Silungsveiði, fuglalíf og miðnætursól helsta aðdráttarafl Raufarhafnar
 
  Frá Raufarhöfn
Raufarhöfn er nyrst allra kauptúna á Íslandi, hvergi verður vornóttin bjartari né vetrardagurinn myrkari. Veðráttan er mörkuð af nálægð hafsins, vorkoman lætur bíða eftir sér en vetrarríkið nær seint klófestu í austlægum áttum. Á sumrin er suðaustanhafgola, stundum með þokuýringi, aðsópsmikil um hádaginn og fylgir þá oft stafalogn frá kvöldi til morguns, höfnin og Kottjörnin eru þá spegilslétt og stundum Þistilfjörðurinn allur. Oft er hitastig lægst í veðurlýsingum en ef hann leggst í suðvestan átt þá verður hvergi hlýrra en á Raufarhöfn. Í næsta nágrenni eru fjölmörg gjöful silungsveiðivötn, s.s. Ólafsvatn, Selvatn, Raufarhafnarvatn, Djúpavatn, Rifsæðarvatn, Steinunnarvatn og Strútsvatn og veiðileyfið er nánast ókeypis, dýrast kringum eitt þúsund krónur á stöngina!

Fuglalíf er mikið og fjölbreytt og er allt að 45 af 68 viðurkenndum íslenskum varpfuglum að finna í næsta nágrenni Raufarhafnar og því vafasamt að fuglaskoðarar finni sér heppilegri stað á Íslandi. Raufarhöfn er vissulega ekki í alfararleið og ekki við hringveginn og síðasta spölinn þangað er ekki malbikaður vegur. Ferðamannastraumurinn hefur verið hægur framan af sumri en Erlingur Thoroddsen hótelstjóri á Hótel Norðurljósum á Raufarhöfn segir að umræða um það hvað það kosti að fara hringinn í kringum landið hafi ekki virkað hvetjandi á fólk en Erlingur segist halda að ferðamenn, ekki síst Íslendingar, vilji í auknu mæli heimsækja staði sem það hafi ekki séð áður og séu ekki í alfaraleið.

,,Á þessum tíma bjóðum við upp á miðnætursól sem óvíða er fallegri en hér og alveg frábært og fjölskrúðugt fuglalíf. Ferðaþjónustuaðili sem heitir Arctic Travel er að hefja ferðir héðan á sjóstangveiði, en óvíða er meiri afla að fá en hér við Melrakkasléttuna. Einnig er boðið upp á siglingar, t.d. út fyrir Súlurnar og norður fyrir heimskautsbaug en það tekur ekki nema um tvo tíma og er alveg frábær á þessum tíma þegar siglt er á móti miðnætursólinni,” segir Erlingur.

Nýlega var opnað gallerí og kaffistofa á Raufarhöfn sem heitir Kaffi Ljósfang. Að kaffihúsinu stendur handverkshópurinn Gallerí Ljósfang, en auk þess að selja kaffi og meðlæti hafa konurnar á boðstólum handverk og eins munu þær sinna upplýsingaþjónustu fyrir ferðamenn.

Heimskautsgerði og viðurkenningar
Við Melrakkaás á Raufarhöfn er að rísa heimskautsgerði sem er hugmynd Erlings. Haukur Halldórsson listamaður hefur teiknað gerðið og útsett ýmsar aðrar hugmyndir tengdar verkefninu. Ætlunin er að heimskautsgerðið stuðli að vexti og velferð Raufarhafnar á sviði ferðamennsku og skyldra greina og auki með því ferðamannastraum um Norðausturhornið í heild sinni frá Langanesi til Þjóðgarðsins við Jökulsárgljúfur. Heimskautsgerðið er að grunni til allstór hringur hlaðinn grjóti. Sólarljósið spilar lykilhlutverk og er það notað í mörgum myndum en einnig munu vera inni í gerðinu svonefndir dvergasteinar sem ætlað er mikið hlutverk, þar sem fólk getur fundið sinn dverg eftir því hvenær það er fætt í árinu. Þarna tengjast nýjar og gamlar hugmyndir. Í meginatriðum gengur hugmyndin út á að tengja íslenska menningu, bókmenntasögu og sígild vísindi saman við sérstæðar umhverfisaðstæður á norðurhjara landsins og skapa grunn sem hægt væri að byggja á einstaka nýsköpunarhugmynd.

Erlingur hlaut hvatningaverðlaun Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga 2009 og hefur einnig hlotið viðurkenningu frá Ferðamálasamtökum Norðurlands. Ljóst er því að Erlingur er á réttri leið í sinni ferðaþjónustu á Raufarhöfn, sem ætti að gera staðinn eftirsóknarverðan til skoðunar og dvalar fyrir ferðafólk, innlent sem erlent.

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga