Vatnsdæla á refli
Menningarverkefnið Vatnsdæla á refli verður kynnt þriðjudaginn 11. janúar kl. 13.30
í Sölvhóli, Sölvhólsgötu 13 (gengið inn frá Klapparstíg). Við það tækifæri opinberar Kristín Ragna Gunnarsdóttir teikningar af einum kafla úr Vatnsdælasögu sem verða útfærðar í útsaumaðan myndrefil með þátttöku nemenda í hönnunar-og arkitektúrdeild Listaháskólans og almennings.
 
Verkefnið Vatnsdæla á refli er hugarfóstur Jóhönnu E. Pálmadóttur, bónda og handavinnukennara á Akri í Austur-Húnavatnssýslu og er unnið í samstarfi við Listaháskóla Íslands, Ístex, Textílsetur Íslands og félagið Landnám Ingimundar gamla.
Vatnsdæla er myndræn saga af ástum, átökum og erjum, ættarsaga Hofverja í Vatnsdal og gerist á 9.- til 11.öld.
Verkefnið Vatnsdæla á refli á fyrirmynd í Bayeux-reflinum sem saumaður var á 11.öld.  Markmiðið er að endurvekja forna sögu með frumlegum og nýstárlegum hætti í samstarfi við unga hönnuði samtímans. Samhliða því eru fornri útsaumsgerð, refilsaumnum, gerð skil.
Kristín Ragna Gunnarsdóttir, teiknari og hönnuður, hefur umsjón með hönnun myndefnis sem útfært verður nánar af nemendum á 2. ári í grafískri hönnun við LHÍ. Næsta sumar hefst vinna við að sauma út í sjálfan refilinn. Þá gefst almenningi, jafnt heimafólki, ferðamönnum og öðrum gestum, kostur á að marka spor í menningarsöguna með því að koma í Kvennaskólann á Blönduósi og taka þátt í útsaumnum.
Verkefnið er styrkt af Menningarráði - og Vaxtarsamningi Norðurlands Vestra.

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga