Greinasafni: Söfn
Sögumiðstöðin í Grundarfirði
Í Sögumiðstöðinni í Grundarfirði er að finna sögu genginna kynslóða en auk þess er þar mjög sérstök dótabúð, deild um þróun samfélagsins og ljósmyndasafn Bærings Cecilssonar. Ingi Hans Jónsson í Grundarfirði er forstöðumaður Sögumiðstöðvarinnar. Hann er auk þess frægur fyrir leikni sína í að segja sögur. „Við höfum opnað eina sýningardeild á ári frá árinu 2003 þegar Sögumiðstöðin var opnuð. Hér er fyrst og fremst verið að taka fyrir sögu síðustu aldar, hvernig íslenska þjóðin þróaðist frá því að vera fátækasta þjóð Evrópu í það að verða ein sú ríkasta. Þetta snýst mikið um að sýna þessum gengnu kynslóðum sem í raun mótuðu okkar samfélag virðingu.“ Heimili frá síðustu öld Í deildinni um þróun vélbátanna er því lýst hvernig vélvæðing fiskiskipanna varð kveikjan að mestu framförum sem orðið hafa hér á landi. „Íslendingar gera sér ekki allir grein fyrir hvað þetta framfaraspor hafði mikil áhrif á samfélagið, uppbyggingu þéttbýlisstaðanna og á heimilishætti. Við erum með uppsett heimili frá upphafi síðustu aldar og þar er sýnt hvernig þjóðin bjó og fólki gert kleift að máta sig við þær aðstæður. Síðan fjöllum við um landbúnaðinn, vélvæðinguna og mannaflaþróunina. Við erum einnig með eina sýningu um sögu Frakka á Íslandi, sem er hálfgerður útúrdúr - en tengd okkar sögu vegna þess að Frakkarnir voru mikið hér í Grundarfirði“ segir Ingi Hans. Dótabúðin Ein vinsælasta deild Sögumiðstöðvarinnar er leikfangasafn frá 7. áratugnum. Rammi safnsins er lítil búð, verslun Þórðar Pálssonar. Þórður Pálsson var merkilegur maður sem átti og rak hér sérleyfisbílana sem gengu milli Grundarfjarðar og Reykjavíkur. Þegar Þórður frétti að það ætti að brúa Hraunsfjörð og þar með væri kominn vegur til Grundarfjarðar ákvað hann að byggja sjoppu í stíl við þá sjoppumenningu sem var að ryðja sér til rúms á Íslandi. „Þessi sjoppa var bara tiltölulega venjuleg þangað til leið að jólum. Á jólaföstunni breyttist sjoppan í dótabúð. Þessa sögu og sögu leikfanganna frá þessum tíma erum við að segja gestum okkar. Og það kemur einhver glampi í augun á fólki og allir verða börn á ný,“ segir Ingi Hans. Fyrir framan Þórðarbúð er önnur lítil deild sem heitir „Ólátagerði.“ Þar er leiksvæði fyrir börn þar sem þeim er kennt um hin fornu leikföng „legg og skel“. „Það er mikilvægur þáttur í okkar markmiðum að sagan sé fyrir alla. Það varðar við heiður þessarar þjóðar að börnum sé sinnt á ferðalögum ekkert síður en fullorðnum. Það er ekki nóg að borða bara ís og fara í sund,“ segir Ingi Hans. Bæringsstofa Í Sögumiðstöðinni er Bæringsstofa, minjasafn um ljósmyndarann Bæring Cesilsson. Bæring byrjaði að taka myndir 1943 og var að fram á hinsta dag. Í safni Bærings eru um 120 þúsund ljósmyndir, flestar teknar í Grundarfirði og nágrenni. Bæringsstofa er fjölnota kvikmynda og ráðstefnusalur og þar er sýnt, á tjaldi, úrval úr myndum hans á opnunartíma safnsins. „Þetta safn er auðvitað gríðarlega verðmætt fyrir okkur Grundfirðinga, en það er athyglisvert hve gestir hafa gaman að því að sitja í næði og fylgjast með þessari sýningu,“ segir Ingi Hans. Um tólf þúsund manns heimsóttu Sögumiðstöðina á síðasta ári og hefur aðsóknin aukist ár frá ári. Í gestastofu miðstöðvarinnar er upplýsingamiðstöð ferðamanna, almenningssími, aðgangur að Interneti og vinsælt kaffihús.

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga