Greinasafni: Veitingar
Í Gullfosskaffi
Gestrisni og gæði í hávegum höfð á Gullfosskaffi

Í Gullfosskaffi ríkir sannkölluð íslensk sveitagestrisni þar sem menn leggja áherslu á að taka vel á móti gestum, bjóða þeim upp á íslenska rétti úr íslensku hráefni og sjá til þess að þeir þurfi ekki að bíða langtímum saman eftir veitingunum. 

Svavar Njarðarson og Elfa Björk Magnúsdóttir, kona hans, eiga og reka Gullfosskaffi sem tók til starfa fyrir 15 árum. Á þessum árum hefur staðurinn vaxið og þróast í takt við íslenska ferðaþjónustu en hann stendur steinsnar frá Gullfossi, þeim stað sem útlendingar jafnt sem Íslendingar sjálfir vilja berja augum að minnsta kosti einu sinni á ævinni. 

„Við leggjum áherslu á íslenska matseld og kaupum helst allt hráefni hér í heimabyggðinni bæði í súpur, salöt og annan mat sem hér er fram borinn dags daglega,“ segir Svavar. „Við bjóðum upp á kjötsúpu og alls konar grænmetissúpur og helst allt úr íslensku hráefni. Síðan erum við með matarmikil salöt. Ef hingað koma hópar er hægt að panta til dæmis lax, silung, kjötrétti, grill eða hlaðborð en nauðsynlegt er að panta þetta í síðasta lagi daginn áður svo við getum undirbúið komu gestanna sem best og viðað að okkur glænýju hráefni í réttina.
“ Að sjálfsögðu er líka hægt að fá sér kaffi og kökur á Gullfosskaffi. Kökurnar eru allar heimabakaðar og kaffið er nýlagað, m.a. nýmalaðir espresso drykkir. Gullfosskaffi getur nú tekið við 350 manns í sæti en nýverið var þar bætt við 200 fm. sal. Þá geta um 100 manns setið úti á veröndinni fyrir utan veitingastaðinn og er vinsælt að tylla sér þar með ís eða bjór á góðviðrisdögum. Á næstunni verður tekin upp sú nýjung að grilla íslenskt lambakjöt á pallinum og segist Svavar vera handviss um að það eigi eftir að falla ferðalöngum vel í geð.
 
Gullfosskaffi er opið allan ársins hring; frá 9-18 yfir veturinn en á sumrin er opið fram til klukkan 21.30. Svavar Njarðarson kemur frá Brattholti, sem er þekktur staður úr sögu Gullfoss. Þar bjó snemma á síðustu öld Sigríður Tómasdóttir bóndi sem mótmælti því harðlega þegar selja átti Gullfoss útlendingum. Í Brattholti reka nú foreldrar Svavars og bróðir Hótel Gullfoss, hótelið er með veitingasal og þar eins og á Gullfosskaffi mætir gestinum sönn íslensk sveitagestrisni og gesturinn finnur að hann er velkominn. 

www.gullfoss.is


Myndbönd

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga