Berjalöndin ævintýri líkust - ferðir með leiðsögn um berjalöndin -

Í sumar verður í boði sú nýbreytni í Fljótum í Skagafirði að fara í berjaferð með leiðsögn um berjalöndin. Trausti Sveinsson bóndi á Bjarnargili segir berjalöndin í sveitinni ævintýri líkust. 

„Ég ætla sjálfur að tína tonn í haust.“ Trausti hefur skipulagt 3 daga berja-og gönguferðir í Fljótunum þrjár síðustu helgarnar í ágúst. Trausti og eiginkona hans Sigurbjörg Bjarnadóttir reka ferðaþjónustu á Bjarnargili og þar verður gist. Gist er í uppábúnum rúmum og boðið upp á fullt fæði í 2 daga. Trausti fer með fólk um berjalöndin og aðeins verður leyfð handtínsla. Í ferðunum verður einnig boðið upp á útsýnisgöngu upp á Holtshyrnu sem er fyrir ofan Bjarnargil. Trausti segir að í þessum ferðum verði auk þess gert margt skemmtilegt. Fyrsta berjaferðin þann 13.-15. ágúst er skipulögð í samvinnu við Ferðafélag Íslands. 

Gengið um Fljótafjöllin 
Ferðaþjónustan Bjarnargili hefur líka skipulagt aðra helgarferð með Ferðafélaginu sem verður 22 - 25.júlí. Í henni verður gengið um Fljótafjöllin, þar sem náttúran er stórfengleg og útsýni gott. Sem dæmi má nefna er gengið fram á Lágheiði og inn Klaufabrekknadal upp á Hestfjall. Þaðan er gott útsýni yfir framtíðarútivistarsvæði Tröllaskagans. Trausti bóndi verður fararstjóri í þessari ferð. Gist verður í uppábúnum rúmum og boðið upp á fullt fæði. Trausti segir markmiðið að byggja upp öflugan heilsársrekstur Ferðaþjónustunnar á Bjarnargili. Svæðið bjóði upp á svo marga möguleika og líka á veturna. - Ég vil að hér verði arðbær heilsársrekstur með sjálfbæra þróun að leiðarljósi. En það vantar fjármagn til uppbyggingarinnar og vegna hrunsins er erfitt að fá það.“ 

Gæti orðið draumasvæði fyrir skíðaiðkendur og útivistarfólk 
Fyrir 4 árum fannst snjóöruggt svæði á Klaufabrekknadal, sem liggur í suðaustur af Lágheiðini. Þetta svæði gæti orðið draumur skíðagöngumannsins. „Þarna er hægt að leggja allt að 17 km langar brautir í 700 m hæð fyrir æfingar og keppni í skíðagöngu, meðfram fögrum klettabeltum,“ segir Trausti. Fjallsbrúnirnar umhverfis dalinn eru í allt að 1200 metra hæð og þar eru góðir möguleikar fyrir fjallaskíðamenn. 

Haustið 2008 var sett af stað verkefni þar sem þátttakendur voru ferðaþjónustuaðilar úr Svarfaðadal, Dalvík, Ólafsfirði, Fljótum og nokkrir áhugasamir einstaklingar um vetraríþróttir. Sótt var um fjármagn til að vinna við könnun á möguleikunum en vegna hrunsins var verkefnið sett í biðstöðu. „Það er alveg ljóst í mínum huga að bygging fjallaskála í þessari glæsilegu náttúru er lykilatriði til að lengja ferðatímann og í markaðsetningu Tröllaskagans,“ segir Trausti.

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga