Öræfajökull, hæsta fjall Íslands

Hyggi ferðamenn á fjallgöngur, ísklifur eða jöklaskoðun er nágrenni  Öræfajökuls rétti staðurinn til að sækja heim. Hvergi á landinu eru  samankomnir fleiri tindar yfir 1000 metra og þar má einnig komast upp á  jökul í aðeins 50-60 metra hæð yfir sjávarmáli, sem verður að teljast einstakt  í heiminum. Fjallaleiðsögumenn hafa bækistöð í Skaftafelli á sumrin og má  fara í ótal dagsferðir þaðan hvert sem hugurinn girnist. Á veturna eru  skipulagðar jöklaferðir með leiðsögn farnar frá Hofsnesi. 

Yfir svæðinu öllu gnæfir Öræfajökull, hæsta fjall Íslands, en hæsti tindur hans er hinn 2110 m hái Hvannadalshnúkur. Þessi þriðja stærsta eldkeila Evrópu  hefur frá örófi ríkt yfir héraðinu og tvisvar spúið yfir það eldi og brennisteini  síðan land var numið. Gosið 1362 er talið með mestu eldgosum sem orðið  hafa á sögulegum tíma og gróf það fjölda bæja í ösku og lagði sveitina í eyði  um margra áratuga skeið. Samkvæmt Oddaverjaannál “lifði engin kvik kind  utan ein öldruð kona og kapall” af gosið í kirkjusóknum Hofs og Rauðalækjar  og í kjölfar hamfaranna hlaut héraðið nafnið Öræfi. Á Bæ, skammt sunnan við  Fagurhólsmýri, er nú verið að grafa upp fornminjar úr þessu goslagi og hefur  uppgröfturinn stundum verið nefndur Pompeii Íslands. Aftur gaus í jöklinum  árið 1727 og lýsa samtímaheimildir því að ekki hafi sést munur dags og nætur  í marga sólarhringa vegna öskufallsins . Vatnsmagnið í jökulhlaupinu sem  fylgdi gosinu er talið hafa náð um 100.000 m3/sek og hefur hlaupið því orðið  álíka stórt og Amazon, vatnsmesta fljót heims. Til samanburðar má nefna að  Skeiðarárhlaupið 1996 varð mest um 45.000 m3/sek að vatnsmagni.   


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga