Greinasafni: Sveitarfélög
Nýjungar í ferðaþjónustu á AkureyriAkureyri þarf vart að kynna fyrir Íslendingum enda hafa flestir lagt leið sína til þessa höfuðstaðar Norðurlands. Það er heldur enga stöðnun að finna á þessum vinsæla ferðamannastað, nú í sumar býðst ferðaglöðum landsmönnum ótal nýjungar þar á bæ og verða nokkrar þeirra reifaðar hér.

City Bus – kemur þér hvert sem er á Akureyri 
Yfir sumartímann verður nú boðið upp á þá þægilegu þjónustu að fara með svokölluðum City Bus í gegnum Akureyrarbæ. Er hafður sá hátturinn á að keyptur er miði fyrir daginn og svo getur maður hoppað í og úr þegar það hentar. Stoppað er á helstu ferðamannastöðum bæjarins en einnig er hægt að fá bílstjórann til að láta mann út á ákveðnum stöðum ef svo ber undir. 

Fyrirtækið The Traveling Viking rekur City Bus en um borð í sjálfri rútunni fær maður leiðsögn um sögu og menningu Akureyrar. City Bus hefur akstur sinn kl. 9 á morgnana og tekur klukkutíma að fara hringinn um bæinn þar sem stoppað er á tólf stöðum. Byrjunarreiturinn er ávallt höfnin góða á Akureyri og síðan er farið alla leið í gegnum Kjarnaskóg, í gegnum nýjasta hverfið, Naustahverfi, stoppað hjá sundlauginni og farið í gegnum miðbæinn svo örfá dæmi séu tekin. Síðasti hringurinn er farinn kl. 3 á daginn.

Mikið af ferðamönnum kemur við á Akureyri, til að mynda úr þeim ótalmörgu skemmtiferðaskipum sem heimsækja bæinn. City Bus er sannarlega kjörin leið fyrir þá sem langar til þess að gera sér betur grein fyrir legu bæjarins þó svo að undur hans verði ekki uppgötvuð á einum degi. Fram í miðjan ágúst gengur City Bus daglega, en eftir þann tíma mun hann ganga alla daga nema fimmtudaga og föstudaga. 

Menningarhúsið Hof – alhliða menningarmiðstöð
Þann 28. ágúst verður opnað sannkallað menningarsetur á Akureyri í glænýju húsi þar sem tónlist og sviðslistir verða í hávegum hafðar. Unnið er hörðum höndum um þessar mundir að lokafrágangi á þessu fallega húsi sem stendur við Strandgötu 12. Auk þess að vera miðstöð menninga og lista mun Hof þjóna hlutverki upplýsingamiðstöðvar og ferðaþjónustu í bænum þar sem opinber Upplýsingamiðstöð Akureyrar mun verða staðsett þar. 

Formleg vígsla hússins mun eiga sér stað á menningarhátíð bæjarins, Akureyrarvöku, dagana 27.-29. ágúst, sama dag og afmæli bæjarins er fagnað. Við vígsluathöfnina mun Sinfóníuhljómsveit Norðurlands frumflytja verkið HYMNOS eftir Hafliða Hallgrímsson en auk þess verður mikil viðburðadagskrá í hinu nýja menningarhúsi þá dagana.

Eftir opnunarhátíðina verður svo boðið upp á sneisafulla dagskrá allan veturinn, þar sem flestir munu finna eitthvað við sitt hæfi; leiksýningar, ráð- Nýjungar í ferðaþjónustu á Akureyri stefnuhald, tónlistarnám og danssýningar, svo fátt eitt sé nefnt. 

Skáldahúsin– Nonnahús, Sigurhæðir og Davíðshús
En menning og listir einskorðast ekki aðeins við hið verðandi menningarhús staðarins, langt því frá, því ótal staði er að finna í bænum sem bæði varðveita menningu og sögu og taka þátt í að búa til ný menningarverðmæti. 

Á Akureyri má meðal annars finna þrjú söfn helguð minningu skálda, Nonnahús, Sigurhæðir og Davíðshús. Hús skáldsins Jóns Sveinssonar, Nonna, er án efa þekktast af þessum húsum. Þar má kynnast ævintýrum Nonna bæði í gegnum sögurnar hans og líf Jóns sjálfs. Nonnabækurnar hafa verið þýddar á yfir 40 tungumál, t.d. kínversku og japönsku. 

Sigurhæðir og Davíðshús geyma sögu tveggja höfuðskálda. Matthías Jochumsson bjó í Sigurhæðum sem er að finna rétt hjá Akureyrarkirkju, sem stundum er kölluð Matthíasarkirkja. Í safninu er sýning um ævi Matthíasar. Davíðshús er heimili Davíðs Stefánssonar og er hægt er að ganga um heimilið eins og það var í hans daga og þar með kynnast skáldinu sem féll frá árið 1964.

Auk þess er vert að minnast á leikfangasetur sem verður opnað í júlí í Friðbjarnarhúsi. Húsið er upphafsstaður góðtemplarahreyfingarinnar þar sem fyrsta stúkan var stofnuð innan veggja þess. Húsið er kjörið fyrir leikfangasýningar þar sem það virkar sjálft eins og dúkkuhús. Guðbjörg Ringsted stendur að baki hinu verðandi leikfangaseturs í samstarfi við Minjasafnið á Akureyri, en hún hefur safnað leikföngum í mörg ár og mun lána setrinu leikföngin sín. Nonnahús er opið alla daga frá 10-17 en Sigurhæðir og Davíðshús eru opin alla virka daga frá 13-17. 

Laxdalshús – elsta hús bæjarins
Þar að auki er nýopnað elsta hús bæjarins sem hefur að geyma kaffihús og sögusetur. Húsið var byggt árið 1795 og er raunar eina verslunarhúsið sem stendur enn af 19. aldar kaupstaðnum á Akureyri. Húsið stendur í Hafnarstræti, rétt fyrir neðan hina rómuðu ísbúð Brynjuís.

Í sumar munu verða haldnar sagnastundir í húsinu á vegum Valgerðar H. Bjarnadóttur, sögukonu. Saga tveggja kvenna verður rakin á nýstárlegan hátt, annars vegar af völvunni Heiði, sem spáir fyrir ragnarökum í hinu forna kvæði Völuspá og fáum við að kynnast sögunni á bakvið þessa fornfrægu völvu. Hins vegar sögu landnámskonunnar Þórunnar hyrnu sem var fyrsta höfðingjakona Eyjafjarðar að svo miklu leyti sem hægt er að segja hennar sögu, en eins og með svo margar konur er ekki mikið til af heimildum um hennar líf.

Þessar sagnastundir munu fara fram á sunnudögum og mánudögum í sumar, á sunnudagskvöldum kl. 18:30 og 20, mánudögum kl. 11 og 12:30 á ensku, og á íslensku á mánudagskvöldum kl.18:30 og 20. Auk þess verður hægt að panta sögustundir á öðrum tímum fyrir hópa og jafnvel verðum stundunum fjölgað ef aðsókn verður mikil. 

Hér hefur verið stiklað á stóru varðandi þær nýjungar sem verður að finna í Akureyrarbæ í sumar, sé forvitni lesenda vakin er um að gera að heimsækja heimasíðuna visitakureyri.is og skella sér til þessa fallega höfuðstaðar Norðurlands. 

Minjasafnið á Akureyri – forvitnilegt og fjölskylduvænt safn
Í elsta bæjarhluta Akureyrar, Innbænum, er Minjasafnið á Akureyri staðsett. Þar er að finna áhugaverðar og vandaðar sýningar sem gefa góða innsýn í sögu og menningu svæðisins gegnum tíðina. Sýningarnar eru: „Akureyri - bærinn við Pollinn“ og „Eyjafjörður frá öndverðu“. Þar að auki stendur nú yfir sumarsýningin „FJÁRSJÓÐUR - tuttugu eyfirskir ljósmyndarar 1858- 1965“. Sýningar Minjasafnins vekja án efa áhuga flestra, frá þeim yngstu til þeirra elstu, frá fjölskyldum til vinnustaðahópa því hægt er að bregða sér í búninga. 

Á þessum fallega og gróna stað á Akureyri má sannarlega finna litla töfraveröld sem endurspeglast í safninu sjálfu sem nú hýsir þrjár sýningar, en ekki síður í stærsta safngripnum sem er lítil og falleg kirkja frá 19. öld sem staðsett er í Minjasafnsgarðinum, einum elsta varðveitta skrúðgarði á Íslandi. 

Safnbúðin á staðnum kemur skemmtilega á óvart en hún býður upp á margan góðan varninginn, til að mynda bæði íslenskt handverk og íslenska hönnun. Vert er að minna á að Minasafnið stendur fyrir fjölbreyttum viðburðum allan ársins hring og að á sömu torfu og Minjasafnið er stendur hið sögufræga Nonnahús, sem vert er að skoða, en þar er til húsa minningarsafn um hinn ástsæla rithöfund Jón Sveinsson - Nonna. Ekki missa af þessum söfnum á leið ykkar um Akureyri.

Minjasafnið er opið daglega til 15. sept kl. 10-17. Minjasafnið á Akureyri, Aðalstræti 58, 600 Akureyri, s: 462-4162, www.minjasafnid.is


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga