Greinasafni: Veitingar
Halastjarnan
 
Háls í Öxnadal


Dreymt um steinbít með jarðaberjum

Á Hálsi í Öxnadal, skammt frá Akureyri, stendur veitingastaðurinn Halastjarna þar sem gæða má sér á kynlegum réttum á borð við steinbít með jarðaberjum og myntu og marineruðum lambavöðva með túnsúrusorbe.

Halastjarnan var opnuð árið 2004 af Guðveigu Eyglóardóttur, en nú sér systir hennar Sonja Lind Eyglóardóttir um reksturinn. Sonja tekur undir að ákveðin tilraunamennska sé í gangi á Halastjörnunni. „Við gerum það sem okkur langar að gera og erum órædd við að bjóða uppá til dæmis Steinbít með jarðaberjum og myntu, en það er mjög vinsæll réttur hjá okkur. Mig dreymir stundum mat og svo prufa ég að gera hann,“ segir Sonja. Hún segir að megin markmið staðarins frá upphafi hafi verið að bjóða uppá lífrænt ræktað eins og hægt er og nýta hráefni úr nærliggjandi umhverfi og velja íslenskt fram yfir erlent. „Við vinnum allt frá grunni, hvort sem það er soð, marineringar, brauð eða annar matur. Eins munt þú ekki finna kengúrukjöt á Halastjörnu, en þú getur hinsvegar fundið grásleppuhrogn,“ segir Sonja. Á staðnum er salatgarður þar sem ræktaðar eru ýmsar gerðir af salati, sem og kryddjurtir og jarðaber. „Svo tínum við líka hvönn, hundasúrur, blóðberg, ber og annað sem nátturan gefur af sér þarna í kring,“ segir Sonja. Sökum þess að um 20 mínútur tekur að keyra frá Akureyri að Hálsi hefir Halastjarnan boðið gestum uppá þá þjónustu að sækja gesti endurgjaldslaust inn á Akureyri og skutla þeim svo heim aftur. Sonja segir þetta hafa mælst vel fyrir hjá viðskiptavinum, en hún segist ekki hafa heyrt af öðrum veitingastöðum sem bjóða upp á sömu þjónustu. Sonja segir að fegurð Öxnadalsins hafi ráðið staðsetningu staðarinn, en Halastjarnan er staðsett rétt fyrir neðan Hraundranga og skammt frá er Hraunsvatn sem Sonja segir ægifagurt í sannkölluðum fjallasal og krökkt af fiski þar að auki. „Það kemur kannski mörgum á óvart að finna svona veitingastað lengst inn í dal en það er líka það sem er sérstaðan okkar,“ segir Sonja. Hún segir að þónokkuð vinsælt sé að ganga upp að vatninu og renna fyrir fisk, en ekki er rukkað fyrir veiðileyfi. Þá segir Sonja að áhættufíklar sæki sífellt meira í að klífa Hraundrangann, en þar ku víst vera koníakspeli til að væta kverkar hraustra göngumanna. Þá eru styttri gönguleiðir allt í kring, fossar í giljum og áhugaverð gönguleið er á milli Háls og Hrauns fæðingarstaðar Jónasar Hallgrímssonar.

HALASTJARNA YFIR HÁLSI  VEITINGAHÚS
 HÁLSI 601 AKUREYRI

HALASTJARNA@HALASTJARNA.IS


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga