Greinasafni: Veitingar
Fjöruborðshumarinn - 35 þúsund manns komu í Fjöruborðið á síðasta ári
Fjöruborðshumarinn dregur til sín prinsa og prinsessur

Fjöruborðið á Stokkseyri og humarinn þar draga til sín gesti sem aldrei fyrr en nú eru 15 ár frá því staðurinn var opnaður. Þangað koma jafnvel prinsar og prinsessur og gæða sér á Stokkseyrarhumrinum sem fellur öllum jafn vel. Sést það best á því að 35 þúsund manns komu í Fjöruborðið á síðasta ári að sögn Jóns Tryggva Jónssonar en hann og Róbert Ólafsson eiga og reka staðinn. Í upphafi var aðeins einn lítill salur, Himinninn, í Fjöruborðinu og rúmar hann um70 manns í sæti. Tjaldið, sem rúmar um 100 manns í sæti, bættist síðan við og hentar m.a. vel fyrir stóra hópa. Loks er það Hafið, salur sem tekur 70 manns í sæti. En það er humarinn sem fer með aðalhlutverkið í Fjöruborðinu og það sem allir eru á höttunum eftir. 
Róbert og Jón, eigendur Fjöruborðsins.

„Hér hefur alltaf verið borinn fram sami rétturinn, Fjöruborðshumar og meðlæti, hingað kemur fólk fyrst og fremst í þeim tilgangi að gæða sér á humrinum og njóta góðrar þjónustu starfsfólks okkar,“ segir Jón Tryggvi. Hann bætir við að humarsúpan sé sívinsæl og hana megi jafnt fá sem aðalrétt eða forrétt. Þeir sem ætla ekki að borða humar geta fengið lambafillet eða grænmetisrétt og að sjálfsögðu eitthvað fyrir börnin. Í eftirrétt fá gestir sér svo sneið af heimabökuðum hnallþórum. 

Fjöldi erlendra gesta kemur í Fjöruborðið og fái menn gesti frá útlöndum er Fjöruborðið í einu af efstu sætum þeirra staða sem á að heimsækja, enda Fjöruborðið einstakt hér á landi. Jón Tryggvi segir að mikið sé líka um að fólk úr sumarbústaðabyggðum í nágrenni Stokkseyrar geri sér dagamun og komi og snæði humar og fái sér súpu ásamt nýbökuðu brauði og sósum. 

 
Á sólríkum sumardögum er hægt að borða úti á palli og þegar búið er að borða geta menn gengið upp á fjörukambinn og virt fyrir sér öldur Atlandshafsins sem oftar en ekki eru stórfengleg sjón. Fjöruborðið er opnað kl. 12 á hádegi og opið fram eftir kvöldi. Starfsliðið er á þriðja tug en þess má geta að Róbert er lærður matreiðslumaður og Jón Tryggi framreiðslumaður. www.fjorubordid.is


Myndbönd

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga