Hótel Rauðaskriða
Hótel Rauðaskriða er rúmgott og vel staðsett hótel á Norðurlandi, rétt við Húsavík.


Hjá Hótel Rauðaskriðu bjóðum við 20 rúmgóð og vel búin gistiherbergi;  19 tveggja manna herbergi og 1 þriggja til fjögurra manna fjölskylduherbergi með baði. Öll þessi gistiaðstaða er ný eða nýleg.

Umhverfi
Rauðaskriða er staðsett við aðalveginn þegar keyrt er til Húsavíkur.  Rauðaskriða í Aðaldælahreppi í Suður Þingeyjarsýslu er landmikil jörð, sem stendur vestan í Fljótsheiði, norðarlega og liggur að Skjálfandafljóti . Umhverfið er vel gróið með afar fjölbreyttu fuglalífi og fögru útsýni.   Ýmsar fallegar göngu- og reiðleiðir eru í landi Rauðuskriðu og næsta nágrenni hennar.  Stutt er að fara á marga fallegustu staði landsins, svo sem Goðafoss, Mývatn, Ásbyrgi og Jökulsárgjúfur.

Sagan
Rauðaskriða í Suður-Þingeyjarsýslu.
Landnámsjörð, fornt höfuðból og löngum sýslumannssetur í Aðaldal. Meðal stórmenna, sem þar hafa búið var Magnús prúði Jónsson svo og lögmennirnir Hrafn Guðmundsson (bannfærður af Jóni biskupi Vilhjálmssyni) og Hrafn Brandsson eldri (sem átti í langvarandi málaferlum við Ólaf biskup Rögnvaldsson).
Rauðaskriða var bústaður sýslumanna og valdsmanna allt fram undir miðja 19. öld.
(Þorsteinn Jósepsson, Landið þitt, bls. 280-281)

Á söguöld bjó þar Eysteinn Mánason, óþokkamenni, sem átti í miklum útistöðum við Áskel goða. Þegar Áskell fór með fjölmenni að Rauðuskriðu til að drepa Eystein safnaði Rauðuskriðubóndinn öllu fé, sem hann átti og rak inn í bæjarhúsin. Að því búnu lagði hann eld í húsin og brenndi allt upp, bæinn ásamt fénaði og öllu heimilisfólki.
(Þorsteinn Jósepsson, Landið þitt, bls. 280-281)

Rauðaskriða var löngum ein af miðstöðvum veraldlegs valds í Suður-Þingeyjarsýslu og bjuggu á jörðinni bæði sýslumenn og lögmenn. Ekki er fjarstæðukennt að ætla að kirkjan í Rauðuskriðu hafi endurspeglað þjóðfélagsstöðu eigenda sinna og verið veglegra hús en venjulegar hálfkirkjur eða bænhús. Í þessu sambandi væri sérstaklega athyglisvert að sjá hvers konar hús kirkja sú var, sem Jón Benediktsson sýslumaður lét byggja í Rauðuskriðu um miðja 18. öld. Það eru því a.m.k. ákveðnar líkur á því að kirkjur í Rauðuskriðu hafi verið annarrar gerðar, en þær smákirkjur sem hingað til hafa verið grafnar upp á Íslandi.
(Orri Vést. FS217-03171)

Fornleifagröftur
Síðsumars 2001 kom Orri Vésteinsson til að líta á friðlýstar fornminjar í Rauðuskriðu, sem er annar af tveimur friðlýstum minjastöðum í Aðaldal.  Árið 2002 veitti þáverandi menntamálaráðherra, Tómas Ingi Olrich, sérstakan styrk til að láta gera forkönnun á fyrrnefndum minjum samkvæmt fyrirliggjandi rannsóknaráætlun.

Uppgröftur fór fram 14.-16. júlí 2003 og ýmsar athuganir á næstu vikum þar á eftir, en mokað var ofan í uppgraftarskurðinn 15. ágúst sama ár.
Við uppgröftinn unnu auk Orra Vésteinssonar stjórnanda; Matthew Brown og Mogens Höegsberg fornleifafræðingar. Garðar Guðmundsson gerði mælingauppdrátt, Magnús Á. Sigurgeirsson jarðfræðingur athugaði gjóskulög og prófessor Ian Simpson jarðvegsfræðingur gerði athuganir á jarðvegi ásamt nemendum sínum. Oscar Astred og nemendur af vettvangsnámskeiði FÍ gengu frá uppgraftarsvæði.
(Orri Vést. FS217-03171)

Í sambandi við rannsóknina gerðu Birna Lárusdóttir og Elín Ósk Heiðarsdóttir fornleifaskráningu í landi Rauðuskriðu.
Niðurstöður hennar benda til þess að Rauðaskriða og næsta umhverfi geti verið mjög ákjósanlegur staður til að rannsaka gamlan landnámskjarna. Í hverfinu hafa upphaflega verið mun fleiri býli en á seinni öldum og minjar sumra þeirra eru vel varðveittar.  Ein af lykilspurningum sem komið hafa fram við rannsóknir á byggðaþróun á Landnámsöld er um það hvenær og hvers vegna þéttbýlir kjarnar eins og í Skriðuhverfi þróuðust yfir í það búsetulag, sem ríkt hefur á Íslandi frá seinni hluta miðalda. (Orri Vést. FS217-03171)

Áætlað er að halda áfram fornleifarannsóknum í Rauðuskriðu á komandi árum eftir því, sem við verður komið, þar sem fornleifakönnun og skráning sýnir fram á að ekki er ólíklegt að ákveðin svör muni fást við mikilvægum spurningum.

Heimildir um kirkju í Rauðuskriðu.
Kirkju í Rauðuskriðu er fyrst getið í bréfi frá 1480 en það ár og næsta á eftir stóð Hrafn Brandsson, lögmaður, í málaferlum við Ólaf Rögnvaldsson Hólabiskup um reikningsskil af kirkjunni.
Kirkja stóð enn í Rauðuskriðu 1712, en þá hafði embættisgerð ekki farið þar fram í manna minnum.  Benedikt lögmaður Þorsteinsson fékk þá leyfi konungs til að reisa nýja kirkju í Rauðuskriðu 1726. Benedikt dó árið 1733 og hafði þá ekki enn komið í verk að reisa kirkjuna. Jón sonur hans sýslumaður, sem einnig bjó í Rauðuskriðu, sótti um nýtt leyfi og fékk það 1746. Jón byggði rausnarlegan bæ og kirkju, er séra Stephán Einarsson í Laufási vígði á tímabilinu milli 1746 og 1754 til guðsþjónustugjörðan, en kirkjan var tekin niður og seld eftir að Jón andaðist 1776.
(Orri Vést. FS217-03171)

Sjá bækling hér
Hótel Rauðaskriða
Aðaldalur
641 Húsavík
Tel: +354 464 3504
Fax: +354 464 3644
hotel@hotelraudaskrida.is

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga