Kirkjurnar í Reykholti eru tvær
Kirkjurnar í Reykholti eru tvær Yngri kirkjan (sú stærri) var  teiknuð af Garðari Halldórssyni og reist af Stefáni Ólafssyni á  árunum 1988 til 1996. Minni kirkjan var byggð af Ingólfi  Guðmundssyni og Árna Þorsteinssyni árið 1887 en var gerð  upp á árunum 2001 til 2006. Kirkjuhald í Reykholti fer fram í  stærri kirkjunni en gamla kirkjan er notuð sem safngripur    

Reykholt í Borgarfirði er einn merkasti sögu- og minjastaður á Íslandi, ekki síst vegna Snorra Sturlusonar sem þar dvaldi  á árunum 1179 til 1241. Í Reykholti hefur verið kirkja og prestsetur um aldabil en árlega heimsækja þúsundir ferðamanna  staðinn. Ný og glæsileg kirkja var vígð sumarið 1996 en fjórum árum síðar var húsnæði Snorrastofu opnað. Séra Geir  Waage veitti blaðamanni og ljósmyndara höfðinglegar móttökur þegar hann leiddi þá og fræddi um Reykholt.
Frá fyrstu tíð var gert ráð fyrir  því að kirkjan yrði sem  sveigjanlegust í notkun. Það  var lagt upp úr því að hún  yrði gott tónlistarhús. Hún  hefur reynst afar vel sem slík en fjölmargir  tónlistarmenn nota hana til að  taka upp tónlist sína. Hér er oft mikið  næði og góð aðstaða bæði fyrir kóra  og aðra hópa til æfinga eða tónleikahalds.  Kirkjan er klassísk í formum og  þykir falleg en er samt sem áður sveigjanleg  í allri notkun. Aðsóknin í messur  er auðvitað misjöfn. Við stærri tilefni  er troðfullt út úr dyrum en oft eru líka  færri. Flestir voru í kirkjunni við vígslu  hennar, en þá voru tæplega 500 manns  viðstaddir. Það met verður seint slegið  vegna þess að um 60 manns sátu þar  sem orgelið er nú,“ þetta segir Geir  Waage, sóknarprestur í Reykholti, en  hann hefur fylgst með og tekið virkan  þátt í uppbyggingu í Reykholti.  

Héraðsskólinn í Reykholti  
Ákvörðun um að byggja héraðsskóla  í Reykholti var tekin á síðari hluta  3. áratugar 20. aldarinnar. Skólinn var  byggður 1930 og kennslan hófst árið  eftir. Byggingin er glæsileg og myndarleg  en líka merkileg. Ekki síst vegna  þess að hún er að hluta til endurbyggð  úr fjósi og hlöðu. Þess má sjá greinileg  ummerki undir norðurálmu skólans.  Þar má enn sjá flórana í loftinu en  haughúsið sem áður var varð svo búr  skólans.  „Þegar ég kom hér fyrir nærri 30  árum hafði verið talsverð kyrrstaða  á staðnum lengi. Héraðsskólinn var  starfandi en það gekk mjög hægt að  byggja upp aðstöðu hans. Þetta var  á því skeiði þegar héraðsskólarnir  stefndu raunverulega að lyktum en  eigi að síður var ástandið þannig að  skólinn varð að vísa frá allt að 50 umsóknum  á hverju ári. Það var einfaldlega  ekki nægt pláss í skólanum til að  anna eftirspurninni. Þá voru hér 120  manns í skóla,“ segir Geir. Hann segir  enn fremur að héraðsskólunum  hafi verið haldið í ákveðinni kreppu á  þessu tímabili.  „Stefnumótunin varðandi þessa  skóla var engin. Þeir voru sumpart  skilgreindir sem grunnskólar en svo  var boðið upp á framhaldsnám til  tveggja ára. Þeim var því haldið í millibilsástandi  þangað til þeir voru lagðir  af en á sama tíma voru að byggjast  upp framhaldsskólar í bæjum. Ég er  sannfærður um að þessir skólar hefðu  getað lifað áfram ef það hefðu verið  gerðar ráðstafanir sem ætluðu þeim  framhaldslíf,“ segir Geir en síðast var  kennt í Héraðsskólanum í Reykholti  árið 1997.
Ákvörðun um nýju kirkjuna  tekin  
Gamla kirkjan var byggð árið 1887.  Grunnurinn undir henni var ekki  nógu góður svo fljótlega fór hún að  láta verulega á sjá. Menn voru ef til vill  ekki vanir að byggja svona stór timburhús  á þessum tíma og því hafa menn  ekki þekkt nógu vel til verka. Það fór  að leka mjög snemma og rétt um 1920  var tekin ákvörðun um það að hætta  að halda henni við en safna þess í stað  sjóðum til að byggja hæfilega kirkju  handa staðnum.  Geir segir kirkjuna hvorki hafa haldið  vatni né vindum. „Ástand hennar  fór sífellt versnandi. Viðhaldið var ekkert  vegna ákvörðunarinnar um byggingu  nýrrar kirkju en á meðan þurfti  að notast við þá gömlu. Hún var varla  nothæf og varð undir rest hvorki fugl  né fiskur þótt hún væri í fullri notkun.  Menn ætluðu henni aldrei neina framtíð.  Um 1980 var ástandið á henni orðið  svo dapurt að hún var varla embættishæf.  Hún fauk upp hvað eftir annað  en ég veit ekki hversu oft ég mokaði  hana að innan,“ segir Geir.  Loks varð að taka ákvörðun um  hvort ætti að halda við kirkjunni eða  byggja nýja.  „Lengi vel voru menn að vonast til  að söfnuðurinn fengi hjálp til að laga  hana og þá vildu menn líka breyta  henni lítillega. Sem betur fer stóð  Þjóðminjasafnið algjörlega á móti slíkum  hugmyndum og samþykkt var að  ef hún yrði gerð upp yrði hún gerð upp  í upprunalegri mynd. Menn sættust  því á að réttast væri að byggja nýtt, þó  ljóst væri að sú framkvæmd yrði þungur  baggi á litlum söfnuði sem taldi einungis  250 manns. Töluvert hefur fækkað  síðan en loksins er útlit fyrir að það  muni fjölga í söfnuðinum á nýjan leik,“  segir Geir.

 Vísir að Snorrastofu  
Undirbúningur að kirkjubyggingunni  byrjaði í rólegheitunum á níunda  áratugnum. Menn ákváðu að fara  gaumgæfilega yfir allar hugmyndir um  uppbyggingu í Reykholti frá ýmsum  tímum. Eina hugmyndina átti norskur  maður, Einar Hilsen að nafni. Hann  hafði uppi hugmyndir um að safna  ætti með skipulegum hætti öllum  verkum Snorra Sturlusonar. Hann gaf  Reykholti margar bækur og lagði vísi  að því sem síðar varð Snorrastofa.  Þegar handritin komu heim á 8.  áratugnum voru háværar raddir uppi  um að byggja þyrfti myndarlega bókhlöðu  til að halda uppi minningu  Snorra Sturlusonar og til að nýtast  skólanum sem þá var í fullum rekstri.  Einnig kom fram sú hugmynd að í  Reykholti þyrfti að vera til íbúð fyrir  gestkomandi fræðimenn þar sem þeir  gætu dvalið og unnið að verkum sínum.  Garðar Halldórsson, húsameistari  ríkisins, bar ábyrgð á verkum Guðjóns  Samúelssonar á staðnum. Enginn vildi  brjóta í bága við byggingar Guðjóns  svo Garðar var fenginn til að hanna  þessa stóru byggingu. Í samstarfi við  hann var unnið úr þeim hugmyndum  sem höfðu komið fram og getur að líta  í þessum byggingum hér núna.

Vígð 1996 
Sumarið 1988 var fyrsta skóflustungan  tekin að byggingunni; Reykholtskirkju  og Snorrastofu. Geir segir  þann dag hafa verið merkilegan.  „Það var mjög eftirminnilegur dagur  því þann dag geisaði mikið óveður  á landinu. Gestir, sem voru veðurtepptir  í Reykjavík, hringdu og spurðu  hvort þessu yrði ekki aflýst. Svo hvasst  var í Húsafelli að hjólhýsi fuku til og  skemmdu bíla. En hér í Reykholti  hreyfði varla vind meira en svo að það  blöktu varla fánar á húni. Hið blíðasta  og besta veður og því fór skóflustunguathöfnin  fram í fínu veðri.“  6. september þetta ár lagði frú  Vigdís Finnbogadóttir hornstein að  viðstöddum Ólafi Hákonarsyni Noregskonungi,  en hann færði Snorrastofu  gjöf Norðmanna, samtals eina  milljón norskra króna. Reynt var að  fylgja þeirri reglu að taka aldrei lán  fyrir framkvæmdum, en þegar allir  peningar voru búnir, en byggingin  enn ekki orðin nothæf, var ákveðið  að fá peninga að láni til að ljúka  verkinu. Því láni borga Reykhyltingar  enn af, þrátt fyrir að margir velgjörðarmenn  kirkjunnar hafi lagt  hönd á plóg, bæði norskir og íslenskir.  Sunnudaginn 28. júlí 1996 var  kirkjan því vígð af Sigurði Sigurðarsyni  Skálholtsbiskupi. Þá var sú aðstaða  sem nú er til staðar í Reykholti  tekin í gagnið. Í kjölfarið var ákveðið  að gera gömlu kirkjuna upp og nota  hana sem sýningargrip, enda glæsileg  í alla staði eftir yfirhalninguna.  Undir gólfi hennar fannst meðal  annars stórmerkileg járnsmiðja  frá 13.öld. Smiðjan er nú til sýnis í  gegnum glergólf í kirkjunni.  

Háar afborganir
 Geir segir afborganir af lánum  hvíla þungt á söfnuðinum. „Fyrir fáeinum  árum voru vandræði við að  standa í skilum með skuldir mjög  mikil. Það var ekki undir 7 milljónum  á ári sem þurfti að afla með sníkjum  ár eftir ár. Þá kom hér Jan Peter  Röd, velgjörðarmaður okkar. Hann  vildi frétta hvernig húsið hefði verið  byggt. Þegar hann komst að því hve  miklar skuldir hvíldu á söfnuðinum  ákvað hann að eigin frumkvæði og  vinsemd að gefa okkur 200 þúsund  bandaríkjadali til að minnka skuldirnar.  Hann kenndi okkur merkilegt  orðatiltæki. „You learn, you earn,  you return“ (þú nemur, þú græðir,  þú skilar). Við nutum góðs af þessu  mottói hans og stöndum í eilífri  þökk við hann.“  Þrátt fyrir þær miklu framkvæmdir  sem átt hafa sér stað í  Reykholti undanfarna áratugi er  verkinu ekki lokið enn. „Eitt af því  sem kirkjuna vantar mjög sárlega  er betri lýsing, bæði að innan og  utan. Við eigum enga peninga til að  bæta lýsinguna en værum ákaflega  þakklát ef okkur myndi leggjast eitthvað  til þess verks. Við yrðum ákaflega  fegin ef við myndum frétta af  einhverjum velviljuðum aðila sem  myndi vilja leggja okkur lið við lýsinguna.  Við erum algjörlega fjárvana  eins og er því afborganirnar  eru hærri en sem nemur allri innkomu  Reykholtskirkju. Lýsingin er  ekki allt. Okkur vantar líka handrið  við kirkjutröppurnar að utan en við  eigum ekki peninga til þeirra framkvæmda  heldur. Á meðan verðum  við að bíða og vona að enginn slasi  sig í tröppunum þangað til þetta  verður komið í betra horf,“ segir  Geir bjartsýnn.  Þrátt fyrir að ýmislegt eigi eftir  að gera er Geir ákaflega ánægður  með það sem hefur áunnist á  undanförnum árum. „Þessi árlegu  vandræði að finna til viðbótar föstum  tekjum kirkjunnar til að standa  í skilum við kostnað eru smámunir í  samanburði við hamingjuna yfir því  að hafa svona glæsilegt hús á staðnum.“
 Þrátt fyrir fjárhagserfiðleika er  bjart framundan í Reykholti. Um  þessar mundir er verið að stofna  kirkju og menningarmiðstöð í  Reykholti á nýjan leik. Geir segir að  menn séu að endurnýja það sem  í Reykholti hefur verið öld af öld.  „Þetta felur í sér að prófastdæmið  ætlar að standa að fastri starfsemi í  Reykholti. Það hefur staðið undanfarin  ár að tónleikahaldi í kirkjunni.  Prófastsdæmið hefur auk þess styrkt  kirkjuna vegna Reykholtshátíðar,  sem er ein vandaðasta og fínasta  tónlistarhátíð sem haldin er árlega  á Íslandi. Hér verður meðal annars  árlegt fermingarbarnamót á komandi  árum auk þess sem kórastarfsemi  verður í hávegum höfð. Með  öðrum orðum stendur til að nýta  á héraðsvísu þá aðstöðu sem hér  er, líkt og gert hefur verið í langan  tíma,“ segir Geir að lokum.

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga