Greinasafni: List
Jóns Laxdal Halldórssonar opna sýningu í Gerðubergi

Verið velkomin á opnun sýningarinnar laugardaginn 4. september kl. 14.

Á sýningu Jóns Laxdal Halldórssonar Viðbrögð gefur að líta myndaröð sem unnin er úr gömlum pappír. Listamaðurinn raðar saman formum, textum og myndum í heillandi myndverk, eins konar klippimyndir sem að þessu sinni eru unnar úr vikublaðinu Fálkanum.

Inntak sýningarinnar má að sögn Jóns finna í pistli ritstjóranna í fyrsta tölublaði Fálkans sem út kom árið 1928, en þar segir: „Blaði því sem nú hefir göngu sína er annað hlutverk ætlað en títt er um hjerlend blöð. Það sneiðir algjörlega hjá aðalverkefni flestra íslenskra blaða, stjórnmálunum. Það segir ekki útlendar frjettir eða innlendar á þann hátt sem venjulegastur er, en lætur myndir með stuttum textum annast frásögnina. Það vill flytja fróðleik og markverð tíðindi í þeirri mynd að sem flestum geti komið að notum. Og það vill vera skemtiblað jafnframt því að vera fróðleiksblað“.  Myndaröðin á sýningunni er sannarlega bæði skemmtileg og fróðleg en verkin telja vel á annað hundrað mynda. Fegurð gamals pappírs og fágað handbragð Jón nýtur sín í verkunum auk þess sem kímnin er aldrei langt undan.

Í tilefni yfirlistssýninga á verkum Jóns árið 2005 var gefin út bók um verk hans og feril. Þar ritar Jón Proppe: „Letur kallar á lestur og við lestur opnast textinn og með honum öll sú menning og saga sem hann er sprottinn úr. ... Jón notar settan texta og umhverfi hans – síður, spássíur og dálka – en list hans felst í að grípa inn í lestur okkar og snúa upp á ferlið sem leiðir okkur frá letri til texta og skilnings. Öll áferð verkanna spilar þar með og natnin við gerð þeirra, gulnuð blöðin og skýr hlutföll síðu og dálka. Verkin eru þannig eins konar afstraksjón þar sem framsetning og formreglur týpógrafíunnar eru virtar en textinn sjálfur hverfur í bakgrunninn eða umbreytist með samhengi sínu í eitthvað annað. ... [Jón] kveikir nýjan og óvæntan skilning eins og sjónhverfingamaður“

Jón Laxdal Halldórsson er fæddur á Akureyri árið 1950. Hann stundaði nám í heimspeki við Háskóla Íslands á árunum 1971-1975. Jón hefur um árabil verið virkur í menningarstarfi á Akureyri, hann átti hlut að rekstri Rauða hússins og var í hópi þeirra sem hófu Listagilið á Akureyri til vegs og virðingar. Hann var bæjarlistamaður Akureyrar árið 1993. Jón hefur tekið þátt í fjölda sýninga bæði innanlands og erlendis. Auk sköpunar eigin verka hefur Jón stundað ýmis störf, svo sem listasögukennslu í Myndlistaskólanum á Akureyri og unnið sem starfsmaður á sambýlum þroska- og geðfatlaðra. Þá hefur Jón sent frá sér ljóðabækur auk þess að yrkja í textakver hljómsveitarinnar Norðanpilta. Jón býr og starfar ásamt eiginkonu sinni og börnum í Freyjulundi við Eyjafjörð, sjá nánar www.freyjulundur.is.

Sýningartími: Sýningin stendur til 10. október og er opin virka daga 11-17 og um helgar 13-16.


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga