Greinasafni: Austurland einnig undir: Hótel og gisting
Hótel Bláfell á Breiðdalsvík
 
Hótel Bláfell 

Kyrrð og friðsæld í faðmi fjallanna.
Fyrir þá sem nóg hafa fengið af skarkala borgarlífsins þá býður Hótel Bláfell á Breiðdalsvík upp á gistingu sem sérhönnuð er fyrir þá sem vilja slaka á og njóta náttúrunnar. Þá er Hótel Bláfell einnig tilvalið afdrep fyrir þá sem eru í leit að rómantísku andrúmslofti í rólegu umhverfi.

Hótel Bláfell var fyrst opnað árið 1982, en hefur verið stækkað í tvígang síðan þá, síðast 1998 og hefur verið lögð áhersla á þægilega gistingu og góðan íslenskan heimilsmat frá upphafi að sögn Friðriks Árnasonar sem er hótelhaldari ásamt eiginkonu sinni Hrafnhildi Ýr Hafsteinsdóttur. „Hótelið er umvafið f austfirskum fjöllum og ríkir þar mikil kyrrð og friðsæld. Það er staðsett í lítilli vík á suðurfjörðum austfjarða og eru íbúar þar einungis um 200. Bærinn er rólegur og bæjarbúar afar vinsamlegir, svo er húsið sjálft mjög vinalegt og skilur eftir sig ánægulegar minningar fyrir flesta,“ segir Friðrik.

Hann segir jafnframt vera að finna á hótelinu þægilega stemmningu fyrir elskendur. „Rólegt umhverfið og þægileg setustofan skemmir ekki fyrir þar. Í bjálkasalnum okkar getur fólk sest niður í þægilega sófa við arineld og notið augnabliksins í miklum rólegheitum. Þar er líka lítilll og hlýlegur salur sem er tilvalinn fyrir minni tilefni svo sem brúðkaup og aðrar minni samkomur,“ segir Friðrik. Til að fullkomna slökunina býður Hótel Bláfell upp á gufubað fyrir gesti sína.

Plokkfiskurinn vinsæll
Á hótelinu má finna veitingastað sem Friðrik segir að mikið sé lagt upp úr að skapi þægilegt og notalegt andrúmsloft í. Á matseðlinum má finna hefðbundna rétti á borð við nautafillé, djúpsteikta ýsu, hamborgara, pizzu og fisk dagsins, en íslenskur heimilismatur fer þar fremstur í flokki. „Við erum með íslenskan heimilismat sem sérhver Íslendingur þekkir vel og má þar nefna hinn sívinsæla plokkfisk, matmikla íslenska kjötsúpu, steiktar fiskibollur og margt fleira,“ segir Friðrik.

Bæði náttúra og þjónusta
Friðrik segir umhverfið án efa vera sérstöðu hótelsins. „Hótelið er staðsett í fallegu og rólegu umhverfi en samt sem áður í bæjarfélagi þar sem stutt er í þjónustu, en þar er sundlaug með heitum pott í göngufjarlægð ásamt öllum helstu nauðsynjum svo sem lítilli verslun, pósthúsi, banka, bensínstöð og fleiru. En það þarf ekki að leita langt til þess að komast í snertingu við náttúruna og er nóg að taka léttan göngutúr í kringum hótelið, til dæmis meðfram litlum læk sem rennur þar,“ segir Friðrik. Vegna nálægðar sinnar við náttúruna segir Friðrik að hótelið henti einnig vel fyrir útivistarfólk sem og fjölskyldufólk. Hann segir töluvert vera um að fólk komi og gisti og fari í gönguferðir út frá hótelinu. Þá sé stutt í veiði í Breiðdalsá sem Friðrik segir eina bestu veiðiá landsins. „Svo er Meleyri falleg strönd fyrir innan Breiðdalsvík og þangað er skemmtilegt að fara í gönguferð fyrir fjölskylduna, en þar er ríkulegt fuglalíf,“ segir Friðrik.

Hann segir Hótel Bláfell einnig vera sniðugan kost fyrir stærri sem minni hópa til þess að njóta góðra stunda saman í faðmi fjallanna. „Hótelið er þannig staðsett að það hentar einnig vel fyrir bílferðalanginn, það er vel staðsett á milli Hafnar í Hornafirði og Egilsstaða og fínt að taka náttstað hér á ferðalagi sínu um Austurlandið,“ segir Friðrik.

Næg afþreying
Friðrik segir að þótt Breiðdalsvík sé ekki stór bær megi finna sér margt áhugavert til dundurs og nefnir þar Steinasafn sem er staðsett við hliðina á hótelinu. Þá er handverksmarkaður steinsnar frá hótelinu í Handverkshúsinu Ási, en þar er að finna margvíslegt handverk unnið af handverksfólki á Breiðdalsvík. Við hliðinu á handverksmarkaðnum er einnig kvenfélag Breiðdalsvíkur með markað á föstudögum þar sem seldur er heimabakstur Skammt undan er Gamla Kaupfélagið sem er safn Breiðdælinga, en Kaupfélagshúsið er elsta húsið á Breiðdalsvík, reist árið 1906, og hefur það verið í endurbyggingu síðastliðið ár. Húsinu er ætlað að vera miðstöð menningar, sögu og þekkingar í víðum skilningi. „Sveitarfélagið hefur lagt mikinn metnað í að gera Gamla Kaupfélagið að góðu safni og menningar- og ráðstefnuhúsi, svo er einnig í húsinu jarðfræðisetur sem getur vakið áhuga margra,“ segir Friðrik.

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga