Greinasafni: Ferðaþjónusta einnig undir: Afþreying
Hvala- og lundaskoðun á eikarbátum


Skonnortan Haukur. Norðursigling bætir fljótlega við skonnortunni Hildi en hún er 
væntanleg frá Danmörku á næstunni.


Norðursigling var fyrsta fyrirtækið á Íslandi til að hefja reglubundnar hvalaskoðunarferðir frá Húsavík og hefur boðið upp á slíkar ferðir frá árinu 1995. Upphafið að rekstrinum má rekja til áhuga og ástríðu fyrir gömlum íslenskum eikarbátum. Bræðurnir Hörður og Árni Sigurbjarnarsynir höfðu áhuga á að eignast og gera upp slíkan bát og til að fjármagna það buðu þeir upp á siglingar með ferðamenn.

Hvalaskoðunarferðirnar hittu í mark hjá ferðamönnum, allir vildu fara á sjó og skoða náttúruna þar. Í byrjun var fyrirtækið aðeins með einn bát, Knörrinn, en fljótlega var öðrum bát bætt við og svo hefur útgerðin vaxið smátt og smátt. Í ár bætir Norðursigling við tveimur nýjum bátum, annar þeirra er Garðar (áður Sveinbjörn Jakobsson frá Ólafsvík) sem verður lengsti eikarbátur í notkun á Íslandi, en hinn er skonnortan Hildur sem verið er að gera upp í Danmörku og von er á til landsins í lok mánaðarins. Fyrir á Norðursigling skonnortuna Hauk. 

„Þetta eru einu hefðbundnu seglskipin sem Íslendingar eiga á floti,” segir Birna Lind Björnsdóttir, nýr sölu- og markaðsstjóri hjá Norðursiglingu. 

Ný skonnorta 
Haukur var smíðaður árið 1973 en Norðursigling lét breyta bátnum í seglskip veturinn 2001- 2002. Haukur var endurgerður í anda gömlu hákarlaskonnortanna sem voru á miðunum undan Norðurlandi á 19. öld. 

„Við höfum haft íslenska strandmenningu að leiðarljósi í því sem við erum að gera og reynt að tengja þetta saman,” segir Birna Lind. 

Skonnortan Haukur hefur verið mjög vinsæl frá því að hún hóf siglingar fyrir Norðursiglingu 2002 og því hefur verið ákveðið að bæta Hildi við í flotann. Á henni verður hefðbundinn skonnortureiði. 


Fyrstu hvalaskoðunarferðirnar hófust árið 1995 og urðu fljótlega vinsælar. Boðið er 
upp á styttri og lengri siglingar.


„Seglskipin hafa verið mjög vinsæl og vakið athygli ferðamanna, bæði íslenskra og erlendra. Þó að siglingahefðin hafi glatast að mestu hjá okkur þá er hún rík í Evrópu og á hinum Norðurlöndunum. Við leggjum áherslu á að endurvekja þennan áhuga og halda uppi þessari gömlu hefð,” segir hún. 

Stuttar og lengri ferðir 
Norðursigling hefur boðið upp á þriggja tíma hefðbundna hvalaskoðunarferðir frá 1995. Frá 2002 hefur einnig verið boðið upp á örlítið lengri ferð, Hvalir, lundar og segl. Þá er farið á skonnortunni í bæði hvalaskoðun, lundaskoðun við Lundey þar sem um það bil 200 þúsund lundar eru yfir sumartímann og svo eru hífð upp segl í túrnum. 

Fyrirtækið er líka að þróa tveggja til þriggja daga ferðir í Grímsey þar sem gist verður um borð í bátnum. Þær ferðir eru jafnt fyrir einstaklinga og smærri hópa. 

„Við ákváðum að koma með annað seglskip til að geta sinnt þeirri eftirspurn betur,” segir Birna. 

Varðveisla eikarbáta er Norðursiglingu efst í huga. Fyrirtækið ætlar að halda því áfram með umhverfisvæn markmið að leiðarljósi og til að efla sjálfbæra ferðaþjónustu á Húsavík. Eikarbátarnir eru fjölskylduvænir, mjög stöðugir og hljóðlátir með þægilegu aðgengi fyrir alla. 

Norðursigling rekur einnig veitingastaðinn Gamla Bauk á Húsavík. Staðurinn leggur áherslu á fiskrétti og hráefni af svæðinu. Kaffihúsið Skuld og minjagripaverslun er einnig á hafnarsvæðinu. 


Birna Lind Björnsdóttir, nýr sölu- og markaðsstjóri hjá Norðursiglingu.

Frekari upplýsingar er að finna á nýrri heimasíðu Norðursiglingar www.nordursigling.is.


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga