Greinasafni: Sveitarfélög
Skagafjörður - Matur og menning í fyrirrúmi
Skagafjöður hefur verið með blómlegri héruðum allt frá því að land byggðist. Í Skagafirði er hægt að skoða sögustaði Sturlungu ásamt því að gæða sér á kræsingum heimamanna sem þeir sækja sjálfir úr firðinum. 

Skagafjörður varð strax á fyrstu öldum Íslandsbyggðar höfuðból. Staða fjarðarins styrktist síðan til muna þegar Hólar urðu biskupsstóll strax á tólftu öld. Nálægðin við Hóla, sem voru ásamt Skálholti valdamiðjur landsins, hafði blómleg áhrif á sveitirnar í kring. Á Hólum var til dæmis starfræktur skóli og fyrsta prentsmiðja landsins var staðsett á Hólum. Í dag er háskóli á Hólum þar sem meðal annars er kennd ferðamálafræði sem er í nánum tengslum við sveitirnar í kring varðandi þróun og kynningu á nýjungum í greininni.

Hólar voru ekki eingöngu aðsetur fyrir upphafningu andans að fornu og nýju, heldur einnig mikilla átaka á Sturlungaöld. Á 13.öld sölsuðu Ásbirningar Skagafjörðinn undir sig. Aðrar valdaættir hreiðruðu um sig annarstaðar á landinu og laust þeim brátt saman í baráttu um völdin í landinu. Í Skagafirðinum fóru fram einar nafnkunnustu blóðúrshellingar Íslandsögunnar, Örlygsstaðabardagi og Flugumýrabrenna. 

Í ágústmánuði árið 1238 varð þar fjölmennasti bardagi Íslandssögunnar að Örlygsstöðum þegar þrjár voldugustu ættir landsins með um 3000 manna her börðust um völdin í landinu. Annarsvegar Sturlungar, en hinsvegar sameinaðir Ásbirningar og Haukdælir.

Félagið Á Sturlungaslóð í Skagafirði stendur fyrir því verkefni að merkja og gera þessa sögustaði aðgengilega. Á söguslóðum Sturlungu í Skagafirði eru upplýsingaskilti sem greina frá atburðum og sum staðar er aðstaða til að setjast niður, borða nestið sitt og njóta náttúrunnar. Í boði eru göngu- og rútuferðir á sögustaðina, með leiðsögn, og fleiri staði sem tengjast þessu tímabili. Hópar geta einnig pantað leiðsögn. Einnig hefur verið gefin út bókin Á Sturlungaslóð í Skagafirði sem tilvalið er að kippa með sér á ferðalag um Sagafjörðinn. Rithöfundurinn Einar Kárason hefur einnig gefið út tvær skáldsögur, Ofsa og Óvinafagnað, sem byggja á Sturlungu og segja frá atburðunum í Skagafirði á lifandi og nýstárlegan hátt, en Einar fékk einmitt bókmenntaverðlaun Íslands 2008 fyrir Ofsa. 

Sturlungaöldin er þó ekki það eina úr íslenskum sagnaarfi sem gerist í Skagafirðinum. Ein magnaðasta afturganga Íslandsögunar, Miklabæjar-Solveig átti samkvæmt sögunni að ganga aftur í Miklabæ í Blönduhlíð. Solveig þessi sem var vinnukona á Miklabæ lagði svo mikla ofurást á Séra Odd að hún skar sjálfa sig á háls þegar hún fékk ekki að eiga hann. Hún gekk svo aftur og birtist fólki í draumi og ekkert hefur til séra Odds spurst síðan hann messaði á Silfrastöðum árið 1786. En Skagafjörður er líka annað og meira en sögustaður. Þeir sem vilja gera vel við bragðlaukana á ferð um landið í sumar er sérstaklega bent á að keyra hægt og rólega í gegnum Skagafjörð og stoppa sem oftast. Best er að byrja á að minnast á bakaríkið á Sauðrárkróki, en þar eiga að fást bestu snúðar landsins. Svo góðir eru þeir að brottfluttir Sauðkrækingar fá oftar en ekki senda snúða að heiman, sé von á einhverjum af Króknum. En matarmenning Skagfirðinga nær lengra en í bakaríið á Sauðárkróki. 

Skagafjörður er mikið matvælahérað en þar mætast fjölbreyttur landbúnaður og öflug vinnsla sjávarafurða. Veitingahús og verslanir leggja sig fram við að kynna fyrir ferðamönnum skagfirskar afurðir og rétti unna úr skagfirskum hráefnum. 

Þróunarverkefnið Matarkistan Skagafjörður sem unnið er í samvinnu við ferðamáladeild Háskólans á Hólum miðar að því að auka þátt skagfirskrar matarmenningar í veitingaframboði á svæðinu þannig að gestir geti notið gæðahráefnis og upplifað menningu svæðisins. Merki Matarkistunnar er ætlað að draga athyglina að mat sem framleiddur er frá grunni eða að hluta í Skagafirði. 

Veitingastaðir sem eru þátttakendur í verkefninu sérmerkja þá rétti á matseðli sem eru að stærstum hluta úr skagfirsku hráefni. Þar má nefna nautakjöt, rækjur, lambakjöt, hrossakjöt, fisk s.s. þorsk og bleikju, brauð og ost, t.d. mozarellaost. Þarna leiða því saman hesta sína bændur, aðilar í ferðaþjónustunni og framleiðslufyrirtæki.

Í verslunum í héraðinu er til að mynda hægt að finna fjölbreytt úrval af skagfirskum matvörum. 

Gott dæmi um veitingastað sem vinnur út frá hugmyndinni um að sækja hráefni heima í hérað er veitingastaðurinn Sölvabar á gistihúsinu Lónskoti á Hofsósi, þar sem eldað er úr matarkistu Skagafjarðar; t.d. úr fiski úr firðinum, fugli úr bjarginu, dýrindis jurtum og grösum úr náttúrunni og aðalbláberjum úr berjalandi Lónkots, sem kitla bragðlaukana. 

Markmið staðarins er að fólk njóti umhverfisins og neyti ljúffengrar matargerðar og eigi eftirminnilega stund í Lónkoti, en þar gefur einnig á að líta myndlist flakkarans Sölva Helgasonar, betur þettur sem Sólon Islandus. En veitingastaðurin er nefndur Sölvabar í höfuðið á Sólon.

Sölvabar, líkt og margir aðrir staðir í Skagafirðinum hafa unnið að því undanfarin ár að þróa hugtakið ”matarferðaþjónusta”, en í því felst að leggja áherslu á gildi matar sem upplifun á ferðalögum. Hingað til hafa flestir tengt matarupplifun á ferðalögum um landið við sveitta hamborgara í vegasjoppum en fyrir Sagfirðinga er matur annað og meira. Hugmyndin byggir á ”Slow-Food” hugmyndafræðinni, þ.e umhverfisvænni matarstefnu sem byggir á verndun staðbundinna matarhefða og menningu sem sett er til höfuðs ”Fast-Food” matarmenningunni sem hefur tröllriðið Vesturlöndum um árabil. 

Á Hofsósi var einnig verið að opna nýja og glæsilega sundlaug þar sem hægt er að sitja í pottunum og horfa til Drangeyjar. Þeir hörðustu geta jafnvel látið sig dreyma um Drangeyjarsund í anda Grettis, en það er með erfiðustu sundleiðum landsins. Á Hofsósi er einnig Vesturfarasetrið á Hofsósi sem var stofnað 1996 til heiðurs Íslendingum sem fluttust til Norður Ameríku á árabilinu 1850-1914. Markmið Setursins er að segja sögu fólksins sem fór og efla tengslin milli afkomenda þeirra og frændfólksins á Íslandi. Vesturfarasetrið býður upp á fjórar sýningar í þremur húsum auk ættfræðiþjónustu, bókasafn, íbúð fyrir fræðimenn og fleira. Sýningar Setursins varpa ljósi á erfiða stöðu fólksins í landinu og skýra ákvörðunina um að flytjast búferlum til Vesturheims. Gestir Setursins fá tækifæri til að afla sér upplýsinga um málefnið og fræðast af starfsfólki og sérfræðingum sem starfa á Setrinu.


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga