Greinasafni: Veitingar
Við ósa Ölfusár. Veitingastaðurinn Hafið Bláa

Við ósa Ölfussár á milli Þorlákshafnar og Eyrarbakka stendur veitingastaðurinn Hafið Bláa í stórbrotnu landslagi þaðan sem sjá má öll svipbrigði hafsins, hvort sem heldur er rennislétt haf eða brjálað brim og villtur sjór. Eins og geta má sér til um er megináhersla lögð á sjávarrétti á Hafinu Bláa, enda ekki langt að sækja hráefnið, en Hafið Bláa fær glænýjan fisk og humar frá Þorlákshöfn. Þá er í boði harðfiskur og söl með íslensku smjöri bæði forrétt og í eftirrétt, en sölin eru tínd á skerjunum fyrir utan glugga Hafsins Bláa og harðfiskinn verkaður á staðnum. Til viðbótar við sjávarfangið má einnig fá lamb, kjúkling og grænmetisrétti. Hafið Bláa býður þá upp á barnamatseðil, hádegismatseðil, miðdagsseðil og fjölbreyttan kvöldseðil. Þá eru kaffihlaðborð um helgar sem hafa mælst ákaflega vel fyrir, svo vel að einhverjir hafa tekið upp á því að bjóða fjölskyldum sínum að fagna afmælisdögum sínum í slíku kaffihlaðborði. 

 
Staðurinn var opnaður sumardaginn fyrsta árið 2003, en það eru hjónin Þórhildur Ólafsdóttir og Hannes Sigurðsson ásamt börnum þeirra sem standa að baki framtakinu. Þórhildur er fædd og uppalin á landareigninni og segir að útsýnið spili stóran þátt í andrúmslofti staðarins. „Þegar er sól, blíða, hreint og tært loft er hægt að njóta útsýnisins og sjá yfir Ölfusána þar sem blasir við fjallahringurinn og má þá sjá Ingólfsfjall, Heklu, Eyjafjallajökul og svo mótar fyrir Vestmannaeyjum í fjarska,“ segir Þórhildur. Á staðnum er útipallur sem Þórhildur segir að gestir nýti sér óspart og sitji þar langtímum saman og njóti útiverunnar og andi að sér sjávarilmnum. Hún segir það þó þvert á móti eitthvert skilyrði til að njóta verunar á Hafinu Bláa að það sé góðviðri. „Þegar það er rok og brim á skerjunum, sem eru 200 metra frá landi, er útsýnið stórkostlegt. Atlantshafið er alltaf sjarmerandi,“ segir Þórhildur. 

Húsið sjálft er nokkuð sérstætt, en þegar inn er komið má sjá að því svipar til báts á hvolfi. Þá má sjá listaverk á útipallinum sem er líkan af sjávarbotninum frá Selvogsvita að Þjórsá. En Þórhildur segir reyndar að listaverk séu í hverjum einasta glugga á Hafinu Bláa og á þá við útsýnið. Á Hafinu Bláa er líka hægt að fræðast lítillega um sögu og umhverfi staðarins og má þar meðal annnars sjá minnismerki um eitt mesta björgunarafrek Íslandssögunar sem átti sér stað á Óseyrinni á árum áður. Þar er einnig mikið fuglasafn og nokkur sjávardýr til sýnis. En það sem er ef til vill hvað merkilegast við staðinn er staðsetningin, en staðurinn er byggður á sandi þar sem engin mannvirki eru sjáanleg í margra kílómetra fjarlægð.


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga