Greinasafni: Austurland einnig undir: Sveitarfélög
Breiðdalsvík: Breiðdalur …brosir við þér

Ýmis afþreying er í boði á Breiðdalsvík hvort sem fólk ætlar að dvelja þar um lengri eða skemmri tíma. Áhugaverða staði má heimsækja í þorpinu eða í Breiðdal þar sem finna má fjölbreyttar gönguleiðir.

Þegar Páll Baldursson, sveitarstjóri Breiðdalshrepps, er beðinn um að lýsa Breiðdalsvík segir hann: „Lítið, vinalegt þorp.“ Um 210 manns búa í sveitarfélaginu en um þriðjungur býr ekki í þorpinu sjálfu. 

Ýmislegt er að skoða í þorpinu og sveitinni í kring. Páll nefnir steinasafn í þorpinu. „Segja má að safnið hafi þá sérstöðu að það er fræðilegra en önnur steinasöfn en safnið er vel flokkað og skipulega uppsett; raðað upp eftir steindum og flest sýni tegundagreind og merkt með fræðiheitum.“

Breiðdalssetur er í Gamla kaupfélaginu sem er elsta húsið í þorpinu. Því er ætlað að vera miðstöð menningar, sögu og þekkingar. Þar er meðal annars sýning tengd jarðfræði - í Jarðfræðisetrinu sem er fyrsti hluti setursins sem er opnaður - og er hún byggð á verkum jarðfræðingsins dr. George P. L. Walkers. Jarðfræði Austurlands er þar í aðalhlutverki. 

Í júlí er áætlað að opna í húsinu sýninguna „Þorp verður til - brot úr sögu Breiðdalsvíkur 1850 – 2010“. 

Upplýsingamiðstöð er rekin í Gamla kaupfélagshúsinu. 

Ás Handverkshús er handverks- og gjafavöruverslun og kvenfélagskonur reka útimarkað á sumrin og selja bakkelsi.

Páll nefnir að mikil uppbygging hafi verið í ferðaþjónustu á síðustu árum en í sveitarfélaginu eru fjögur hótel, sveitagisting, sumarhúsagisting og frítt tjaldstæði. „Hótelin á staðnum heita Hótel Bláfell, sem er lítið rómantískt hótel á Breiðdalsvík þar sem boðið er upp á alíslenskan mat í hádeginu, Hótel Staðarborg, en þaðan liggja fallegar gönguleiðir og þar er hestaleiga, Veiðihúsið Eyjar, sem er fyrsta flokks heilsárshótel og veiðirétthafi fyrir Breiðdalsá, og Café Margret sem er fallegt, lítið heilsárshótel með fyrsta flokks gistingu og veitingum. Ferðaþjónustan Skarði leigir sumarhús og er með bændagistingu. Sumarhúsin standa á fögrum stað í Gilsárstekksskógi í mynni Norðurdals.“ 

Sundlaugin í þorpinu er útilaug með heitum potti en þar geta gestir einnig nýtt sér vel útbúna líkamsræktarstöð á sama stað. 

Kraftakeppnin, Austfjarðartröllið, er haldin árlega í ágúst og hefð er fyrir því að lokadagur keppninnar sé á Breiðdalsvík.

Þeir sem til Breiðdalsvíkur koma geta náttúrlega nýtt sér náttúruna allt í kring. „Búið er að stika leiðir yfir fjöll og hálsa. Það er til dæmis stutt og skemmtileg gönguleið á Streitishvarfi sem er nesið á milli Djúpavogs og Breiðdalsvíkur. Hún liggur að sérstöku jarðfræðilegu fyrirbrigði í fjöruborðinu.“ 

Páll nefnir fjöruna við þorpið og bendir á kílómeters langa sandeyri sem hann segir vera frábært útivistarsvæði. „Jafnframt er rétt að nefna eyðibýlin Jórvík og Lindarbakka. Um er að ræða jörð í eigu Skógræktar ríkisins í Suðurdal. Húsin hafa talsverðan sjarma þó þau séu í niðurníðslu en unnið hefur verið að því að bæta aðgengi að jörðinni sem útivistarsvæði.“ Hægt er að tjalda víðar í dalnum og á nokkrum stöðum eru borð og bekkir þar sem er tilvalið að borða nesti. 

Þá má nefna Breiðdalsá þar sem hægt er að stunda silungsog laxveiði og útivistarsvæði er í landi Eydala við Landnyrðingsskjólbakka og við Staðarborg. Fossinn Beljandi er í Suðurdal sem vert er að skoða. 

„Að Heydölum hefur verið kirkja frá fornkristni. Sr. Einar Sigurðsson er þekktastur prestanna en hann orti jólasálminn Nóttin var sú ágæt ein. Minnisvarði um sr. Einar er í kirkjugarðinum.“

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga