Greinasafni: Sveitarfélög
Galdrar og Grímseyjarsund
Íbúar í Kaldrananeshreppi eru rétt rúmlega 100 þar af búa tæplega 70 á Drangsnesi sem sumir segja að sé eitt minnsta fiskimannaþorp í heimi. Flestir íbúar hafa atvinnu sem tengist nálægðinni við hafið. Annað hvort í útgerð eða í fiskvinnslunni Dranga.

Bæjarfell er 345 metra hátt og stendur vörð um þorpið Drangsnes. Þangað er skemmtileg gönguleið og útsýnið þegar upp er komið svíkur engan. Þorpið Drangsnes er við norðanverðan Steingrímsfjörð og frá Drangsnesi er örstutt sigling út í Grímsey sem er einstök náttúruparadís. Í Grímsey er fjölbreytt fuglalíf og þar er mjög mikið af lunda. Norðurströnd Steingrímsfjarðar nefnist Selströnd og dregur nafn sitt af fjölda sela sem oft láta sólina verma sig þar á skerjum. Leiðin um Selströnd , gegnum Drangsnes og norður um til Bjarnarfjarðar um Nesströnd er sérstaklega falleg og skemmtileg, víkur og vogar með fjölbreyttu fuglalífi og skemmtilegum rekafjörum. Fjörurnar eru ævintýraheimur fyrir börn á öllum aldri. Fjölmargir gistimöguleikar Ferðaþjónusta er vaxandi atvinnugrein í hreppnum. Á Drangsnesi er gistingu að fá hjá Gistihúsinu Malarhorni - það er nýbyggt gistihús með 10 herbergjum með baði og sérinngangi. Þá er einnig í boði hjá Gistihúsinu Malarhorni 4 tveggja manna herbergi í sér húsi með eldunaraðstöðu og setustofu. Gistiþjónusta Sunnu á Drangsnesi hefur eitt herbergi með sérinngangi og eldunaraðstöðu. Hótel Laugarhóll er í Bjarnarfirði og þar er bæði að fá herbergi með baði og án. Tjaldsvæði eru bæði á Drangsnesi og í Bjarnarfirði. Á Drangsnesi eru tvö tjaldsvæði í nálægð við Samkomuhúsið Baldur bæði með tengingu við rafmagn. Samkomuhúsið Baldur hentar mjög vel fyrir ættarmót - bæði vegna nálægðar við tjaldsvæðin og þær gistingar sem í boði eru á Drangsnesi.

Heitir pottar í Drangsnesfjöru - aðgangur ókeypis.
Heitir pottar í Drangsnesfjöru - aðgangur ókeypis.
Tvær sundlaugar
Í Kaldrananeshreppi eru tvær sundlaugar. Gvendarlaug hins góða á Klúku er 25 metra laug við hliðina á Hótel Laugarhóli og var byggð árið 1947. Þar er náttúrlegur heitur pottur þar sem vatnið streymir upp úr jörðinni og skemmtilegur heitur lækur fyrir krakkana að sullast í. Á Drangsnesi er ný glæsileg 12,5 m sundlaug tekin í notkun árið 2005. Þar er heitur pottur og eimbað ásamt litlum tækjasal til æfinga. Í fjörunni á Drangsnesi eru heitir pottar og er aðgangur ókeypis. Sömu aðilar og reka Gistihúsið Malarhorn gera út bátinn Sundhana til sjóstangaveiði, hvalaskoðunar og Grímseyjarsiglinga. Fastar ferðir eru daglega og eins er hægt að panta sérferðir fyrir hópa. Mjög stutt er í fengsæl fiskimið. Þá eru hvalir mjög algengir á Steingrímsfirði og oft hægt að sjá þá frá landi. Kaffihúsið Malarkaffi er notalegur veitingastaður sem hefur nánast eingöngu mat úr héraðinu á boðstólum og heimabakaðar kökur. Malarkaffi er með bæði siginn fisk og selspik og signa grásleppu á matseðlinum ásamt ýmsum öðrum gómsætum fisk og kjötréttum. Malarkaffi hefur sérstaklega fallegt útsýni út á sjóinn og til Grímseyjar. 

Bryggjuhátíð: Gómsætar veitingar á bryggjuhátíð.
Galdrasýning
Á Klúku í Bjarnarfirði er einn hluti Galdrasýningar á Ströndum, Kotbýli kuklarans. Þar er hægt að kynna sér hvernig fátækir bændur bjuggu og hvernig þeir nýttu sér galdraþekkingu sína til að reyna að létta sér lífsbaráttuna. Á Drangsnesi hefur Bryggjuhátið verið haldin síðan 1996. Bryggjuhátíðin er skemmtileg fjölskylduskemmtun og dregur fjölda ferðamanna á Strandir ár hvert. Eitt aðal aðdráttarafl Bryggjuhátíðar er sjávarréttasmakkið. Um hádegisbil er gestum Bryggjuhátíðar boðið að smakka ýmsa skrítna og skemmtilega rétti sem allri eiga það sameiginlegt að koma úr Steingrímsfirði. Má þar nefna grillaða signa grásleppu, grillað og margvíslega handerað hrefnukjöt, grillað selkjöt og selabollur og grillaðan lunda. Þá er fiskur í ýmsum útfærslum bæði siginn, saltaður, grafinn og í bollum. Þessi mikla matarveisla er í boði íbúa Drangsness en kvenfélagið Snót og vinir þeirra sjá um að útbúa matinn fyrir gestina. Á síðasta ári var á Bryggjuhátíð Fuglahræðukeppni og setti hún skemmtilegan svip á þorpið. Margar hugvitsamlega gerðar fuglahræður voru settar upp víða um þorpið. Þessi keppni tókst svo vel að hún verður árviss héðan af. Meðal nýjunga í ár er Grímseyjarsund. Synt verður frá Grímsey til lands á Drangsnesi en sundið milli lands og Grímseyjar kallast Grímseyjarsund. Leiðin er um ein sjómíla . Vonast er eftir að sjósundgarpar fjölmenni á Bryggjuhátíð og þreyti Grímseyjarsund. Fá allir viðurkenningarskjal fyrir afrekið. Ekki er vitað til að nokkur hafi hingað til þreytt Grímseyjarsund.

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga