Greinasafni: Ferðaþjónusta
Ríki Vatnajökuls í fararbroddi með mat úr héraði


Seljavellir - fyrstir á Íslandi í framleiðslu á Sauðaosti og eini andabóndinn á landinu er með andarækt í ríki Vatnajökuls sem nær frá Lómagnúp í vestri að Hvalnesi í austri og heyrir undir Sveitarfélagið Hornafjörð.

„Fjölbreytt gisting er í Hornafirði og mörg góð tjaldsvæði. Á svæðinu frá Skaftafelli að Höfn eru mörg fín tjaldsvæði þannig að ekki ætti að væsa um neinn. Á tjaldsvæðunum er alltaf laust þó oft hafi verið erfitt að fá inni á svæðinu svona yfir hásumarið. Nú hafa fjölmargir ferðaþjónustuaðilar sem bjóða uppá gistingu stækkað við sig og bætt við gistirými, einnig hafa einhverjir bæst við, segir Rósa Björk Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri Ríkis Vatnajökuls í Hornafirði sem er ferðaþjónustu-, matvæla og menningarklasi Suðausturlands. 

Ekki hefur fallið öskuarða á svæðið innan sveitarfélagsins Hornafjarðar þannig að náttúran er þar öll í miklum blóma og ný fyrirtæki hafa bæst í flóru ferðaþjónustufyrirtækja á svæðinu. Hornfirðingar fengu í fyrra nýja og stórglæsilega sundlaug með gufubaði og ævintýralegum rennibrautum á Höfn en þar var nýlega steinasafn opnað í gömlu sundlauginni. 

„Gamla sundlaugarbyggingin var keypt af framsæknum hjónum sem búa á Höfn og þau hafa staðið að breytingum á sundlauginni í allan vetur. Þau eiga stórt og glæsilegt steinasafn, hafa gengið mikið á fjöll og safnað ólíklegustu steinum síðustu áratugina. “ Það er ævintýraheimur að skoða steinasafnið í þessu umhverfi, segir Rósa Björk. 

Auðvelt að sjá seli og hreindýr 
Boðið er upp á fjórhjólaferðir eftir gömlum árfarvegi inn að Hoffellsjökli. Einnig hefur verið opnaður nýr húsdýragarður í Hólmi á Mýrum. Þar er hægt að komast nálægt íslensku húsdýrunum, til dæmis geitum og kindum, auk þess sem fjölbreytt safn er af íslenskum og erlendum fuglum, kanínum af öllum stærðum og gerðum. Þá er auðvelt að sjá hreindýr hvarvetna í Hornafirði. 

„Þau eru á sumrin inni í dölunum en alltaf er eitt og eitt nálægt byggðinni og í Jökulsárlóni er nánast undantekningalaust hægt að sjá seli,“ segir Rósa. Unnið er að því að laða að fleira göngufólk í þessa mögnuðu náttúru sem er í Ríki Vatnajökuls, jöklar og há fjöll. Ekki gera allir sér grein fyrir því að Sveitarfélagið Hornafjörður telst til Suðurlands og er fært þangað allt árið enda ekki snjóþungt svæði yfir vetrartímann.? 

„Helstu perlur svæðisins eru Skaftafell, Skeiðarársandurinn mikli, Jökulsárlónið og allir skriðjöklarnir. Svo er það hið einstaka Þórbergssetur til minningar um rithöfundinn okkar Þórberg Þórðarson, líf hans og störf en einnig er vert að benda á með því að heimsækja Þórbergssetur fræðist þú líka um lífið í Suðursveitinni og nágrannasveitirnar en þetta var einangraðasta landsvæði Íslands áður en að jökulárnar voru brúaðar. Hvet einnig göngufólk að skoða nýju gáttina að Vatnajökulsþjóðgarði, Heinabergsvæðið. Skemmtilegt er að heimsækja Hvalnesið og fyrir göngufólk er yndislegt að fara upp í Lón og í Lónsöræfi og í raun allt þetta frábæra fjalllendi allt í kringum okkur, segir Rósa Björk. 

Matarkista 
Vakning hefur orðið í matarmenningunni í Hornafirði. Í fyrrasumar var opnuð heimamarkaðsbúð þar sem á boðstólum eru matur og afurðir úr ríki Vatnajökuls eða úr heimahéraði. Þarna eru afurðir frá bændum og smáframleiðendum, trillukörlum og sjávarútvegsfyrirtækjum. Verkefni matvælaklasans um heimamarkaðsbúð hefur bætt aðgengi að ferskum matvælum á svæðinu en einnig skapað markað fyrir hráefni og afurðir úr héraði. Hér á Suðausturlandi er ein mesta matarkista Íslands segir Rósa Björk. 

Heimamarkaðsbúðin er í Pakkhúsinu á Höfn og er opin alla daga nema sunnudaga en það er hægt óska eftir opnun á öðrum tímum. Þar er hægt að kaupa afurðir sem eiga uppruna sinn á svæðinu og eru framleiddar þar. Sem dæmi má nefna reyktan makríl og andakjöt. 

„Það er mikil upplifun að fara í búðina og kíkja á þessar afurðir. Þar er til dæmis á boðstólum eini sauðaosturinn sem er framleiddur á Íslandi en einnig er á svæðinu eini andabóndi landsins. Hér er mikil flóra af góðum veitingastöðum og það ættu allir að finna eitthvað við sitt hæfi hér í og við lendur stærsta þjóðgarðs Evrópu Vatnajökulsþjóðgarðs, segir Rósa Björk.

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga