Greinasafni: List
Hulda Hákon
Allt frá upphafi ferils síns hefur Hulda Hákon (f. 1956) haft auga fyrir því að varpa einkennilegum hetjuljóma á hversdagslífið. Verk hennar eru minnisvarðar um litla sigra, óhöpp eða bara forvitnileg atvik sem hún varðveitir í uppstillingum, myndum og texta, og sýnir að þau eru alveg jafn merkileg og þau viðfangsefni sem oftast eru uppspretta opinberra skúlptúra. Sýning Huldu Hákon í Listasafninu á Akureyri veitir einstaka innsýn í skrautlegan hugmyndaheim hennar undanfarna tvo áratugi þar sem hún hendir gaman að heimóttarlegum veruleika okkar, snýr upp á hann og kitlar ímyndunaraflið um leið. Í verkum hennar má finna skip og skrímslafjöld, farfugla og þekkta furðufugla, nafngreinda hunda og gamla þjóðlega siði eins og að troðast fram fyrir í röðinni – hreinræktaða sjálfumgleði og þvermóðsku. Þannig fjallar hún um hið fámenna þjóðfélag sem situr fast við sinn keip þótt allt virðist á hverfanda hveli. Hvöss samfélagsádeila skýtur öðru hvoru upp kollinum líkt og þríhöfða þurs milli glettinna vísana í kunningjaþjóðfélagið. Þó eru verk Huldu Hákon ávallt söm við sig og ná hvað eftir annað að frysta andartakið þegar Íslendingurinn hittir skyndilega sjálfan sig fyrir, sitt eðlislæga „déjà vu“. Hann er kominn í dragt eða jakkaföt og þykist orðinn sjóaður í nútímanum og alþjóðlegum samskiptum en innst inni er hann ennþá í lopapeysu og á sauðskinnsskóm. Að vera huldukona þýðir ekki að vera álfur út úr hól. Hún er þessa heims og annars og ekki öllum gefið að koma auga á hana, hvað þá að sjá veröldina frá hennar bæjardyrum. Þótt við rembumst eins og rjúpan við staurinn við að fá botn í tilveruna og reikna okkur út úr núverandi erfiðleikum, er staðreyndin sú að flest verður áfram á huldu.

Í tengslum við sýninguna gefur Listasafnið á Akureyri út bók um Huldu með áhugaverðum texta eftir Auði Jónsdóttur rithöfund og fyrsta „hirðskáld“ Borgarleikhússins, sem lagði sig fram við að kynna sér verkin og manneskjuna á bak við þau. Verkin verða svo nærtæk í meðförum Auðar að þau gætu allt eins átt við þjóðfélagið eftir hrunið mikla eins og lífið í litlu sjávarþorpi úti á landi á sjötta áratugnum eða útþensluskeiðið á þeim tíunda. Í þessari bók eru einnig dregnir saman á einn stað ýmsir af helstu textum um Huldu eftir innlenda og erlenda fræðimenn. Jón Óskar myndlistarmaður hannar ritið eins og honum einum er lagið, enda hæg heimatökin þar sem hann er eiginmaður Huldu og lífsförunautur hennar undanfarin þrjátíu ár.

Hulda Hákon útskrifaðist frá nýlistadeild Myndlista- og handíðaskóla Íslands árið 1981 og hélt síðan til náms í School of Visual Arts í New York þar sem hún útskrifaðist úr skúlptúrdeild árið 1983. Hulda hefur haldið fjölmargar einkasýningar; verk hennar hafa verið sýnd víða um heim og gildir þá einu hvort staðirnir séu fámennir eða fjölmennir: Tassilaaq á Grænlandi eða Chinese European Art Center í Xiamen í Kína. Hún hefur einnig tekið þátt í í fjölda samsýninga í Evrópu, Bandaríkjunum, Kanada og Ástralíu. Í ár mun hún meðal annars sýna í Art OBJECT, Art Modern Gallery á Miami í Bandaríkjunum. Hulda býr og starfar í Reykjavík en hún hefur verið með vinnustofur í Kína og Vestmannaeyjum.

Listasafninu á Akureyri 16. maí - 28. júní

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga