu sjálfu er gistipláss fyrir 50-60 manns og er hægt að velja á milli herbergja með eða án baðs. Húsið sjálft var gert upp árið 2006 og þar af leiðandi eru öll herbergin með nýjum brag. Auk þess er að finna heimilislegar setustofur fyrir gesti til dægrardvalar. 

Jóhann bendir á að Húnaþing vestra sé um margt óuppgötvað svæði fyrir ferðalanginn. „Í raun má segja að það hafi verið malbikaður vegur hér í gegn svo snemma að fólk hafi dálítið vanist því að keyra bara í gegn,“ segir Jóhann. „En hér eru margar ástæður til þess að dvelja um stund. Vatnsnesið er náttúrlega mikil náttúruperla og síðan má nefna að hér fyrir ströndum er ein mesta selabúseta sem finnst á Íslandi. Hægt er að fara í selasiglingar og skoða einnig Selasetur Íslands á Hvammstanga.“ 

„Þar að auki erum við með veitingasal og erum eiginlega að bjóða upp á nýjung í ferðaþjónustu, grillhlaðborð á milli 19-21 á kvöldin. Það virkar þannig að ávallt eru á borðstólnum 3-5 tegundir grillkjöts auk meðlætis. Við grillum til dæmis lamb, hross, hval, fisk, kjúkling, naut og svín, í rauninni allan skalann,“ segir Jóhann. 

Veitingasalur Gauksmýrar tekur um 80 manns í sæti og er opinn allan daginn sem kaffihús auk þess sem hópar geta einnig fengið hádegisverð á Gauksmýri. „ Ef fólk kýs eitthvað annað en vegasjoppurnar þá erum við án efa góður valkostur, bæði grillhlaðborðið á kvöldin sem og almennar veitingar á daginn. 

Á Gauksmýri er þar að auki bæði hægt að fara í reiðtúra og sjá hestasýningar. Reiðtúrarnir eru í boði fjórum sinnum á dag, kl. 10, 13, 16 og 18 og er hver ferð frá klukkutíma upp í einn og hálfan tíma. „Við förum í ferðirnar hvort sem ein manneskja er mætt á svæðið eða 20 manns. Óvanir fá tilsögn hérna hjá okkur, þá förum við einn hring hérna á býlinu sjálfu og leggjum svo í hann eftir reiðveginum. Vanir hestamenn geta svo fengið sérferðir hjá okkur og komist beint í tengsl við náttúruna,“ segir Jóhann. 

Á hestasýningum kynnist fólk tígulleika þessa þarfasta þjóni mannsins, í gegnum gangtegundirnar fimm sem og aðra eiginleika íslenska hestsins. Sýningarnar fara fram eftir pöntun fyrir að minnsta kosti tíu manns. 

Ekki er langt að sækja í náttúruna frá Gauksmýri en rétt fyrir neðan bæinn má finna mikið fuglalíf við hina svokölluðu Gauksmýrartjörn. „Um er að ræða endurheimt votlendi, en tjörnin þurrkaðist upp um 1960. Sést hafa 40 tegundir fugla við tjörnina, en um 20 tegundir verpa þar að staðaldri. Tjörnin blasir við þegar maður keyrir þjóðveginn en þarna höfum við komið upp góðri fuglaskoðunaraðstöðu fyrir ferðamenn, litlu húsi með sjónauka og alls kyns bókum um fugla,“ segir Jóhann.ldgæfas
„Sjati fuglinn sem sést hefur við tjörnina er án efa Flórgoði, sem er mjög flottur, litskrúðugur fugl. Það verpa 300-400 pör á landinu, þar af 5-6 hér á Gauksmýratjörninni.“ Af öðrum fuglum sem hafast við á svæðnu má nefna; óðinshana, álftarhjón, lómapar, skúfendur, jarðrakan, stokkendur, rauðhöfðaendur og urtendur. Fuglaskoðunaraðstaðan er opin öllum gestum og gangandi, tilvalin áning fyrir þá sem eiga leið um þjóðveginn. 

„Við leggjum upp úr því að hafa allt umhverfi snyrtilegt og jafnramt þægilegt og hafa viðbrögð gesta okkar verið á þá leið að þeim líði hér vel og þyki fallegt,“ segir Jóhann að lokum. 

Gauksmýri er því bæði tilvalin áningastaður fyrir þá sem vilja annað hvort gott grillkjöt í kvöldverðinn eða skoða fuglalífið góða á staðnum. Staðurinn er auk þess kjörinn til dvalar öllum þeim sem vilja uppgötva nýja staði á landinu sínu uppfulla af áhugaverðu dýralífi og fallegri náttúru. 

Nánari upplýsingar má finna á www.gauksmyri.is og í síma 451-2927 eða 869-7992
gauksmyri@gauksmyri.is

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga