Steinhúsið er fyrsta steinsteypta húsið á Hólmavík
 Steinhúsið - gistihús og hótelíbúðir á Hólmavík

Steinhúsið er fyrsta steinsteypta húsið á Hólmavík á Ströndum, byggt árið 1911. Búið er að gera húsið upp í gamaldags stíl og er það aftur orðið bæjarprýði á Hólmavík sem er lítið sjávarþorp á Vestfjörðum. Á Hólmavík er bæði stutt í alla helstu þjónustu og óspillta náttúru. Tilvalinn staður til að slappa af og njóta þess sem er í boði.

Steinhúsid skiptist i aðalbyggingu frá árinu 1911 og viðbyggingu frá árinu 1928. Aðalbyggingin, sem er gistihúsið, hefur fimm tveggja manna herbergi á efri hæð með uppbúnum rúmum. Á neðri hæð eru tvær sameiginlegar stofur og vel útbúið eldhús fyrir gesti. Í viðbyggingunni eru tvær tveggja herbergja íbúðir með góðri eldunaraðstöðu og uppbúnu hjónarúmi. Gistihúsið og íbúðirnar er vel útbúið af öllum helstu nútíma þægindum og er frítt þráðlaust internet í húsinu. Móttaka Steinhússins er á Finna Hótel, Borgabraut 4. Gott morgunverðarhlaðborð er einnig þar til húsa fyrir gesti okkar og er opið á milli klukkan 8:00 og 10:00.

Steinhúsið er í gamla bænum í sömu götu og Galdrasafnið, Þróunarsetrið, Café Riis og Handverkshús Hafþórs. Aðalbygginguna er einnig hægt að leigja í heilu lagi sem er tilvalið fyrir stórar fjölskyldur og vinahópa. Litlu íbúðirnar eru sérstaklega notalegar og rómantískar fyrir pör sem vilja vera útaf fyrir sig með öll þægindi við hendina. Efri íbúðin er jafnframt fyrirtaks brúðarsvíta og sú neðri hentar mjög vel fyrir barnafjölskyldur.

Saga Steinhússins

Guðjón Brynjólfsson, eða Guðjón snikkari, og eiginkona hans Jakobína Thorarenssen byggðu Steinhúsið árið 1911. Þau höfðu þá rekið verslunina Verzlun Guðjóns Brynjólfssonar á lóð hans í skúr frá árinu 1910. Guðjón sem var bóndasonur ofan úr Kollafirði þótti færast mikið í fang með byggingu Steinhússins og töldu sumir að hann hlyti að setja sig á hausinn með þessari stórbyggingu. Það virtist þó aldrei bera á kröggum þrátt fyrir að hans nyti ekki lengi við eftir byggingu þess en hann lést árið 1914.

Eftir andlát Guðjóns kom það vel í ljós hvað Jakobína var útsjónarsöm og dugleg kona. Það var henni að þakka að aldrei bar á kröggum þrátt fyrir byggingu stórhýsisins. Hún hafði ævinlega leigjendur í Steinhúsinu og seldi því oft fæði líka þó það hafi ekki orðið formlegt gistihús hjá henni. Hún rak áfram verslunina ásamt seinni eiginmanni sínum, Kristni Friðriki Benediktssyni, og fluttu þau verslunina í viðbygginguna eftir byggingu hennar árið 1928. Ýmsir gamlir vörubæklingar, aðallega breskir, fundust upp á lofti við endurbæturnar. Sagt er að Jakobína hafi haft kindur í Skeljavíkinni og notað meðal annars ullina af þeim til vöruskipta við Breta á móti vörum í verslunina.

Húsið seldi Jakobína til Péturs Bergsveinssonar árið 1962 sem gerði á því allmiklar endurbætur og rak þar gistihús til ársins 1971. Einar og Guðmunda Hanssen keyptu þá húsið og héldu áfram rekstrinum til ársins 1976. Þórir Jóhannsson frá Blönduósi keypti húsið af Einari og rak starfsemina í 2 ár. Kaupfélag Steingrímsfjarðar varð að lokum eigandi hússins og leigði það út til ýmissa aðila til gistihúsareksturs. Hótel Matthildur var þar síðast með rekstur í nokkur ár fram til ársins 1999. Eftir það stóð húsið autt og umhirðulaust þar til að systurnar Sigrún og Guðfinna Sævarsdætur keyptu það sumarið 2006 og hófu að gera það upp.

Tillögur að afþreyingu á Hólmavík og nágrenni:

     Beint á móti Steinhúsinu er Galdrasafnið á Ströndum. Þetta er bæði fróðlegt og skemmtilegt safn um galdrahræðslu Íslendinga og ofsóknir vegna hennar á Íslandi á 17. öld. Þar hefur einnig verið opnað kaffihúsið Kaffi Galdur sem býður meðal annars upp á ljúffenga íslenska kjötsúpu með galdraívafi í hádeginu.

    Við hliðina á Galdrasafninu er Handverkshús Hafþórs. Hafþór tálgar úr íslensku birki, listilega vel, íslenska fugla og leggur metnað sinn í að hafa úrvalið sem fjölbreyttast.

    Ef farið er aftur yfir aðal götu bæjarins er komið að elsta húsi Hólmavíkur sem var byggt árið 1897 af norskum kaupmanni. Húsið hefur allt verið gert upp og hýsir nú notalega veitingastaðinn Café Riis.

    Nýleg útisundlaug, heitir pottar og gufa er í nýja hluta bæjarins og er staðsett rétt fyrir ofan tjaldsvæðið. Nýtt, krúttlegt kaffihús með einstaklega skemmtilegt útsýni yfir Steingrímsfjörðinn, Hólmakaffi, er þar einnig í næsta nágrenni.

    Frá Drangsnesi sem er enn minna sjávarþorp við norðanverðan Steingrímsfjörð er hægt að fara í siglingu út í Grímsey. Eyjan er talin stærsta lundabyggð í heimi á einni eyju. Á Drangsnesi er einnig góður veitingastaður með mat úr héraðinu, nýleg sundlaug og heitir pottar í sjávarborðinu, þegar komið er inn í bæinn.

    Dagsferð til Árneshrepps, sem er minnsta bæjarfélag Íslands (50 íbúar) norðan við Hólmavík, mælum við sérstaklega með fyrir náttúruunnendur. Nær ósnortið svæði með mynjar frá stórum atburðum og draumum fyrr á þessari öld sem eru síldarverksmiðjurnar í Djúpavík og við Ingólfsfjörð. Gott er að enda daginn á að skella sér í sund í Krossneslaug. Sundlaugin er staðsett í fjörunni á Krossnesi þar sem heitavatnið rennur í plaströrum frá heitavatnsuppsprettunni, niður hallann og í sundlaugina. Oftast er hún líkari stórum heitum potti en sundlaug.

    Strandahestar er nýtt fyrirtæki á Hólmavík sem býður upp á styttri hestaferðir í nágrenni þorpsins. Margar skemmtilegar ferðir er hægt að fara í nágrenninu. Hringurinn í kringum Þiðriksvallavatn er í sérstöku uppáhaldi. Vatnið er nokkuð stórt í dag eftir virkjun Þverár og sjást leifar af gömlu eyðibýli í botni dalsins.

    Aðeins klukkutíma akstur er frá Hólmavík í fjörðinn Kaldalón í Ísafjarðardjúpi. Kaldalónsjökull skríður þar niður dalinn frá Drangajökli og jökuláin Mórilla rennur um lónið í fjölmörgum síbreytilegum farvegum. Við sunnanvert Kaldalón hefur verið reistur minnisvarði um tónskáldið og lækninn Sigvalda Kaldalóns sem bjó nálægt mynni Kaldalóns. Sigvaldi hreiftst svo að fegurð lónsins að hann tók upp nafn þess.

Verið velkomin í Steinhúsið á Hólmavík

Steinhúsið 1911 ehf
Höfðagata 1 - 510 Hólmavík
Sími: 856 1911
steinhusid@simnet.is

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga