Greinasafni: List einnig undir: Veitingar
Samlífi listar og lystar - Glæsilegt handverkskaffihús á Hvolsvelli


Við Austurveg á Hvolsvelli, í húsi sem var áður pósthús bæjarins, hefur allsérstætt kaffihús verið rekið síðustu ár af listrænum hjónakornum. Eldstó Café býður nefnilega ekki aðeins upp á gæðakaffi, te og veitingar, heldur spilar handverk ekki síðri rullu innan veggja kaffihússins. Unnendur leir- og myndlistar ættu því ekki að hika við að leggja leið sína til Guðlaugar Helgu og Þórs í Eldstó Café sem hafa ekki slegið slöku við í rekstrinum þrátt fyrir erfitt árferði og langdregnar náttúruhamfarir.

Hjónin á bakvið Eldstó eru engir nýgræðingar þegar kemur að listsköpun. Þór Sveinsson er annálaður leirkerasmiður og hefur skapað sér gott orð fyrir fagmannlega og fallega unnið keramik og kona hans, Guðlaug Helga Ingadóttir, er fullnuma söngkona sem einnig hefur mikla reynslu af málun og hönnun. Saman hafa þau látið sig flest horn hönnunarheimsins varða og eru löngu orðin þekkt fyrir þær fjölmörgu vörur sem þau hanna, búa til og selja síðan í galleríi sem er tengt kaffihúsinu. Nú nýlega hefur kaffihúsið tekið þó nokkrum breytingum sem er ætlað að efla starfsemina og bjóða gestum upp á enn ríkari þjónustu og útvíkkaðan matseðil. 

Stærri og glæsilegri matseðill 
Þó að mikið hafi gengið á í grennd við Hvolsvöll upp á síðkastið eins og alþjóð veit, hafa Eldstóarhjónin engu að síður staðið í stórræðum. Eftir að þau ákváðu að kaupa restina af húsinu sem þau hafa hingað til starfrækt kaffihúsið í hluta af, hafa þau síðan í febrúar unnið að því að breyta litla kaffihúsinu í stærðarinnar matstað sem getur tekið allt að 80 manns í sæti og verður opnaður á ný með pompi og pragt 19. júní.

Eldstó hefur fram að breytingum boðið upp á indælis heimabakaðar kökur og gæðakaffi frá Te & kaffi, en mun frá enduropnun að auki bjóða upp á ýmsar nýjungar á borð við ísrétti, brunch, ýmis konar snarl og kvöldmat frá klukkan sex. Ætlunin er, að sögn Guðlaugar Helgu, að hafa kvöldmatinn mismunandi eftir dögum og auglýsa rétti hvers dags á heimasíðu Eldstóar og á Facebook. Mikið hefur verið lagt í réttina, til dæmis verður boðið upp á fimm rétta brunch frá hálftólf, og er ekki við öðru að búast af þessum listfengu hjónum en að jafnmikið hafi verið lagt upp úr útliti matarins og bragði, enda markmið Eldstóar að gleðja bæði munn og auga. 

Listin í fyrirrúmi 
Ekki aðeins hefur verið aukið við matseðilinn heldur kemur stækkun staðarins einnig listunnendum til góða. Guðlaug Helga segir að galleríið hafi einnig verið stækkað og nú sé betri aðstaða til myndlistar- eða handverkssýninga og jafnvel sé hægt að halda tónleika. Víst er að rýmið verður nýtt til fullnustu.

Að sjálfsögðu verður áfram hægt að nálgast handverk þeirra hjóna á staðnum, en margt af því sem þau hafa búið til hefur einmitt verið notað á kaffihúsinu. Tekatlar, bollar, skálar, ljóskúplar og fleira er meðal þess sem Þór hefur hannað og rennt á verkstæði sínu og er mælt með að fólk kíki á handverkið um leið og það gæðir sér á einhverju hnossgætinu. 

Guðlaug Helga hefur lagt áherslu á skartgripi sem hún hannar og býr til sjálf, en þau hjónin hafa notað svæðisbundið hráefni að miklu leyti í gripi sína, þar á meðal sérstakan eldfjallaglerung sem þau rannsökuðu og þróuðu í samstarfi við Bjarnheiði Jóhannsdóttur og er unninn úr vikri úr Heklu og Búðardalsleir. 

Hátíðaropnun 
Opnunin sjálf, 19. júní, verður sannkölluð listahátið. Samfara því að nýja rýmið verður vígt verður sýning á myndverkum Katrínar Óskarsdóttur, grafísks hönnuðar, opnuð og hinir ýmsu tónlistarmenn munu koma fram, til dæmis Bluessveit Þollýar, Íris Lind Verudóttir og Þórunn Sigurðardóttir, píanisti. Það er líka aldrei að vita nema húsfreyjan taki lagið, en Guðlaug Helga er eins og áður sagði menntuð söngkona.

Húsið verður opnað klukkan hálftólf með nokkurra rétta brunch á boðstólum, en klukkan tvö mun dagskráin sjálf hefjast. Um kvöldið verður svo í fyrsta sinn boðið upp á kvöldmat á Eldstó. Það er því stór dagur í vændum á þessum endurbætta og fallega stað. 

Það er óhætt að segja að Eldstó Café bjóði upp á einstakt samlífi listar og matar sem svíkur engan og er því hægt að mæla með að fólk gefi sér nógan tíma til að skoða, borða og drekka, á meðan það upplifir sérstaka stemningu á þessum glæsilega stað. Hvort sem menn eru á höttunum eftir myndlist, handverki, góðum mat eða þægilegu umhverfi ætti Eldstó að geta svalað hverri fýsn. 

Frekari upplýsingar má finna á heimasíðu Eldstóar: www.eldsto.is

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga