Greinasafni: Austurland einnig undir: SöfnList
Kjarvalsstofa í Fjarðarborg, Borgarfirði eystra

   Jóhannes Sveinsson  Kjarval ( 1885 – 1972 ) skipar sérstakan sess í íslenskri menningar –og listasögu sem einn ástsælasti listamaður þjóðarinnar fyrr og síðar.  Hann var fæddur í Meðallandi í Vestur Skaftafellssýslu en uppalinn frá fimm ára aldri á Borgarfirði eystra.  Þar málaði hann síðar mörg eftirminnileg landslagsverk og teikningar hans af borgfirsku alþýðufólki eru í hópi þekktustu verka hans.

Kjarvalsstofa var opnuð þann 22.júní 2002 í Fjarðarborg, Borgarfirði eystra.  Henni er ætlað að heiðra minningu Jóhannesar Sveinssonar Kjarval, eða Jóa í Geitavík eins og Borgfirðingar kölluðu hann.  Að Kjarvalsstofu standa einstaklingar og félagasamtök á Borgarfirði, Borgarfjarðarhreppur og afkomendur Jóhannesar Kjarval.


 „Í leit að landslagi“ með Kjarval - HMA 2004

Alls eru fjórar sýningar í gangi í Kjarvalsstofu.

Kjarval, ævi og list:
á þeirri sýningu er ævi Kjarvals rakin í máli og myndum frá fæðingu til andláts.  Þar eru einnig munir sem voru í eigu Kjarval.
Jói í Geitavík: Kjarval var þekktur fyrir teikningar af alþýðufólki.  Á þessari sýningu er fjallað um fólkið sem hann teiknaði og hvernig hann tengdist því fólki.
Í Kjarvalsstofu eru einnig tvær myndasýningar á tölvuskjám sem sýndar eru í tveim herbergjum á efri hæð Fjarðarborgar þar sem Kjarvalsstofa er til húsa.  Önnur er samsett af fjölda gamalla ljósmynda af Borgfirðingum, þær yngstu frá því um 1970 og elstu frá því fyrir aldamót.   Þar má sjá mikinn fjölda fólks og sýningin er sett svolítið saman eftir ættum.
Hin sýningin eru kvikmyndabrot frá um 1965 til 1985, klippt saman af Hafþóri Snjólfi Helgasyni en Helgi M. Arngrímsson tók myndirnar að undanskildum myndum frá Söltunarstöðinni Borg en Guðlaugur Ingason tók þær. 
Í „Gamla skólanum“ - HMA 2003

Kjarvalsstofa er staðsett í Félagsheimilinu Fjarðarborg. Þar er varpað ljósi á manninn Jóhannes Sveinsson eða „Jóa í Geitavík“ sem fluttist hingað á fimmta ári sunnan úr Meðallandi. Hann átti síðar á ævinni eftir að breyta listasögu Íslands verulega og er í dag talinn ástsælasti málari þjóðarinnar.

Kjarval sýndi heimahögunum alltaf mikla rækt og m.a. málaði hann 1914 altaristöfluna í Bakkagerðiskirkju sem er einstakt listaverk, einn mesti dýrgripur staðarins. Stór hluti ferðamanna staldrar við í kirkjunni til að sjá þetta meistaraverk.


Altaristaflan í Bakkagerðiskirkju - HMA 2002

Í Kjarvalsstofu er líka sett upp þema um altaristöfluna og einnig um „hausana“ hans Kjarvals. Þá teiknaði hann flesta af sveitungum sínum árið 1926. Sýningin í Kjarvalsstofu tengir skemmtilega þessa „hausa“ við nútímann.

Kjarvalsstofa. 
www.kjarvalsstofa.is 
kjarvalsstofa@kjarvalsstofa.is
Phone: 862 6163


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga